“Allir þeir lögfræðingar, sem ég hef rætt við eru sammála um, að
ábyrgð ríkissjóðs Íslands (á Icesave-reikningnum) nái ekki lengra en
tryggingarsjóður innstæðueigenda getur staðið undir.”
Ármann Kr. Ólafsson, alþm., 30. okt., .2008
“Allir lögfræðingar, sem ég talaði við, töldu, að þetta væri bindandi,
að við yrðum að borga (20.887 evrur)”
Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði, 27. nóv., 2008
Sagt er, að landamerkjadeilur og lagaþras sé eins konar þjóðaríþrótt landans. Ég viðurkenni fúslega, að þetta getur verið skondin íþrótt upp að vissu marki – allavega finnst iðkendunum það oftast nær sjálfum. En ef þrasið snýst upp í hártoganir og útúrsnúninga um aukaatriði, getur gamanið farið að kárna. Þrasið umhverfist þá í merkingarlítið stagl um aukaatriði, sem kemur engum að gagni.
Mér sýnist lagaþrasið, sem spunnist hefur út frá spurningunni um, hvort íslenska ríkið beri ábyrgð á innistæðutryggingum útibúa Landsbankans á EES-svæðinu, vera af síðarnefndu sortinni. Og ekki jókst mér tiltrú á, að þessi þjóðaríþrótt Íslendinga þjóni jákvæðum tilgangi, við lestur greinar Sigurðar Líndal um þetta efni í Pressunni. Mér skilst að grein Sigurðar sé a.m.k. að hluta andsvar við Mbl –grein minni: Um smjörklípukenninguna og seðlabankastjórann, frá 7. júlí s.l. (sjá www.jbh.is). Fyrirfram hefði ég ætlað, að prófessorinn gæti rætt lögfræðileg álitamál af stillingu og yfirvegun. Þetta er jú hans fag. Munnsöfnuður hans kemur mér því á óvart: Hann segir mig fara með “staðlausa stafi”, “ósannindi ofan á ósannindi” og “beita uppspuna og ósannindum”. Hvað veldur þessari tilefnislausu vanstillingu? Er þetta kannski ómissandi ívaf í þjóðaríþróttinni?
Lesa meira