SAMNINGAR VIÐ EVRÓPUSAMBANDIÐ ERU LYKILLINN AÐ LAUSN VANDANS

Hvernig getum við komið hjólum atvinnulífsins aftur á fullt með 70% fyrirtækja tæknilega gjaldþrota, óstarfhæfa banka og vaxtastig lána vel yfir 20%, sem sogar til sín það litla sem eftir er af lausafé fyrirtækja? Hvernig getum við aflað gjaldeyris til að borga niður skuldir okkar þegar verð á útflutningsafurðum (fiski og áli) fer hríðlækkandi vegna áhrifa heimskreppunnar og við þurfum að notast við gjaldmiðil sem er í gjörgæslu og samkvæmt skilgreiningu ónothæfur í milliríkjaviðskiptum?
Spurningarnar lýsa kjarna þess vanda sem ný ríkisstjórn stendur frammi fyrir.

Það þolir enga bið að gera nýju bankana starfhæfa. Viðbárur eins og þær að eignamat þeirra taki enn langan tíma verða einfaldlega ekki lengur teknar gildar. Það er hlutverk nýs viðskiptaráðherra að binda endi á biðstöðuna. Hann nýtur trausts til þess að finna þau úrræði sem duga. Hér má engan tíma missa. Skuldastaðan og vextirnir þýða að ný ríkisstjórn verður þegar í stað að óska eftir endurskoðun á forsendum og framkvæmd aðgerðaáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF-AGS).

Lesa meira

FRAMTÍÐARSÝN

Nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur yfirgefið stjórnarráðið eftir 18 ára slímusetu hefur hann um leið kollvarpað þrálátum goðsögnum um hlutverk flokksins í íslenskum stjórnmálum.

Sú fyrsta er að Sjálfstæðisflokkurinn sé forystuflokkur íslenskra stjórnmála. Það ber ekki vott um mikla forystuhæfileika að geta ekki á 14 árum gert upp hug sinn til stærsta viðfangsefnis samtímans, sem er aðild Íslands að Evrópusambandinu. Óttinn við klofning flokksins hefur lamað flokksforystuna og gert hana óstjórnhæfa.

Lesa meira

THE INTERNATIONAL FINANCIAL CRISIS: THE CASE OF ICELAND – ARE THERE LESSONS TO BE LEARNT

The text of this working-paper is an elaborated version of a lecture given by the author at a seminar held by the Faculty of Law and Economics of the Friedrich Schiller University at Jena in Türingen in Germany November 27, 2008.

The text has been revised to bring it up to date as of end of year 2008.

The text of this working-paper is an elaborated version of a lecture given by the author at a seminar held by the Faculty of Law and Economics of the Friedrich Schiller University at Jena in Türingen in Germany November 27, 2008. The text has been revised to bring it up to date as of end of year 2008.

Continue reading

“GJÖR RÉTT, ÞOL EI ÓRÉTT “

Getum við Íslendingar lært eitthvað sem máli skiptir af óförum annarra þjóða og viðbrögðum þeirra við áföllum? Við fengum lærdómsríkt svar við þeirri spurningu af vörum Görans Persson, fv. fjármála- og forsætisráðherra Svíþjóðar, í ræðu sem hann flutti fyrir fullu húsi í Hátíðarsal Háskólans, 10. desember.

Göran var sjálfur fjármálaráðherra í ríkisstjórn jafnaðarmanna þegar alvarleg fjármála- og bankakreppa reið yfir Svíþjóð á árunum 1992-95. Svíar urðu að grípa til róttækra ráðstafana til að verja sænsku krónuna falli (himinháir stýrivextir) og til að forða bankakerfinu frá hruni (tímabundin þjóðnýting lykilbanka). Það mæddi mikið á fjármálaráðherranum, Person, á þessum árum. Hann varð á tímabili óvinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar, sem er sönnun þess að hann var ekki haldinn ákvarðanafælni. Persson kom til Íslands í boði Viðskiptadeildar H.Í. og Félags fjárfesta til þess að miðla okkur persónulega af reynslu sinni.

Lesa meira

VIÐTAL KRISTJÁNS ÞORVALDSSONAR VIÐ JÓN BALDVIN FYRIR BIRTU, FYLGIRIT FRÉTTABLAÐSINS

“Ef við ætlum að taka á þeim vandamálum sem að steðja verður að leggja þau í dóm kjósenda,” segir Jón Baldvin Hannibalsson ákveðinn þegar hann er spurður hvað blasi við í íslenskum stjórnmálum um þessar mundir. Jón Baldvin er kvikur í hreyfingum og hugsunum sem aldrei fyrr þegar hann sest niður með blaðamanni Birtu undir hádegi á mánudagsmorgni á aðventunni, mitt í alvarlegustu efnahagskreppu sem herjað hefur á íslensku þjóðina.

EFTIRFARANDI VIÐTAL TÓK KRISTJÁN ÞORVALDSSON VIÐ JÓN BALDVIN FYRIR BIRTU, FYLGIRIT FRÉTTABLAÐSINS Í DESEMBER 2008.

Eitt af eilífðarumræðuefnum íslenskra stjórnmála er tilvist Jóns Baldvins Hannibalssonar, skoðanir hans og hugsanleg endurkoma hans í atvinnustjórnmálin. Það er einlæg ósk margra að Jón Baldvin snúi aftur en að sama skapi ekki laust við að sumir óttist það. Jafnt andstæðingar sem samherjar. Sjálfur hefur hann aldrei sagt alveg skilið við pólitík, þótt hann hafi um árabil starfað í diplómatíunni sem sendiherra og eigi nú að heita sestur í helgan stein. Upp á síðkastið hefur hann tekið fullan þáttí umræðunni og sent frá sér ítarlegar greinar um hið grafalvarlega ástand sem blasir við þjóðinni.

Lesa meira

NÝJA ÍSLAND. VONSVIKIN ÞJÓÐ Í LEIT AÐ SJÁLFRI SÉR

Í tilefni af bók Guðmundar Magnússonar: Nýja Ísland – listin að
týna sjálfum sér (JPV útgáfa 2008)

Á þessari bók má lesa um aðdragandann að því að sjálfstæði Íslands var tekið að veði upp í skuld. En Bókin var skrifuð fyrir hrun og ber þess merki. Nú þegar spilaborgin er hrunin og þjóðfélagsvefurinn er að rakna upp fyrir augum okkar, er ráðvillt þjóð leitandi að svörum: Hvað kom fyrir? Hún mun ekki finna svörin sem hún leitar að á þessari bók. Til þess þarf að kafa dýpra en þar er gert. Engu að síður er þetta áhugaverð bók og lærdómsrík. Áhugaverð vegna þess að stiklað er á stóru í frásögn af mönnum og atburðum sem, skref fyrir skref, stefndu málum þjóðarinnar í óefni; og lærdómsrík vegna þess að bókin vekur lesandann til umhugsunar um það, hvers vegna svona illa er fyrir okkur komið.

Höfundurinn skrifar af eftirsjá um þá veröld sem var. Hann dregur upp aðlaðandi mynd af þjóðfélagi fyrri tíðar sem hann lýsir sem stéttlausu þjóðfélagi. Ríkasti maður landsins (Tolli í Síld og fisk) vann í kjötvinnslunni við hliðina á starfsfólki sínu og gegndi skyldum sínum refjalaust sem hæsti skattgreiðandi þjóðarinnar. Og maðurinn sem átti plássið, eins og t.d. Einar Guð fyrir vestan, lét sér annt um sitt fólk og sýndi föðurlega umhyggju þegar á reyndi. Þeir bárust ekki á og deildu kjörum með fólkinu í landinu.

Lesa meira

AFHJÚPUNIN

Hrun efnahagslífsins, sem íslenska þjóðin upplifir nú með vaxandi sársauka frá degi til dags, þýðir að framvegis verður ekkert eins og var. Nú verður ekki lengur undan því vikist að horfast undanbragðalaust í augu við staðreyndir um það sem miður hefur farið í okkar þjóðlífi og við höfum hingað til viljað leiða hjá okkur eða látið liggja milli hluta.

Við þurfum að uppræta hina eitruðu spillingu klíkuveldisins, sem lengst af hefur viðgengist í venslum stjórnmála og viðskipta á lýðveldistímanum. Hrun bankanna á trúlega eftir að afhjúpa ýmislegt sem þolir lítt dagsins ljós. Óeðlilegt útlánaaukning bankanna seinustu mánuðina fyrir hrun til eignarhaldsfélaga í eigu forkólfa helstu auðklíkna vekur upp spurningar um hvað varð af þessum gríðarlegu fjármunum? Mun þeirra sjá stað í raunverulegum eignum auðkýfinganna erlendis? Eða rann stór hluti þessara fjármuna eftir leynilegum leiðum inn á felureikninga gervifélaga í skattaparadísum í Karabíska hafinu, á Kýpur og víðar?

Lesa meira

TILRAUNIN UM ÍSLAND

Hvers vegna er svo hörmulega komið fyrir okkur Íslendingum sem raun ber vitni? Þeir sem leita munu svara við þessari spurningu úr meiri fjarlægð frá viðfangsefninu í framtíðinni munu sjálfsagt velta fyrir sér ýmsum vísbendingum um siðferðilega hnignun þjóðar, sem hafði ekki nógu sterk bein til að þola góða daga.

En menn munu einnig rannsaka brotalamir og veilur í stjórnskipun og stjórnarfari lýðveldisins. Slímusetur eins flokks – og raunar lítillar valdaklíku í forystu hans – hátt í tvo áratugi samfellt, kann ekki góðri lukku að stýra. Það býður einfaldlega upp á spillingu og nærir valdhroka þeirra sem telja sig smám saman eðalborna til auðs og valda. Fjölmiðlar – eða eiga þeir kannski að heita fámiðlar – í eigu tveggja auðkýfinga eða undir húsbóndavaldi Flokksins, í krafti ríkisins, bætir ekki úr skák. Illkynja meinsemdir eins og t.d. löglaust og siðlaust kvótakerfi og ónothæfur gjaldmiðill, fá að grafa um sig í þjóðarlíkamanum og eitra út frá sér. Þjóðmálaumræðan er yfirborðskennd og snýst um aukaatriði, samkvæmt hinni frægu “smjörklípuaðferð” seðlabankastjórans.

Lesa meira

BER ENGINN PÓLITÍSKA ÁBYRGÐ?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið ráðandi afl í stjórnmálum á Íslandi á lýðveldistímanum. Síðastliðin sautján ár hefur flokkurinn farið með allt í senn forsætisráðuneytið, fjármálaráðuneytið og stjórn Seðlabankans(í persónum tvegga fyrrverandi borgarstjóra Reykjavíkur). Þar með ber Sjálfstæðisflokkurinn óumdeilanlega höfuðá byrgð á þeirri efnahagsstefnu, sem nú hefur beðið algert skipbrot.

Þegar minnt er á þessa staðreynd bregst formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi forsætisráðherra við með því að segja að það megi ekki perónugera vandann. Meðan allt lék í lyndi og góðærið ríkti (þótt það væri að vísu mestan part tekið að láni) þótti sjálfsagt að persónugera dýrðina í persónu Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra (1991-2004). En nú þegar spilaborgin er hrunin og þjóðarbúið er ein rjúkandi rúst er bannað að persónugera vandann. Þá er ekkert Davíð að kenna, hvorki sem forsætisráðherra né Seðlabankastjóra. Þaðan af síður þykir kurteislegt að persónugera vandann í persónu varaformanns flokksins og fjármálaráðherra (1998-2006). Umræðan verður samkvæmt þessu að fara fram undir nafnleynd.

Lesa meira

SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN OG EVRÓPUMÁLIN: FLOKKSHAGSMUNIR GEGN ÞJÓÐARHAGSMUNUM

Hvers vegna hefur Sjálfstæðisflokkurinn staðið þvert í vegi fyrir því að þjóðin gæti látið á það reyna, hvort brýnustu þjóðarhagsmunum væri betur borgið með aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru?

Hvers vegna hafa forystumenn flokksins ekki viljað heyra á það minnst, jafnvel þótt meirihluti þjóðarinnar og meirihluti þeirra eigin kjósenda hafi löngum viljað láta á þetta reyna? Hvers vegna þverskallast forystumenn flokksins við öllum slíkum kröfum, þótt flestir forvígismenn íslensks atvinnu- og fjármálalífs, sem reyndar gera flokkinn út, hafi snúist á þá sveif með vaxandi þunga í seinni tíð?

Lesa meira