Það þolir enga bið að gera nýju bankana starfhæfa. Viðbárur eins og þær að eignamat þeirra taki enn langan tíma verða einfaldlega ekki lengur teknar gildar. Það er hlutverk nýs viðskiptaráðherra að binda endi á biðstöðuna. Hann nýtur trausts til þess að finna þau úrræði sem duga. Hér má engan tíma missa. Skuldastaðan og vextirnir þýða að ný ríkisstjórn verður þegar í stað að óska eftir endurskoðun á forsendum og framkvæmd aðgerðaáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF-AGS).
SAMNINGAR VIÐ EVRÓPUSAMBANDIÐ ERU LYKILLINN AÐ LAUSN VANDANS
Hvernig getum við komið hjólum atvinnulífsins aftur á fullt með 70% fyrirtækja tæknilega gjaldþrota, óstarfhæfa banka og vaxtastig lána vel yfir 20%, sem sogar til sín það litla sem eftir er af lausafé fyrirtækja? Hvernig getum við aflað gjaldeyris til að borga niður skuldir okkar þegar verð á útflutningsafurðum (fiski og áli) fer hríðlækkandi vegna áhrifa heimskreppunnar og við þurfum að notast við gjaldmiðil sem er í gjörgæslu og samkvæmt skilgreiningu ónothæfur í milliríkjaviðskiptum?
Spurningarnar lýsa kjarna þess vanda sem ný ríkisstjórn stendur frammi fyrir.