PÉTUR SIGURÐSSON – MINNING

Þegar ég kom fyrst til vetursetu á Alþingi haustið 1982, hafði Pétur setið þar fyrir í heilan áratug. Hann var beitarhúsaformaður í Skjaldbreið – húsvörður á nútímamáli, en þar var að finna skrifstofur þingmanna í forsköluðum timburhjalli, sem áður hafði verið hótel með vafasamt rykti.

Pétur var því þingreyndur maður, þegar fundum okkar bar fyrst saman. En meira máli skipti, að hann var lífsreyndur maður. Hann hafði staðið sína plikt sem sjómaður á yngri árum, staðið fyrir útibúi kaupfélagsins á Grundarfirði, setið bæði í stjórn sjómannafélagsins og frystihússins á staðnum og boðið fram krafta sína í sveitarstjórn í sextán ár, þrjú kjörtímabil í Eyrarsveit (Grundarfirði) og eitt á Kjalarnesi. Fyrir Framsóknarmenn með stórum staf. Því að hann var Framsóknarmaður í húð og hár.

Lesa meira

HANNES HAFSTEIN- MINNING

“Ert þú þessi frægi Hannes?” – spurði Gro Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs þegar ég kynnti fyrir henni Hannes Hafstein, aðalsamningamann Íslands í samningum EFTA-ríkjanna við Evrópusambandið um Evrópska efnahagssvæðið. Það sem við köllum EES í daglegu tali. Tónninn gaf til kynna að henni þætti nokkuð til þess koma að taka í höndina á þessum alræmda samningaþjarki Íslands. Þeir eru ekki margir, embættismenn íslenskir, sem forsætisráðherrar í útlöndum leita uppi á alþjóðafundum til þess að mega kasta á þá kveðju. Stjórnmálaforingjum, hverrar þjóðar sem þeir eru, er yfirleitt flest annað betur gefið en örlæti í garð annarra. Þessi saga segir því meira en mörg orð um þau bæði – Gro Harlem og Hannes.

Starf aðalsamningamanns Íslands í EES – samningunum við Evrópubandalagið var hápunkturinn á starfsferli Hannesar Hafsteins. Hafi einhverjir haft um það efasemdir fyrirfram, að Hannes væri réttur maður á réttum stað í því vandasama hlutverki, þá velktist enginn í vafa um það eftirá. Hvorki við, sem bárum pólitíska ábyrgð á samningsgerðinni, né viðsemjendur okkar, hið harðsnúna samningagengi Evrópusambandsins, sem hefur samningatækni að atvinnu alla daga ársins.

Lesa meira

BERGUR SIGUBJÖRNSSON – MINNING

Bergur var óvenjulegur maður. Hann var frjáls í hugsun, frjáls andi. Hann var útkjálkamaður með heimssýn, heimsborgari með djúpar rætur í heimahögum. Hann gerðist þjóðvarnarmaður í ærlegu andófi við veru bandarísks hers á Miðnesheiði, enda frá frá Heiðarhöfn á Langanesi. Samt var hann aldrei þjóðernissinni í þeim skilningi, að hann vildi upphefja ágæti eign þjóðar á kostnað annarra. Þess vegna átti hann stutta samleið með þeim , sem byggðu andóf sitt gegn hersetunni á einni saman þjóðrembunni. Hann var ekki þannig maður. Samt var hann einn af þeim.

Að loknu prófi í viðskiptafræði frá Gylfa og Ólafi Björnssyni, hélt hann eftir stríð til Svíþjóðar, þar sem hann las hagfræði. Það var á þeim tíma, þegar Stokkhólmsháskóli var einhver besti hagfræðiháskóli í heimi. Bergur var fínn hagfræðingur. Og hafði alltaf, meðan okkar kynni héldust, ómengaðan áhuga á því sem máli skipti um þjóðfélagið, sem hættir til að fara fyrir ofan garð og neðan hjá þeim sem halda að hagfræði snúist um bókhald.

Lesa meira

DR. MARO SONDAHL, RÆÐISMAÐUR ÍSLANDS Í CURITIBA Í BRASILÍU – MINNINGARGREIN

Einar Gústafsson, ferðamálafulltrúii í New York og frændi hans flutti okkur þá harmafregn, að Maro Sondahl, ræðismaður Íslands í Curitiba í Brasilíu, hefði farist í hörmulegu umferðarslysi í Norður- Brasilíu þann 10. Jan. s.l.. Maður sem geislaði af bjartsýni, atorku og lífsgleði væri allur. Mig setti hljóðan. Enginn veit sína ævina fyrr en öll er.

Minningarnar um góðan dreng hrannast upp. Það var síðla vors árið 1999. Sendiherra-hjónin í Washington D.C. héldu til Brasilíu til að afhenda Cardosa forseta trúnaðarbréf fyrir sendiherra Íslands í Brasilíu. Ég átti í framhaldinu viðræður við utanríkisráðherra, þróunarmálaráðherra, sjávarútvegsráðherra, senatora og fylkisstjóra. En hafði samt allan tímann í huga að taka frá tvo daga til að heimsækja borgina Curitiba í Parana í Suður-Brasilíu. Af því að ég hafði haft spurnir af því, að þar væri marga af afkomendum Brasilíufaranna að finna.

Lesa meira

RÖGNVALDUR SIGURJÓNSSON, KONSERTPÍANISTI, MINNINGARGREIN

Það var vorið 1965, og ég var á gangi um Vesturgötuna í einhverjum gleymdum erindagerðum. Ég gekk framhjá fornfálegu, tvílyftu timburhúsi, sem stóð úti við gangstéttina. Þegar ég var kominn framhjá, sneri ég við og gekk til baka. Tók ég rétt eftir því, að það voru engin gluggatjöld á neðri hæðinni? Húsið skyldi þó ekki vera til sölu? Ég var nýkominn heim frá námi og hafði ströng fyrirmæli um að hafa augun opin fyrir húsnæði í gamla vesturbænum. Ég knúði dyra hálfhikandi. Og mikið rétt. Húsráðandi, frú Sigríður Siemsen, ekkja Páls Einarssonar, fyrsta borgarstjóra Reykjavíkur, sagðist vera að bíða eftir kaupanda. Og hér var hann kominn. Daginn eftir var gengið frá kaupunum. Þetta var ást við fyrstu sýn. Ég fann, að húsið hafði sál, og það tók hlýlega á móti mér. Hitt vissi ég ekki fyrr en Bryndís var flutt inn með allt sitt hafurtask og búin að glæða þetta gamla hús nýju lífi, að því fylgdi kaupbætir á efri hæðinni. Þar bjuggu Rögnvaldur og Helga ásamt sonum sínum Þór og Geir. Upp frá því var tónlist Rögnvaldar undirtóninn í lífi okkar allra næstu árin. Reyndar varð þetta sögufræga hús umgjörðin um líf okkar Bryndísar og barnanna í aldarfjórðung. Að vísu varð tæplega tíu ára hlé meðan við Bryndís skruppum vestur til að stofna menntaskólann. Þegar við snerum aftur, voru Rögnvaldur og Helga á braut. En sambandið rofnaði aldrei, heldur varð að vináttusambandi fyrir lífstíð.

Rögnvaldur og Helga voru ólík sem dagur og nótt. Hann lifði fyrir tónlistina, en hún lifði fyrir hann. Hann var hávær, stórkarlalegur, frásagnaglaður og hamhleypa við hljóðfærið. Hún var hljóðlát, hugulsöm, mild í dómum og hjartaprúð og sá um í smáu og stóru, að hann gæti sinnt köllun sinni. Til samans voru þau fullkomin, menningarheimili í hjarta þessa vaxandi þorps, sem hafði aðdráttarafl fyrir þá, sem leituðu út fyrir hversdagsleikann.

Lesa meira

Minning: Finnbogi Rútur Valdimarsson bankastjóri

Minning: Finnbogi Rútur Valdimarsson bankastjóri Andlátsfregn Finnboga Rúts föðurbróður míns barst mér í þann mund sem utanríkisráðherrar

V-Evrópuríkja settust á rökstóla í höll Evrópubandalagsins í Brussel – í salarkynnum sem þeir kenna við Karlamagnús.

Mér var hugsað til frænda míns um leið og ég lagði hlustir við orðræðu starfsbræðra minna, í þessari nýju höfuðborg gömlu Evrópu. Mér varð hugsað til þess, að hér hefðihann notið sín öðrum mönnum betur við að sækja og verja málstað Íslendinga í alþjóðamálum og etja kappi við mannvitsbrekkur annarraþjóða, með galdri og kúnst. Hannhefði ekki þurft að nýta neitt túlk unarkerfi, fljúgandi fær sem hann var í höfuðtungum álfunnar: frönsku, spænsku, þýsku og ítölsku (Guðrún dóttir hans hefði kannski þurft að hjálpa upp á rússneskuna). Sérfróður um alþjóðalög og rétt; lifandi alfræðibók um sögu og menningu, hugsunarhátt, hugsjónir, hagsmuni og hindurvitni þeirra þjóða, sem hér áttu fulltrúa viðborðið.

Lesa meira