Þetta kallaði á hörð viðbrögð frá Vilhjálmi Erni Vilhjálmssyni (http://postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/1186112). Vilhjálmur þessi brást við með því að segja mig hafa, í utanríkisráðherratíð minni, haldið hlífiskildi yfir stríðsglæpamanni (Evald Mikson), en sjálfur hefði ég haft dularfull tengsl við KGB á sínum tíma. Loks fór hann hinum verstu orðum um eistnesku þjóðina fyrir meintar gyðingaofsóknir.
ÓHRÓÐRI UM EISTA SVARAÐ
Viðtal Sigurjóns M. Egilssonar á Sprengisandi (Bylgjunni sunnudaginn 28.08.) hefur dregið dilk á eftir sér. Viðtalið er aðgengilegt á heimasíðu minni. Það skiptist í tvennt, annars vegar vildi Sigurjón fá að vita, hvers vegna ég hefði á sínum tíma tekið frumkvæði að stuðningi við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða og í framhaldi af því, hvort þetta væri fordæmi, sem smáþjóð eins og íslendingar gætu fylgt eftir í öðrum málum. Seinni hluti viðtalsins fjallaði svo um innlend málefni.
Að því er varðar fordæmisgildið um stuðning smáþjóðar við aðrar smáþjóðir í lífsháska, nefndi ég, að ég vildi gjarnan að Ísland, í samvinnu við Norðurlönd og Eystrasaltsþjóðir, tækju frumkvæði að því á alþjóðavettvangi að koma Palestínumönnum til hjálpar í neyð þeirra. Ég lýsti ofbeldi Ísraelsríkis gagnvart Palestínumönnum sem stærsta harmleik samtímans. Harmleik vegna þess að Ísraelsher kemur nú fram gagnvart undirokuðu og varnarlausu fólki með svipuðum hætti og þriðja ríki Hitlers kom fram gagnvart ofsóttum gyðingum.