SVARTBÓK KOMMÚNISMANS: SVÖRT SÁLUMESSSA

Inngangsorð: Nú er komin skýringin á því, hvers vegna Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor, hefur látið óvenjulítið fara fyrir sér að undanförnu. Ástæðan er ekki endilega sú, að fjörbrot frjálshyggjunnar hafa skekið íslenskt þjóðfélag til grunna – og reyndar heimsbyggðina alla í þokkabót – og að þetta hafi vakið prófessornum efasemdir um trúverðugleik trúboðsins. Ástæðan er sú, að prófessorinn hefur lokað sig inni við að snúa hinu mikla franska ritsafni: “Svartbók kommúnismans” yfir á íslensku. Þetta er mikið verk, sem verðskuldar vandaða umræðu um ýmis undirstöðuatriði í stjórnmálum samtímans – ekki síst nú, þegar frjálshyggjutilraunin með Ísland hefur brugðist og við stöndum sem þjóð frammi fyrir þeirri óumflýjanlegu spurningu: Hvers konar þjóðfélag viljum við byggja upp á rústum hins hrunda? Fyrir þetta á Hannes Hólmsteinn hrós skilið.

Í tilefni af útkomu bókarinnar var efnt til málþings um efni hennar á vegum ýmissa stofnana háskólans í Þjóðminjasafni Íslands í hádeginu mán. 31.08.09. Björn Bjarnason fv. dómsmálaráðherra, stýrði fundi. Göran Lindblad, sænskur hægrimaður, sem beitti sér fyrir samþykkt ályktunar þings Evrópuráðsins um glæpi kommúnismans, reifaði málið. Undirritaður var til andsvara f.h. hugmyndaarfs marxismans og velferðarríkis jafnaðarstefnunnar, sem hefur sótt sitthvað af gagnrýni sinni á hinn óbeislaða kapítalisma til Karls Marx og arftaka hans. Lindblad lýsti þeirri skoðun, að Sovétgulagið væri óhjákvæmileg afleiðing af kenningum Marx. Ég andmæli þeirri skoðun og spyr: Er sanngjarnt að kenna Kristi um seinni tíma óhæfuverk kaþólsku kirkjunnar: Ofsóknir hennar á hendur trúvillingum, krossferðir á hendur heiðingjum, ritskoðun gegn röngum skoðunum, rannsóknarréttur gegn grunuðum efasemdarmönnum, nornaveiðar gegn konum og þegjandi samþykki við Gyðingaofsóknum og sitt hvað fleira óbermilegt? Í eftirfarandi texta er að finna frekari rökstuðning fyrir þeim skoðunum, sem ég lýsti á fyrrnefndum fundi. – JBH .

Lesa meira

ÁMINNTUR UM SANNSÖGLI…

Kjartan Gunnarsson, fv.vara-formaður bankaráðs Landsbankans fullyrðir í Mbl.grein (14.08.09), að forráðamenn Landsbankans hafi aldrei haldið því fram, “að neins konar ríkisábyrgð fylgdi störfum hans, hvorki í Bretlandi né annars staðar.” Undirsátar Kjartans, bankastjórarnir Halldór Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason, halda hinu gagnstæða fram. Í bréfi, sem þeir undirrita í nafni bankans til hollenska seðlabankans og FME í sept. 2008, “sögðust (þeir) hafa vissu fyrir því, að íslenska ríkið myndi ábyrgjast lágmarksinnstæður í íslenskum bönkum.

Hvort tveggja getur ekki verið rétt. Hvorum á að trúa, bankaráðsmanninum eða bankastjórunum? Rétt svar varðar gríðarlega almannahagsmuni. Það er því full ástæða til, að sannleikurinn verði leiddur í ljós í réttarsal, þar sem áður nefndir ábyrgðarmenn Icesave-reikningsins, sem nú liggur fyrir Alþingi, verði krafðir svara, áminntir um sannsögli.

Lesa meira

FORHERÐING?

Opnugrein Kjartans Gunnarssonar, fv. framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins (og þar með eins nánasta samstarfsmanns Davíðs Oddssonar)

og varaformanns bankaráðs Landsbankans (og þar með eins nánasta samstarfsmanns Björgólfs Guðmundssonar) í Mbl. 14.08. s.l., gefur tilefni til að biðja lesendur Mbl. að hugleiða eftirfarandi staðreyndir:

Lesa meira

UM BRIGSL OG VÍXL : Svar til Sigurðar Líndal

“Allir þeir lögfræðingar, sem ég hef rætt við eru sammála um, að
ábyrgð ríkissjóðs Íslands (á Icesave-reikningnum) nái ekki lengra en
tryggingarsjóður innstæðueigenda getur staðið undir.”
Ármann Kr. Ólafsson, alþm., 30. okt., .2008

“Allir lögfræðingar, sem ég talaði við, töldu, að þetta væri bindandi,
að við yrðum að borga (20.887 evrur)”
Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði, 27. nóv., 2008

Sagt er, að landamerkjadeilur og lagaþras sé eins konar þjóðaríþrótt landans. Ég viðurkenni fúslega, að þetta getur verið skondin íþrótt upp að vissu marki – allavega finnst iðkendunum það oftast nær sjálfum. En ef þrasið snýst upp í hártoganir og útúrsnúninga um aukaatriði, getur gamanið farið að kárna. Þrasið umhverfist þá í merkingarlítið stagl um aukaatriði, sem kemur engum að gagni.

Mér sýnist lagaþrasið, sem spunnist hefur út frá spurningunni um, hvort íslenska ríkið beri ábyrgð á innistæðutryggingum útibúa Landsbankans á EES-svæðinu, vera af síðarnefndu sortinni. Og ekki jókst mér tiltrú á, að þessi þjóðaríþrótt Íslendinga þjóni jákvæðum tilgangi, við lestur greinar Sigurðar Líndal um þetta efni í Pressunni. Mér skilst að grein Sigurðar sé a.m.k. að hluta andsvar við Mbl –grein minni: Um smjörklípukenninguna og seðlabankastjórann, frá 7. júlí s.l. (sjá www.jbh.is). Fyrirfram hefði ég ætlað, að prófessorinn gæti rætt lögfræðileg álitamál af stillingu og yfirvegun. Þetta er jú hans fag. Munnsöfnuður hans kemur mér því á óvart: Hann segir mig fara með “staðlausa stafi”, “ósannindi ofan á ósannindi” og “beita uppspuna og ósannindum”. Hvað veldur þessari tilefnislausu vanstillingu? Er þetta kannski ómissandi ívaf í þjóðaríþróttinni?

Lesa meira

ÍSLAND OG EVRÓPUSAMBANDIÐ

Í grein sinni: “Ísland – það sem læra má af efnahagshruninu,” sem birtist í áhrifamiklum fjölmiðlum í Bretlandi, Frakklandi og Noregi, auk Íslands, 1. ágúst, s.l., byggir Eva Joly, þingmaður á Evrópuþinginu, málflutning sinn á því, að íslenska þjóðin sé fórnarlamb atburða, sem hún fékk engu um ráðið.

Þetta má til sanns vegar færa að nokkru leyti. Þjóðin situr nú uppi með óbærilegar “skuldir óreiðumanna,” sem hún stofnaði ekki til og naut aðeins að litlu leyti, þar sem lánin fóru að stórum hluta í fjárfestingar erlendis. Ósköpin dundu yfir, af því að hin pólitíska forysta, sem meirihluti þjóðarinnar valdi í hverjum kosningum á fætur öðrum, svaf á verðinum og brást gjörsamlega trausti þjóðarinnar, þegar á reyndi. En það þýðir um leið, að þjóðin er ekki bara saklaust fórnarlamb. Hún er að því leyti sinna eigin örlaga smiður, að hún valdi þessa menn og flokka til forystu, og hefur þar af leiðandi ekki við aðra að sakast.

Lesa meira

ÁFALLAHJÁLP?

Hvers vegna ætti Evrópusambandið – eða einstök aðildarríki þess – að hafa af því áhyggjur, þótt Ísland – fámennt eyríki í Norður-Atlantshafi, á jaðri Evrópu – verði fyrir efnahagshruni, sem þjóðinni er ofviða að ráða fram úr á eigin spýtur? Eru einhverjir hagsmunir í húfi, sem réttlæti það, að Evrópusambandið leggi á sig fyrirhöfn og jafnvel kostnað – þótt hreinir smáaurar séu á mælikvarða sambandsins – til að hjálpa Íslendingum til að komast út úr tímabundnum erfiðleikum?

Breytir það einhverju, að Ísland hefur nú seint og um síðir, lagt fram aðildarumsókn, þótt ráðandi öfl hafi hingað til talið hag þjóðarinnar betur borgið utan sambandsins en innan?

Lesa meira

VINARBRAGÐ

Sú var tíð, að Litháum fannst, að þeir stæðu einir uppi í heiminum á örlagatímum. Stórveldin sögðu þeim að hafa sig hæga, og hið svokallaða alþjóðasamfélag vildi sem minnst af þeim vita. Þegar þeir leituðu ásjár í raunum sínum, voru fáir til að bænheyra þá.

Og þegar þeir sendu út neyðarkall vegna yfirvofandi blóðsúthellinga, var það bara einn af mörgum, sem þeir leituðu til, sem sinnti kallinu: Utanríkisráðherra NATO-ríkisins Íslands, eins og þeir gjarnan orðuðu það. Og þegar maður á bara einn vin í heiminum, þykir manni gjarnan meira til hans koma en ella. Þess vegna greiptu Litháar í eina steinblokkina, sem þeir notuðu til að víggirða þinghúsið í Vilníus: Til Íslands, sem þorði, þegar aðrir þögðu.

Lesa meira

BILDTINGARMAÐUR?

Það virðist vera orðið samdóma álit almennings á Íslandi, að íslenskum athafna- og stjórnmálamönnum sé ekki hleypandi út fyrir landsteinana, án þess að þeir verði landi og þjóð til skaða og skammar. Úrásarvíkingarnir rómuðu reyndust, sem kunnugt er, vera fávísir flottræflar. Það sneri allt öfugt; þeir reyndust vera sauðir undir úlfshárum. Og stjórnmálaforystan, sem átti að standa vaktina, gæta hagsmuna almennings og hafa taumhald á dekurdrengjunum – hún svaf á vaktinni og brást þjóð sinni með hörmulegum afleiðingum fyrir samtíð og framtíð.

Það verður lengi í minnum haft, þegar Geir H. Haarde, hinn slétti og felldi formaður Flokksins og forsætisráðherra stóð á gati í Hard Talk (þrátt yfir tvær MA gráður í hagfræði) frammi fyrir spurningunni: “Hvað gerðuð þér, herra forsætisráðherra, til að forða þjóð yðar, sem var ein af ríkustu þjóðum heims, frá því að verða bónbjarga þjóð (“a failed economic state”)? Þegar Geir kvartaði undan harðýðgi Breta, sem beittu hryðjuverkalögum á íslenska hryðjuverkamenn, spurði spyrillinn: “Tókuð þér ekki málið upp við Gordon Brown, starfsbróður yðar?” Og svarið var: “No – but perhaps I should have.”

Lesa meira

Svar til Gerðar Pálmadóttur

Heil og sæl, Gerður:
Takk fyrir kveðjuna. Fæ ekki betur séð en að við séum sammála. Við verðum að semja, en – þingið þarf að ná samstöðu um að fresta afgreiðslu og reyna að fá nýtt öryggisákvæði (eins konar þak), ef greiðslubyrði reynist verða ofviða gjaldþoli eftir sjö ár. Eins, að verði neyðarlögunum hnekkt fyrir dómstólum (en það er forsenda fyrir því að eignir LB gangi upp í skuldina), þá verði að semja upp á nýtt í ljósi breyttra aðstæðna. Það hafa ýmsir lýst svipuðum hugmyndum. Spurningin er, hvort núverandi stjórnmálaforyta ræður við mál af þessari stærðargráðu.
Það var gaman að heyra frá þér. Með bestu kveðjum, Jón Baldvin