AFHJÚPUNIN

Hrun efnahagslífsins, sem íslenska þjóðin upplifir nú með vaxandi sársauka frá degi til dags, þýðir að framvegis verður ekkert eins og var. Nú verður ekki lengur undan því vikist að horfast undanbragðalaust í augu við staðreyndir um það sem miður hefur farið í okkar þjóðlífi og við höfum hingað til viljað leiða hjá okkur eða látið liggja milli hluta.

Við þurfum að uppræta hina eitruðu spillingu klíkuveldisins, sem lengst af hefur viðgengist í venslum stjórnmála og viðskipta á lýðveldistímanum. Hrun bankanna á trúlega eftir að afhjúpa ýmislegt sem þolir lítt dagsins ljós. Óeðlilegt útlánaaukning bankanna seinustu mánuðina fyrir hrun til eignarhaldsfélaga í eigu forkólfa helstu auðklíkna vekur upp spurningar um hvað varð af þessum gríðarlegu fjármunum? Mun þeirra sjá stað í raunverulegum eignum auðkýfinganna erlendis? Eða rann stór hluti þessara fjármuna eftir leynilegum leiðum inn á felureikninga gervifélaga í skattaparadísum í Karabíska hafinu, á Kýpur og víðar?

Lesa meira

TILRAUNIN UM ÍSLAND

Hvers vegna er svo hörmulega komið fyrir okkur Íslendingum sem raun ber vitni? Þeir sem leita munu svara við þessari spurningu úr meiri fjarlægð frá viðfangsefninu í framtíðinni munu sjálfsagt velta fyrir sér ýmsum vísbendingum um siðferðilega hnignun þjóðar, sem hafði ekki nógu sterk bein til að þola góða daga.

En menn munu einnig rannsaka brotalamir og veilur í stjórnskipun og stjórnarfari lýðveldisins. Slímusetur eins flokks – og raunar lítillar valdaklíku í forystu hans – hátt í tvo áratugi samfellt, kann ekki góðri lukku að stýra. Það býður einfaldlega upp á spillingu og nærir valdhroka þeirra sem telja sig smám saman eðalborna til auðs og valda. Fjölmiðlar – eða eiga þeir kannski að heita fámiðlar – í eigu tveggja auðkýfinga eða undir húsbóndavaldi Flokksins, í krafti ríkisins, bætir ekki úr skák. Illkynja meinsemdir eins og t.d. löglaust og siðlaust kvótakerfi og ónothæfur gjaldmiðill, fá að grafa um sig í þjóðarlíkamanum og eitra út frá sér. Þjóðmálaumræðan er yfirborðskennd og snýst um aukaatriði, samkvæmt hinni frægu “smjörklípuaðferð” seðlabankastjórans.

Lesa meira

NEYÐARÁSTAND KALLAR Á NEYÐARRÁÐSTAFANIR

Það ber að taka tillögur þeirra Ársæls Valfells og Heiðars Más Guðjónssonar, sem þeir birtu í Fréttablaðinu 8. nóv. s.l., um einhliða upptöku evru alvarlega. Við venjulegar kringumstæður hefði ég vísað slíkum tillögum á bug, af pólitískum ástæðum. Með því á ég við eftirfarandi: Við venjulegar kringumstæður ætti Ísland einfaldlega að sækja um og semja um aðild að Evrópusambandinu og evrusvæðinu og að lokum taka upp evru, þegar við höfum uppfyllt áskilin skilyrði, rétt eins og aðrar þjóðir. Við ættum að fara eftir settum leikreglum.

En nú er neyðarástand. Og neyðarástand kallar á neyðarráðstafanir. Íslenska þjóðin er í svo miklu nauðum stödd að það verður að kasta út til hennar bjarghringnum strax. Ástandið á strandstaðnum er svo ógnvekjandi að innan skamms getur riðið yfir annað brot (önnur brotlending krónunnar og ný verðbólguhrina) sem gæti lagt okkar höktandi hagkerfi einfaldlega í rúst á örskömmum tíma.

Lesa meira

FYRIRBYGGJANLEGT? – JÁ

Var hrunið fyrirbyggjanlegt?Svarið við þessari spurningu skiptir máli, þótt seint sé, af því að af svarinu má draga lærdóma um hvað beri að gera og hvert skuli stefna í framtíðinni.

Fyrir Alþingiskosningarnar 1995 – árið eftir að EES- samningurinn gekk í gildi – boðaði minn gamli flokkur, Alþýðuflokkurinn, þá stefnu, að Íslendingar ættu að sækja um aðild að Evrópusambandinu á næsta kjörtímabili (1995-99). Í framhaldi af því ættum við að gerast aðilar að peningamálassamstarfinu (EMU) og taka upp evru. Hefði sú stefna náð fram að ganga þá væri íslenska þjóðin ekki í þeim sporum, sem hún stendur í nú.

Lesa meira

SPURNING UM LÍFSKJÖR

Við leysum (grunnvandann) ekki með því að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru”. (leiðari í Mbl, 10.05.08)
Mér vitanlega hefur enginn vitiborinn maður haldið því fram að aðild að Evrópusambandinu sé einhvers konar “allra-meina-bót”. – Ég er hvorki kommúnisti né frjálshyggjumaður og trúi þar af leiðandi ekki á neinar patentlausnir. Ég trúi hvorki á óbrigðula forsjá ríkisvaldsins né heldur á óskeikulleik hinnar ósýnilegu handar markaðarins. Allt frá dögum syndafallsins hefur mannskepnan verið dæmd til að vinna fyrir sínu daglega brauði í sveita sins andlits. Við munum því áreiðanlega verða að sjá sjálfum okkur áfram farborða af eigin rammleik. Það er vort daglega brauð.

Þetta breytir samt ekki því að við stöndum sem þjóð frammi fyrir vandamáli, sem okkur hefur ekki tekist að leysa, þrátt fyrir ítrekaðar atrennur í góðæri liðinna ára. Þetta vandamál heitir sjálfstæð peningamálastefna Seðlabankans með krónuna sem tilraunadýr. Það má nú heita fullreynt að þetta stjórntæki er ónýtt – vita gagnslaust. Þótt árinni kenni illur ræðari, breytir engu þótt sagt sé, að þetta sé ekki “krónunni að kenna”. Það er ekki skiptilyklinum að kenna, ef þú getur ekki skipt um dekkið. En ef ítrekaðar tilraunir bera engan árangur þá er ráð að skipta um skiptilykil, – og jafnvel manninn sem veldur ekki tækinu. Okkur vantar m.ö.o ný tæki til þess að stuðla að stöðugleika og til þess að festa hann í sessi. Það á að vera markmið hagstjórnarinnar. Þjóðin þarfnast stöðugleika.

Lesa meira

FÓRNARLAMBIÐ

Niðurstaðan af eintali Davíðs Oddssonar við sjálfan sig í Kastljósi RÚV s.l. þriðjudagskvöld 8. okt. vakti óskipta samúð hlustenda með örlögum þessa mæðumanns.

Davíð hefur, að eigin sögn, verið saklaust fórnarlamb óreiðumanna og brennuvarga (hans eigin orð) sem á undanförnum árum hafa vaðið uppi í þjóðfélaginu og farið sínu fram, þrátt fyrir fyrirbænir og varnaðarorð hins áhrifalausa seðlabankastjóra. Sjálfur var Davíð á móti útrásinni og segist reyndar aldrei hafa skilið hana.Hann segist ítrekað hafa varað við allri þessari sláttumennsku óreiðumannanna í útlöndum, en það hafi bara enginn hlustað á sig. Hann segist hafa beðið hina einkavæddu bankastjóra að gæta hófs en þeir hlustuðu heldur ekki á hann.Hann segist hafa beðið þá í ríkisstjórninni – eftirmenn sína – um að stöðva feigðarflanið, en meira að segja þeir hlustuðu ekki á hann. Bæði forsætis- og fjármálaráðherrann, þessir fyrrverandi undirsátar hans, daufheyrðust við fyrirbænum og bænakvaki hins áhrifalausa seðlabankastjóra. Þaðer alveg sama við hvern hann talaði: enginn tók mark á orðum hans. Er nema von að honum finnist ósanngjarnt að skella skuldinni á þjóðargjaldþrotinu á hann? Samt segir hann að menn megi svo sem sín vegna gera sig að píslarvætti, ef þeim líði eitthvað betur við það.

Lesa meira

Á HÆTTU SVÆÐI?

“Við eigum ekki að ræða Evrópusambandsaðild á forsendum tímabundins efnahagsvanda” (leiðari í Mbl. 10.05.08)
Hvaðan kemur ritstjóra Morgunblaðsins tyftunarvald til þess að banna almenningi á Íslandi, sem er þungt haldinn kvíða um atvinnu sína, afkomu og eignir, að ræða allar hugsanlegar lausnir á þeim vanda? Og þá ekki síst aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru í stað krónu. Það er nefnilega spurning um lífskjör almennings í framtíðinni.

Evrópusambandsaðild og upptaka evru er nefnilega lífskjaramál. Það snýst um að losna við tíðar, ófyrirsjáanlegar og óútreiknanlegar sveiflur á gengi gjaldmiðilsins – og þar með á lífskjörunum. Þetta snýst um verðstöðugleika. Það snýst um lægra verðlag á lífsnauðsynjum. Það snýst um lægri vexti og þar með viðráðanlegri greiðslubyrði af lánum.

Lesa meira

KÓRVILLA AF VESTFJÖRÐUM

“En upp úr þessu var Guðjóni Friðrikssyni sagt upp og hrökklaðist hann þá til Ísafjarðar. Þar gerði hann sé lítið fyrir og hóf ofsóknir á hendur Jennu og Hreiðari sem barnabókahöfundum .Það voru hefndirnar.”
(úr dagbók Matthíasar Jóhannessen, skálds)

Hér er eitthvað málum blandið, eins og reyndar hefur komið á daginn. Því fer víðs fjarri að Guðjón Fiðriksson hafi ”hrökklast” vestur á Ísafjörð. Ég get trútt um talað því að ég þurfti að hafa talsvert fyrir því að “véla” hann vestur á sínum tíma. Í “Tilhugalífi” (útg. 2002, bls. 264) lýsi ég því með eftirfarandi orðum:

Lesa meira

ÍSLAND Í AFRÍKU

Þótt þær fjárhæðir, sem hinir ríku Íslendingar láta af hendi rakna til þróunaraðstoðar við fátækar þjóðir á fjárlögum ár hvert séu svo smáar, að þær mælist varla í alþjóðlegum samanburði, hafa Íslendingar samt sem áður leitast við að leggja eitthvað af mörkum til þróunarhjálpar á undanförnum áratugum.

Einkum hafa Íslendingar látið til sín taka í Afríku (t.d. í Namibíu, Malawi og Mosambique, Uganda og víðar), en einnig í Mið-Ameríku (t.d. í Nikarakva og El Salvador). Við höfum helst reynt að beita okkur á sviðum þar sem við búum yfir umtalsverðri reynslu og sérþekkingu: Í sjávarútvegi og við nýtingu jarðvarma
til hitaveitu eða orkuframleiðslu.

Lesa meira

ÍSLENSKA LEIÐIN

Í sexhundruð ár vorum við Íslendingar í hópi fátækustu þjóða heims. Eftir þúsund ára búsetu var naumast uppistandandi heillegt mannvirki til marks um mannabyggð í landinu.

Til eru frásagnir erlendra ferðamanna sem heimsóttu landið allt fram á 19du öld sem undruðust það, hvernig þetta frumstæða fólk gat dregið fram lífið í kofahreysum, sem þeim sýndist varla skepnum bjóðandi, hvað þá mönnum.

Lesa meira