Við þurfum að uppræta hina eitruðu spillingu klíkuveldisins, sem lengst af hefur viðgengist í venslum stjórnmála og viðskipta á lýðveldistímanum. Hrun bankanna á trúlega eftir að afhjúpa ýmislegt sem þolir lítt dagsins ljós. Óeðlilegt útlánaaukning bankanna seinustu mánuðina fyrir hrun til eignarhaldsfélaga í eigu forkólfa helstu auðklíkna vekur upp spurningar um hvað varð af þessum gríðarlegu fjármunum? Mun þeirra sjá stað í raunverulegum eignum auðkýfinganna erlendis? Eða rann stór hluti þessara fjármuna eftir leynilegum leiðum inn á felureikninga gervifélaga í skattaparadísum í Karabíska hafinu, á Kýpur og víðar?
AFHJÚPUNIN
Hrun efnahagslífsins, sem íslenska þjóðin upplifir nú með vaxandi sársauka frá degi til dags, þýðir að framvegis verður ekkert eins og var. Nú verður ekki lengur undan því vikist að horfast undanbragðalaust í augu við staðreyndir um það sem miður hefur farið í okkar þjóðlífi og við höfum hingað til viljað leiða hjá okkur eða látið liggja milli hluta.