Þetta er stuttur útdráttur úr svörum máttarstólpa Framsóknar-Sjálfstæðisflokks við spurningum fréttamanna um, hvers vegna nöfn þeirra sé að finna í Panamaskjölunum um gervifyrirtæki á “aflandseyjum”. (Má til með að skjóta því inn í, að hvorki Sviss né Lúxemburg, sem eru einhver stórtækustu skattaskjól heimsins, geta flokkast undir eyjar í landfræðilegum skilningi. Við ættum að halda okkur við hugtakið skattaskjól og láta vera að klæmast á landafræðinni).
Utan (og ofan) við lög og rétt
Ha, – ég? Nei, Landsbankinn bauð bara upp á þessa þjónustu. Ég hélt, satt að segja, að þetta hefði verið vistað í Lúxemburg – það er jú í Evrópusambandinu, ekki satt? Súsí og Samba í stjórninni? – Nei, ég hef aldrei hitt þær. Hélt, satt að segja, að það væri löngu búið að loka þessu. Man varla lengur, hvað félagið hét. En hitt man ég upp á hár, að þetta var alltaf á framtalinu mínu. Svo að ég hef borgað alla skatta og skyldur. Ég get fengið Deloitte til að skrifa upp á það, ef þú vilt.