Við sem þekktum Ólaf vel, þóttumst kunna skil á þessu harðfylgi til hinztu stundar. Sumir lifa samkvæmt þeirri kenningu, að allt eyðist sem af er tekið. Og spara kraftana fram í andlátið. Aðrir hafa fyrir satt, að allt eflist sem á reynir. Og hlífa sér því hvergi. Slíkir menn bera fúslega annarra byrðar. Og eflast við hverja raun. Þannig reyndum við Ólaf Björnsson í blíðu og stríðu.
Minning: Ólafur Björnsson
Það hefur ekki farið fram hjá okkur, vinum Ólafs, hvað Elli kerling fór lengi vel halloka í glímunni við hann. Það var svo sem eins og við var að búast. Ólafur var ekki vanur því að láta sinn hlut fyrir neinum – fyrr en í fulla hnefana. En að lokum má enginn sköpum renna.