DELORS´S BABY

Það eru 15 ár liðin frá því að samningurinn um evrópska efnahagssvæðið (EES) gekk í gildi. 1. jan. 1994. Af því tilefni mun framkvæmdastjóri EFTA, Kaare Bryn, beita sér fyrir útgáfu afmælisrits á vegum aðalstöðvanna í Genf.

Þetta verður lítið og sætt fjölskylduafmæli. Ætli myndaalbúmið verði ekki skoðað, og svo verða rifjaðar upp skemmtilegar sögur frá fyrri tíð, þegar EFTA var og hét – smátt en fagurt – en engu að síður atkvæðamikill klúbbur og skemmtilegur.

Þegar ég rifja upp gamla daga verður mér fyrst hugsað til míns gamla og góða vinar, Hannesar Hafstein, aðalsamningamanns. Hann átti engan sinn líka. Við vorum öll á “first name basis”: Pertti, hinn finnski, Anita og Ulf frá Svíþjóð, Wolfgang og Alois frá Austurríki, Jean Pascal og Blanchard frá Sviss og Thorvald og Eldrid frá Noregi – að ógleymdum prinsinum frá Liechtenstein.

Hér að neðan birtist afmæliskveðjan frá undirrituðum undir fyrirsögninni: BARNIÐ HANS DELORS. Pistillinn mun birtat í afmælisritinu seinna í vor.

The EEA-agreement is a product of the Cold War era. Five of us defined themselves as neutral or outside alliances. Two of us were NATO members, but suspicious of the European Union for different reasons.

We were small nations – in terms of population, but strong in terms of trade and economics. This awkward mix meant that we were marginal vis a vis the process of European integration. This gap had somehow to be bridged.

Lesa meira

DR. GÍSLI REYNISSON, RÆÐISMAÐUR

Sú var tíð að Riga var djásnið í kórónu sænska stórveldisins. Hún var stærsta borg Svíaríkis – stærri og ríkari en Stokkhólmur – og umsvifamesta viðskiptamiðstöð Hansakaupmanna við Eystrasalt. Þetta breytti ekki því að þeir töluðu þýsku í kauphöllinni.

Riga var þeirrar tíðar Hong Kong – alþjóðleg verslunarmiðstöð – sem flutti útflutningsafurðir hins mikla rússneska meginlands til markaða Hansaborganna: Lübeck, Kaupmannahafnar, Hamborgar og Amsterdam. Og þar sem eru líbbleg viðskipti, kviknar gjarnan blómleg menning. Það var þarna sem Richard Wagner tók út þroska sinn sem tónskáld og Eisenstein lagði löngu seinna grundvöllinn að sovéskri kvikmyndalist. Flestar borgir við Eystrasalt voru satt að segja lítið annað en útkjálkaþorp í samanburði við hina fjölþjóðlegu menningu sem blómstraði í Riga, þegar hún var á hátindi frægðar sinnar.

Lesa meira

Marshall Brement, sendiherra á Íslandi – minning

Marshall Brement, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi (1981-85), var enginn venjulegur kerfiskall. Í samanburði við þá kollega hans, bandaríska, sem hafa til siðs að kaupa sér sendiherraembætti í fjarlægum löndum fyrir framlög í kosningasjóði, vitandi varla hvar þeir eru staddir á landakortinu, var Marshall hinn útvaldi atvinnumaður.

Þegar hann kvaddi Ísland 1985 lauk um leið 30 ára ferli í bandarísku utanríkisþjónustunni. Marshall var “strategiskur” hugsuður, sem fjallaði um alþjóðamál af ástríðu. Sérgreinar hans voru Sovétríkin og Kína (enda talaði hann bæði rússnesku og mandarísku), þótt eftirlæti hans væri Suðaustur-Asía. Eftir að hafa starfað í utanríkisþjónustu landsins í Hong Kong, Singapore, Indónesíu og Vietnam, varð hann stjórnmálaráðgjafi við sendiráð Bandaríkjanna í Moskvu.

Lesa meira

NATO 60 ÁRA: HEIMAVARNARLIÐ EÐA HEIMSLÖGREGLA

Kannski er sálarháski Íslendinga í upphafi nýrrar aldar sá, að þjóðin hefur enn ekki fundið sér samastað í samfélagi þjóðanna. Við erum ekki lengur á amerísku áhrifasvæði, en hræðsluáróðurinn gegn Evrópusambandinu birgir okkur sýn og leiðir á villigötur. Við erum ein og yfirgefin. Hnípin (skuldug) þjóð í vanda.

Samt er engin umræða um utanríkismál fyrir kosningar. Ég segi utanríkismál – því að umræðan um Evrópusambandið, öfugsnúin og forskrúfuð sem hún er – er auðvitað um innanlandsmál. Hún snýst um það, hvernig fólk og fyrirtæki megi njóta starfsumhverfis eins og tíðkast í grannríkjum okkar. Hún snýst um normaliseringu. Hún snýst um stöðugleika í fjármálum, í verðlagi, vöxtum á lánum og greiðslubyrði skulda, svo að fólk og fyrirtæki geti gert framtíðaráætlanir á sæmilega traustum forsendum. Hún snýst um að skapa 20 þúsund störf fyrir menntað fólk. Hún snýst m.ö.o. um innanríkismál.

Utanríkismál snúast hins vegar um það, hvernig tryggja megi framtíðaröryggi þjóðarinnar fyrir ytri áföllum og erlendri ásælni. Þjóð sem er sokkin í skuldir og hefur áhyggjur af afkomu sinni frá degi til dags, má ekki vera að því að hugsa um framtíðina.

Það kemur því kannski ekki á óvart að það voru varla fleiri en 30 manns, sem komu á Varðbergsfund á Hótel Borg í gærkvöldi (föstudaginn 17.04.) eftir fréttir og Kastljós, til að hlusta á okkur Höllu Gunnarsdóttur rökræða um framtíð NATO í tilefni af 60 ára afmæli hernaðarbandalagsins fyrr í mánuðinum. Við áttum að svara spurningum eins og þessum: Hefur NATO einhverju hlutverki að gegna eftir fall Sovétríkjanna og lok kalda stríðsins? Hvað er bandalag sem átti að verja Evrópu fyrir útþenslustefnu Sovétríkjanna að gera í Afganistan? Er NATO að verða að einhvers konar heimslögreglu?
Í þjónustu hverra, með leyfi? Fara hagsmunir Evrópuríkja ævinlega saman við hagsmuni ameríska heimsveldisins? Er ekki kominn tími til að Evrópa taki sín mál í eigin hendur? Og hvað með Ísland? Hvar á það heima í nýrri heimsmynd?

Það vakti athygli að meirihluti fundargesta var að eigin sögn í klappliði Höllu Gunnarsdóttur frá Vinstri grænum. Öðru vísi mér áður brá! Hér fer á eftir ræðan sem ég flutti á þessum fundi.

1. DÓMUR REYNSLUNNAR

Inngangan í NATO 1949 var umdeild ákvörðun, sem klauf þjóðina í andstæðar fylkingar.Menn greindi á um svör við brennandi spurningum: Var sjálfstæði Íslands raunverulega hætta búin? Hafði reynsla smáþjóða á millistríðsárunum ekki kennt þeim endanlega þá lexíu, að hlutleysið væri haldlaus flík?

Lesa meira

Efnahagslegt fjöldasjálfsmorð

Vegna ummæla Ragnars Arnalds í þætti Hjálmars Sveinssonar, – Krossgötur – sem fluttur var í ríkisútvarpinu eftir hádegi í dag, og ég tók þátt í, langar mig til að endurbirta hluta úr grein sem ég skrifaði fyrir meira en mánuði um ameríska frjálshyggjuhagfræðinginn, Kenneth Rogoff, sem Ragnar Heimssýnarformaður vitnaði í sér til halds og trausts.

….Rogoff birti varnaðarorð sín í viðtali við Boga Ágústsson hjá RÚV. Hann notaði líka stór orð – gott ef hann sagði ekki líka “sjálfsmorðstilraun.” Um þetta má í besta falli segja að betra er illt umtal (í útlöndum) en ekkert.
Eftir stóryrðin fór það hins vegar fram hjá flestum að Rogoff taldi öðru máli gegna, ef Ísland hefði verið í Evrópusambandinu og evrusamstarfinu um skeið. Það staðfestir að prófessornum er, þrátt fyrir allt, ekki alls varnað. Rogoff var tíðrætt um að heimskreppan, sem átti uppruna sinn í frjálshyggjutilrauninni amerísku, væri að breiðast út um heiminn og að aðildaríki Evrópusambandsins hefðu ekki farið varhluta af því. Hins vegar hefur láðst að upplýsa manninn um það, að af þeim 30 þjóðum, sem aðild eiga að evrópska efnahagssvæðinu (27+3) , er aðeins ein, sem lent hefur í kerfishruni. Þar fer saman allt í senn: Hrun gjaldmiðilsins, hrun fjámálakerfisins og stjórnmálakreppa, sem sumir segja að nálgist að vera stjórnkerfiskreppa. Þetta land er Ísland.

Lesa meira

AÐ GANGA HREINT TIL VERKS

Þegar það kom á daginn, við réttarhöld sem kennd voru við “hreinar hendur” að Kristilegi demókrataflokkurinn á Ítalíu var maðksmoginn af mafíunni, gengu ítalskir kjósendur hreint til verks í næstu kosningum og þurrkuðu flokkinn út af þingi.

Nú er komið á daginn, hverjir gerðu Sjálfstæðisflokkinn út í seinustu kosningum. Það voru eigendur Glitnis og Landsbankans. Þá er loksins komin fram haldbær skýring á því, hvers vegna ríkisstjórn Geirs H. Haarde aðhafðist ekkert í tæka tíð til að koma í veg fyrir ofvöxt bankanna og þar með bankahrunið.

Nú reynir á lýðræðisþroska þeirra Íslendinga sem hingað til hafa léð Sjálfstæðisflokknum atkvæði sitt. Eru þeir reiðubúnir að taka flokksforystuna á orðinu og ganga hreint til verks? Og þurrka þennan smánarblett út af alþingi Íslendinga í næstu kosningum?

Í LEIT AÐ LAUSNUM – svar til Kristjáns Torfa 2

“Hvorki ég né þú né helstu sérfræðingar heimsins vita hvað er framundan. Gagnvart slíkri óvissu er heimskulegt að vera með stórkarlalegar yfirlýsingar um hvernig hlutirnir muni þróast.”

Kristján Torfi 2.

Við getum orðið sammála um þetta vænti ég. Það er skynsamlegt, þegar menn ferðast um ókunnugt landsvæði – terra incognita – að feta sig áfram af varfærni. Flestar fjármálakreppur, hingað til, hafa verið staðbundnar. Þegar Asíukreppan skall á breiddist hún út til Rússlands og S-Ameríku, en Ameríka og Evrópa héldu velli. Þessi virðist ætla að breiðast út um gjörvalla heimsbyggðina. Það er ekkert svæði – ekki einu sinni Kína – sem heldur fullum dampi og gæti hugsanlega dregið aðra að landi. Þetta virðist því ætla að verða sannanleg heimskreppa. Þetta gerir hverju einstöku hagkerfi erfiðara um vik að ná sér á strik. Reyndar ekki fyrirfram víst að sama lausnin henti alls staðar.

Lesa meira

Þjóðrækni eða remba?

Það gladdi okkur Bryndísi að heyra að menningarpáfar til hægri og vinstri, fyrrverandi ritstjórar Morgunblaðs og Þjóðviljans, þeir Matthías Jóhannessen og Árni Bergmann, ætluðu að miðla okkur af hugsun sinni um sálarheill þjóðarinnar upp úr hruni hjá hinum frábæra útvarpsmanni, Hjálmari Sveinssyni eftir hádegið í dag (laug. 11.04.) Við höfðum reynt að leggja hlustir við boðskap þeirra þjóðkirkjumanna í þjóðarfjölmiðlinum um páskana en ekki getað staðnæmst við neitt sem máli skiptir.

Nú gerðum við okkur vonir um að andlega vakandi ofurhugar hefðu eitthvað til málanna að leggja sem vekti okkur til umhugsunar. En þvílík vonbrigði! Þeir félagar voru sammála um að mæra menningararfinn, sem réttlætti sjálfstæða þjóðartilveru okkar. En hvers vegna hefur þessi dýri menningararfur reynst svo haldlítill, sem raun ber vitni, þegar á reyndi í hremmingum tilverunnar?

Lesa meira

JBH svarar HLH

Sæll Heiðar Lind. Þakka þér fyrir að vekja athygli mína á svargrein þinni. Svo sem sagnfræðinema sæmir er grein þín málefnaleg og gott innlegg í umræðuna. Þótt mér þyki hinn nýi formaður ykkar bera af sér góðan þokka er ekki þar með sagt að ég sé sannfærður um að hér eftir sé fortíð Framsóknar í ösku og framtíðin öll í heiðríjku hugans og heiðarleikans.

Mér fannst minn gamli fóstbróðir, Steingrímur Hermannsson,skjóta hátt yfir markið þegar hann vildi gera Alþýðuflokkinn að sökudólgi, en eins og gleymdi að geta þess, að flokkur ykkar hafði starfað með Sjálfstæðisflokknum í samfellt tólf ár, einmitt á því tímabili þegar hagstjórnin fór úr böndunum og auðklíkurnar uxu þjóðfélaginu yfir höfuð.

Lesa meira

(MEÐAL)VEGURINN TIL GLÖTUNAR

Ég les það í Pressunni að Tíminn sé genginn í endurnýjun lífdaganna – uppvakinn sem kosningablað framsóknarmanna. Hitt sætir jafnvel enn meiri tíðindum að hinn aldni jöfur þeirra framsóknarmanna, Steingrímur Hermannsson, lætur þar til sín heyra eftir að hafa haft hljótt um sig um hríð.

Steingrímur nefnir grein sína: “HINN GULLNI MEÐALVEGUR.” Pressan hefur það eftir honum að upphaf efnahagshrunsins 2008 megi rekja til stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, 1991-95 – þrettán árum fyrir hrun. Þetta er nýstárleg kenning, sérstaklega í ljósi þess að Framsóknarflokkurinn, undir leiðsögn arftaka Steingríms, Halldórs Ásgrímssonar, var í ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í þrjú kjörtímabil, eða tólf ár (1995-2007).

Lesa meira