Dæmi: Sparifjáreigendur, breskir og hollenskir hjá Icesave, voru í góðri trú um að einstaklingsbundnar sparifjárinnistæður þeirra nytu lögbundinnar tryggingar. Það er rétt skv. íslenskum lögum. Íslenskum stjórnvöldum (þ.m.t. eftirlitsstofnunum) var fullkunnugt um þetta. Um það ríkti engin óvissa. Það var á valdi íslenskra stjórnvalda að firra íslenska skattgreiðendur þeirri áhættu að innistæðutryggingin lenti á þeim. Þau brugðust. Það er lýðskrum af verstu sort í bland við þjóðrembu, þegar íslenskir stjórnmálamenn, sem brugðust umbjóðendum sínum og sváfu á vaktinni, reyna að kenna öðrum um.
Torfalög kapítalismans: svar til Kristjáns Torfa 09.04.
Til Kristjáns Torfa:
“Er þetta einhvers konar nýfjármagnskratismi sem þú talar fyrir undir kjörorðunum “almenningur á að borga skuldir óreiðumanna””? – Þetta er skætingur sem ekki er svaraverður.
Athugasemdir þínar að öðru leyti verðskulda þessi svör:
1. Ég hef að sjálfsögðu hvergi haldið því fram að ríkið (skattgreiðendur) eigi að greiða skuldir einkaaðila. Einmitt þess vegna gagnrýndi ég Hudson fyrir að gera ekki skýran greinarmun á ríkisskuldum og skuldum með ríkisábyrgðum (“sovereign debt”) og skuldum einkaaðila.