Torfalög kapítalismans: svar til Kristjáns Torfa 09.04.

Til Kristjáns Torfa:
“Er þetta einhvers konar nýfjármagnskratismi sem þú talar fyrir undir kjörorðunum “almenningur á að borga skuldir óreiðumanna””? – Þetta er skætingur sem ekki er svaraverður.
Athugasemdir þínar að öðru leyti verðskulda þessi svör:
1. Ég hef að sjálfsögðu hvergi haldið því fram að ríkið (skattgreiðendur) eigi að greiða skuldir einkaaðila. Einmitt þess vegna gagnrýndi ég Hudson fyrir að gera ekki skýran greinarmun á ríkisskuldum og skuldum með ríkisábyrgðum (“sovereign debt”) og skuldum einkaaðila.

Dæmi: Sparifjáreigendur, breskir og hollenskir hjá Icesave, voru í góðri trú um að einstaklingsbundnar sparifjárinnistæður þeirra nytu lögbundinnar tryggingar. Það er rétt skv. íslenskum lögum. Íslenskum stjórnvöldum (þ.m.t. eftirlitsstofnunum) var fullkunnugt um þetta. Um það ríkti engin óvissa. Það var á valdi íslenskra stjórnvalda að firra íslenska skattgreiðendur þeirri áhættu að innistæðutryggingin lenti á þeim. Þau brugðust. Það er lýðskrum af verstu sort í bland við þjóðrembu, þegar íslenskir stjórnmálamenn, sem brugðust umbjóðendum sínum og sváfu á vaktinni, reyna að kenna öðrum um.

Lesa meira

Evrópusambandið er “post-colonial”: Svar til Viggós Jörgenssonar, 9. 4.

Heill og sæll, Viggó.
Ég lærði mína hagfræði í gamla daga við breskan (skoskan) háskóla. Um sumt – t.d. hina angló/amerísku heimsvaldastefnu – lærði ég meira af vinum mínum í Labour and Socialist Club,…

en þeir komu víðs vegar að úr breska heimsveldinu (Indlandi og Pakistan, Singapore og Malasíu, Afríku og Karíbahafinu). Samt má ekki gleyma því að sú var tíð að Bretland var “the workshop of the world.”Það er að vísu löngu liðin tíð. Bandaríkin fóru fram úr gömlu Evrópu upp úr aldamótunum 1900. Evrópa brotlenti í tveimur heimsstyrjöldum. Frá og með lokum seinni heimstyrjaldar hefur bandaríski kapítalisminn verið heimsyfirráðaafl. Hamfarakapítalisminn (fjármálakerfi sem vaxið hefur framleiðslukerfinu yfir höfuð) á ætt sína og óðul í Ameríku. Höfuðstöðvarnar eru við Wall Street. Stjórntæki heimskapítalismans – IMF, World Bank og WTO – allt er þetta undir amerískri stjórn.

Lesa meira

Hugleiðing í tilefni af Hudson: Viðbrögð við heimskreppu

Framsóknarmenn hafa fengið til landsins nýjan hagfræðigúrú frá Missouri sér til halds og trausts. Sá heitir Michael Hudson og fundaði með Framsókn og forvitnum gestum á Grand Hótel s.l. mánudagskvöld.

Kjörorði fundarins: “Lausnir handa okkur öllum” var varpað upp á vegg með stórri mynd af formanninum unga, Sigmundi Davíð. Ég hélt til að byrja með að Hudson ætlaði að sanna að tillaga Framsóknarflokksins um 20% afskrift á skuldum fólks og fyrirtækja væri kórrétt hagfræði – ef ekki siðfræði. En Hudson gekk miklu lengra. Það var helst á honum að heyra að þjóðir ættu alls ekki að borga skuldir sínar, enda hefðu þær yfirleitt ekki til þeirra stofnað. Það fylgir sögunni að Hudson er sérfræðingur í Sumer og Babylon, árþúsundum fyrir Krist. Þar tíðkaðist það, að sögn Hudson, að þegar nýir landstjórnamenn komust til valda voru allar skuldir afskrifaðar.

Lesa meira

NÓBELSVERÐLAUNA VIRÐI?

Á fundi Framsóknarfélaganna í Reykjavík á Grand Hótel s.l. mánudagskvöld sagði Gunnar Tómasson, hagfræðingur, að verðtryggingin væri mestu hagstjórnarmistök Íslandssögunnar. Ef veitt væru Nóbelsverðlaun fyrir vitlausar hugmyndir í hagfræði, (sem gerist alltaf öðru hverju) ætti höfundur hennar Nóbelsverðlaunin skilin.

Þetta var réttur staður og stund til að kom þessum skilaboðum á framfæri því að skv. lögbókinni er Ólafur Jóhannesson, fv. formaður Framsóknarflokksins, höfundur verðtryggingarinnar. Verðtryggingin var leidd í lög snemma árs 1979 og lögin jafnan kennd við höfund sinn – kölluð Ólafslög – enda kvaðst Ólafur hafa samið frumvarpið “við eldhúsborðið heima hjá sér.” Þótt bæði ég og aðrir hafi véfengt höfundarrétt lagaprófessorsins að þessari frumvarpssmíð, hefur það lítinn árangur borið.

Lesa meira

Ísland: Saklaust fórnarlamb eða sjálfskaparvíti

Það voru góðir gestir í Silfri Egils 5. april. Michael Hudson og John Perkins lýstu af mælsku og eldmóði hættum frumskógarins í alþjóðlegum kapítalisma sem nú hafa lagt litla Ísland í einelti. Áður hafði Jón Helgi Egilsson sýnt fram á það með trúverðugum rökum að alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er að gefa Íslandi inn lyf sem passar ekki við sjúkdóminn. Ketill Sigurjónsson lögfræðingur varaði við glannalegri draumsýn um að þetta “muni allt saman reddast” þegar við byrjum að dæla olíu upp af Drekasvæðinu. Þeir Hudson og Perkins eru báðir svo róttækir í sinni sýn á heiminn, að hvorugum þeirra er boðið í mainstream fjölmiðla í Ameríku. “Ameríska lýðræðið” þolir ekki svona menn. Þess vegna eru þeir jaðrinum.

Hvað eru þeir að segja? Þeir eru að afhjúpa Ameríska heimsveldið og heimsyfirráð þess. Þeir birta ógnvekjandi tölur um misskiptingu auðs og tekna innan heimsveldisins. Á fáeinum áratugum hefur “the corporate elite” hins fjölþjóðlega heimskapítalisma vaxið frá því að eiga 37% af þjóðarframleiðslu Bandaríkjamanna upp í það að eiga 66%, á sama tíma og að laun almennings hafa rýrnað að kaupmætti. Þessar tölur tala sínu máli um að í Bandaríkjunum ríkir auðræði (eins og Ragnar Önundarson hefur kallað það). Plutocracy heitir það og er andstæða lýðræðis. Af 100 stærstu hagkerfum heimsins eru 50 fjölþjóðlegir auðhringar. Þegar kalda stríðinu um heimsyfirráð við Sovétríkin lauk, tók við nýtt stríð. Það snýst um eignarhald eða forræði yfir auðlindum heimsins og stjórn á lýðnum í þjóðríkjunum þar sem örbirgð almennings er öflugasta vopnið.

Lesa meira

Meira um sæta stráka. (Svar til Heiðu, sjá póst neðan við fyrri grein)

Það er ævinlega þörf áminning að benda mönnum á að líta í eigin barm. Já, ég var einu sinni ungur og óreyndur. Ég man enn hvað ég var innst inni upp með mér þegar ég spilaði í fyrsta sinn í “landsliðinu”. Þetta var árið 1969 og ég var þrítugur. Það var efnt til kappræðna um inngönguna í EFTA og við vorum þrír framsögumenn: Gylfi Þ Gíslason, viðskiptaráðherra og frumkvöðull málsins, Lúðvík Jósepsson, þrautreyndur pólitískur slagsmálahundur, og svo unglingurinn sjálfur ég. Ég fann það á fundinum að ég var ekki orðinn jafnoki þessara þungavigtarmanna, en hélt þó mínum hlut, að eigin mati, án þess að verða mér til skammar.

En kjarni málsins var þessi. Björn Jónsson, síðar forseti ASÍ, hafði treyst mér til að vera í nefnd, sem var skipuð af þingflokkum og átti að vera þingflokkunum til ráðgjafar um EFTA-málið. Ég átti þátt í því, í náinni samvinnu við Björn, við að snúa samtökum Frjálslyndra og vinstri manna frá andstöðu og til fylgis við málið. Fyrstu fundirnir sem ég tók þátt í vítt og breitt um landið, voru um þetta mál. Ég tók eindregna afstöðu og fylgdi eftir sannfæringu minni og varði þann málstað fyrir hverjum sem var. Þetta var fyrsta prófraun mín í pólitík.

Lesa meira

Pólitík og pottormabylting: Frumsýning í sjónvarpssal

Hvernig á að byggja upp úr rústunum? Hvernig á að koma hjólum atvinnulífsins í swing? Hvernig verða til störf? Hvernig á að bjarga þeim heimilum sem sjá ekki út úr skuldum og eru að missa húsnæðið? Hverjir eiga í þessu ástandi að borga skattana sem þarf að innheimta til að greiða niður skuldirnar? Ráðum við við þetta ein? Eða þurfum við að semja við grannþjóðir okkar og lánardrottna um tímabundna aðstoð meðan við erum að klóra okkur upp úr skuldafeninu? Er ESB partur af lausninni? Hvað getur komið í staðinn fyrir krónuna, sem er farin að sökkva aftur, þótt hún sé bundin við bryggju?

Þetta voru spurningarnar sem málsvarar “gömlu flokkanna” fimm og tveggja nýrra framboða, áttu að svara kjósendum, skýrt og skilmerkilega, á frumsýningu kosningabaráttunnar í ríkissjónvarpinu eftir fréttir í gærkvöldi (3. apríl). Áður en uppfærslan hófst var sýnd heimildarmynd úr fórum fréttastofu um lífsreynslusögu nýríkra spraðurbassa sem brutu fjöregg þjóðar sinnar í vímukasti í spilavíti og skildu við allt í rjúkandi rúst. 17.000 atvinnuleysingjar og 3 til 4.000 einstaklingar af yngri kynslóðinni í leit að nýjum samastað í tilverunni; nýju athvarfi, nýju gistilandi, nýju föðurlandi, kannski?

Lesa meira

Framtíðarsýn?

Það var forvitnilegt að fylgjast með málfundaræfingu Björns Bjarnasonar og Þorsteins Pálssonar í Háskólanum í Reykjavík í hádeginu s.l. þriðjudag (24.03.09). Þeir áttu að svara spurningunni, hvort Íslandi væri betur borgið innan eða utan Evrópusambandsins.

Forvitnilegt sagði ég. Ekki vegna þess að afstaða þessara fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins til málsins kæmi á óvart. Þorsteinn, sem er fyrrv. sjávarútvegsráðherra, hefur framundir það síðasta verið harður andstæðingur Evrópusambandsaðildar. En hann hefur skipt um skoðun eins og hann gerði grein fyrir á fundinum. Björn var fyrr á tíð opinn fyrir kostum Evrópusambandsaðildar, svo ekki sé meira sagt. Á seinni árum hefur hann hins vegar grafið sig ofan í skotgrafirnar og fer þaðan fremstur í flokki andstæðinga aðildar, ásamt með Bjarna Harðarsyni, bóksala á Selfossi, og öðrum mannvitsbrekkum.

Lesa meira

“LOSER WINS?”

Menn hefur eitthvað greint á um það að undanförnu, hvort ég hafi haft erindi sem erfiði í forvali Samfylkingarinnar í Reykjavík. Það væri að vísu synd að segja að ég hafi lagt mikið á mig við að snúa stríðlyndum sálum til fylgilags, því að ég lyfti ekki símtóli og kostaði svo sem öngvu til. Sjálfur kenndi ég útkomuna við hrakför daginn eftir að úrslit voru birt. Nú þegar heilög Jóhanna hefur, eftir nokkra eftirgangsmuni, tekið við krýningu sem sjálfkjörinn formaður á landsfundi SF eftir viku eða svo, er kannski ástæða til að endurskoða þetta mat.

Rifjum upp atburðarásina. Þann 14. febrúar flutti ég ræðu að beiðni minna gömlu félaga í Alþýðuflokksfélagi Reykjavíkur um hrunið, orsakir þess og afleiðingar. Þar lýsti ég þeirri skoðun minni að Samfylkingin gæti ekki látið það um sig spyrjast að hún gerði minni kröfur um pólitíska ábyrgð á hendur eigin forystumönnum en annarra. Sem flokksformaður og annar oddviti ríkisstjórnar Geirs Haarde, sem skildi eftir sig stærsta þrotabú Íslandssögunnar, hlyti Ingibjörg Sólrún að axla sína ótvíræðu pólitísku ábyrgð með því að víkja. Ella yrði Samfylkingin eini flokkurinn, sem borið hefði ríkisstsjórnarábyrgð á óförum lýðveldisins, sem byði fram óbreytta forystu.

Lesa meira