AÐ GANGA HREINT TIL VERKS

Þegar það kom á daginn, við réttarhöld sem kennd voru við “hreinar hendur” að Kristilegi demókrataflokkurinn á Ítalíu var maðksmoginn af mafíunni, gengu ítalskir kjósendur hreint til verks í næstu kosningum og þurrkuðu flokkinn út af þingi.

Nú er komið á daginn, hverjir gerðu Sjálfstæðisflokkinn út í seinustu kosningum. Það voru eigendur Glitnis og Landsbankans. Þá er loksins komin fram haldbær skýring á því, hvers vegna ríkisstjórn Geirs H. Haarde aðhafðist ekkert í tæka tíð til að koma í veg fyrir ofvöxt bankanna og þar með bankahrunið.

Nú reynir á lýðræðisþroska þeirra Íslendinga sem hingað til hafa léð Sjálfstæðisflokknum atkvæði sitt. Eru þeir reiðubúnir að taka flokksforystuna á orðinu og ganga hreint til verks? Og þurrka þennan smánarblett út af alþingi Íslendinga í næstu kosningum?

Í LEIT AÐ LAUSNUM – svar til Kristjáns Torfa 2

“Hvorki ég né þú né helstu sérfræðingar heimsins vita hvað er framundan. Gagnvart slíkri óvissu er heimskulegt að vera með stórkarlalegar yfirlýsingar um hvernig hlutirnir muni þróast.”

Kristján Torfi 2.

Við getum orðið sammála um þetta vænti ég. Það er skynsamlegt, þegar menn ferðast um ókunnugt landsvæði – terra incognita – að feta sig áfram af varfærni. Flestar fjármálakreppur, hingað til, hafa verið staðbundnar. Þegar Asíukreppan skall á breiddist hún út til Rússlands og S-Ameríku, en Ameríka og Evrópa héldu velli. Þessi virðist ætla að breiðast út um gjörvalla heimsbyggðina. Það er ekkert svæði – ekki einu sinni Kína – sem heldur fullum dampi og gæti hugsanlega dregið aðra að landi. Þetta virðist því ætla að verða sannanleg heimskreppa. Þetta gerir hverju einstöku hagkerfi erfiðara um vik að ná sér á strik. Reyndar ekki fyrirfram víst að sama lausnin henti alls staðar.

Lesa meira

Þjóðrækni eða remba?

Það gladdi okkur Bryndísi að heyra að menningarpáfar til hægri og vinstri, fyrrverandi ritstjórar Morgunblaðs og Þjóðviljans, þeir Matthías Jóhannessen og Árni Bergmann, ætluðu að miðla okkur af hugsun sinni um sálarheill þjóðarinnar upp úr hruni hjá hinum frábæra útvarpsmanni, Hjálmari Sveinssyni eftir hádegið í dag (laug. 11.04.) Við höfðum reynt að leggja hlustir við boðskap þeirra þjóðkirkjumanna í þjóðarfjölmiðlinum um páskana en ekki getað staðnæmst við neitt sem máli skiptir.

Nú gerðum við okkur vonir um að andlega vakandi ofurhugar hefðu eitthvað til málanna að leggja sem vekti okkur til umhugsunar. En þvílík vonbrigði! Þeir félagar voru sammála um að mæra menningararfinn, sem réttlætti sjálfstæða þjóðartilveru okkar. En hvers vegna hefur þessi dýri menningararfur reynst svo haldlítill, sem raun ber vitni, þegar á reyndi í hremmingum tilverunnar?

Lesa meira

JBH svarar HLH

Sæll Heiðar Lind. Þakka þér fyrir að vekja athygli mína á svargrein þinni. Svo sem sagnfræðinema sæmir er grein þín málefnaleg og gott innlegg í umræðuna. Þótt mér þyki hinn nýi formaður ykkar bera af sér góðan þokka er ekki þar með sagt að ég sé sannfærður um að hér eftir sé fortíð Framsóknar í ösku og framtíðin öll í heiðríjku hugans og heiðarleikans.

Mér fannst minn gamli fóstbróðir, Steingrímur Hermannsson,skjóta hátt yfir markið þegar hann vildi gera Alþýðuflokkinn að sökudólgi, en eins og gleymdi að geta þess, að flokkur ykkar hafði starfað með Sjálfstæðisflokknum í samfellt tólf ár, einmitt á því tímabili þegar hagstjórnin fór úr böndunum og auðklíkurnar uxu þjóðfélaginu yfir höfuð.

Lesa meira

(MEÐAL)VEGURINN TIL GLÖTUNAR

Ég les það í Pressunni að Tíminn sé genginn í endurnýjun lífdaganna – uppvakinn sem kosningablað framsóknarmanna. Hitt sætir jafnvel enn meiri tíðindum að hinn aldni jöfur þeirra framsóknarmanna, Steingrímur Hermannsson, lætur þar til sín heyra eftir að hafa haft hljótt um sig um hríð.

Steingrímur nefnir grein sína: “HINN GULLNI MEÐALVEGUR.” Pressan hefur það eftir honum að upphaf efnahagshrunsins 2008 megi rekja til stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, 1991-95 – þrettán árum fyrir hrun. Þetta er nýstárleg kenning, sérstaklega í ljósi þess að Framsóknarflokkurinn, undir leiðsögn arftaka Steingríms, Halldórs Ásgrímssonar, var í ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í þrjú kjörtímabil, eða tólf ár (1995-2007).

Lesa meira

Torfalög kapítalismans: svar til Kristjáns Torfa 09.04.

Til Kristjáns Torfa:
“Er þetta einhvers konar nýfjármagnskratismi sem þú talar fyrir undir kjörorðunum “almenningur á að borga skuldir óreiðumanna””? – Þetta er skætingur sem ekki er svaraverður.
Athugasemdir þínar að öðru leyti verðskulda þessi svör:
1. Ég hef að sjálfsögðu hvergi haldið því fram að ríkið (skattgreiðendur) eigi að greiða skuldir einkaaðila. Einmitt þess vegna gagnrýndi ég Hudson fyrir að gera ekki skýran greinarmun á ríkisskuldum og skuldum með ríkisábyrgðum (“sovereign debt”) og skuldum einkaaðila.

Dæmi: Sparifjáreigendur, breskir og hollenskir hjá Icesave, voru í góðri trú um að einstaklingsbundnar sparifjárinnistæður þeirra nytu lögbundinnar tryggingar. Það er rétt skv. íslenskum lögum. Íslenskum stjórnvöldum (þ.m.t. eftirlitsstofnunum) var fullkunnugt um þetta. Um það ríkti engin óvissa. Það var á valdi íslenskra stjórnvalda að firra íslenska skattgreiðendur þeirri áhættu að innistæðutryggingin lenti á þeim. Þau brugðust. Það er lýðskrum af verstu sort í bland við þjóðrembu, þegar íslenskir stjórnmálamenn, sem brugðust umbjóðendum sínum og sváfu á vaktinni, reyna að kenna öðrum um.

Lesa meira

Evrópusambandið er “post-colonial”: Svar til Viggós Jörgenssonar, 9. 4.

Heill og sæll, Viggó.
Ég lærði mína hagfræði í gamla daga við breskan (skoskan) háskóla. Um sumt – t.d. hina angló/amerísku heimsvaldastefnu – lærði ég meira af vinum mínum í Labour and Socialist Club,…

en þeir komu víðs vegar að úr breska heimsveldinu (Indlandi og Pakistan, Singapore og Malasíu, Afríku og Karíbahafinu). Samt má ekki gleyma því að sú var tíð að Bretland var “the workshop of the world.”Það er að vísu löngu liðin tíð. Bandaríkin fóru fram úr gömlu Evrópu upp úr aldamótunum 1900. Evrópa brotlenti í tveimur heimsstyrjöldum. Frá og með lokum seinni heimstyrjaldar hefur bandaríski kapítalisminn verið heimsyfirráðaafl. Hamfarakapítalisminn (fjármálakerfi sem vaxið hefur framleiðslukerfinu yfir höfuð) á ætt sína og óðul í Ameríku. Höfuðstöðvarnar eru við Wall Street. Stjórntæki heimskapítalismans – IMF, World Bank og WTO – allt er þetta undir amerískri stjórn.

Lesa meira

Hugleiðing í tilefni af Hudson: Viðbrögð við heimskreppu

Framsóknarmenn hafa fengið til landsins nýjan hagfræðigúrú frá Missouri sér til halds og trausts. Sá heitir Michael Hudson og fundaði með Framsókn og forvitnum gestum á Grand Hótel s.l. mánudagskvöld.

Kjörorði fundarins: “Lausnir handa okkur öllum” var varpað upp á vegg með stórri mynd af formanninum unga, Sigmundi Davíð. Ég hélt til að byrja með að Hudson ætlaði að sanna að tillaga Framsóknarflokksins um 20% afskrift á skuldum fólks og fyrirtækja væri kórrétt hagfræði – ef ekki siðfræði. En Hudson gekk miklu lengra. Það var helst á honum að heyra að þjóðir ættu alls ekki að borga skuldir sínar, enda hefðu þær yfirleitt ekki til þeirra stofnað. Það fylgir sögunni að Hudson er sérfræðingur í Sumer og Babylon, árþúsundum fyrir Krist. Þar tíðkaðist það, að sögn Hudson, að þegar nýir landstjórnamenn komust til valda voru allar skuldir afskrifaðar.

Lesa meira

NÓBELSVERÐLAUNA VIRÐI?

Á fundi Framsóknarfélaganna í Reykjavík á Grand Hótel s.l. mánudagskvöld sagði Gunnar Tómasson, hagfræðingur, að verðtryggingin væri mestu hagstjórnarmistök Íslandssögunnar. Ef veitt væru Nóbelsverðlaun fyrir vitlausar hugmyndir í hagfræði, (sem gerist alltaf öðru hverju) ætti höfundur hennar Nóbelsverðlaunin skilin.

Þetta var réttur staður og stund til að kom þessum skilaboðum á framfæri því að skv. lögbókinni er Ólafur Jóhannesson, fv. formaður Framsóknarflokksins, höfundur verðtryggingarinnar. Verðtryggingin var leidd í lög snemma árs 1979 og lögin jafnan kennd við höfund sinn – kölluð Ólafslög – enda kvaðst Ólafur hafa samið frumvarpið “við eldhúsborðið heima hjá sér.” Þótt bæði ég og aðrir hafi véfengt höfundarrétt lagaprófessorsins að þessari frumvarpssmíð, hefur það lítinn árangur borið.

Lesa meira

Ísland: Saklaust fórnarlamb eða sjálfskaparvíti

Það voru góðir gestir í Silfri Egils 5. april. Michael Hudson og John Perkins lýstu af mælsku og eldmóði hættum frumskógarins í alþjóðlegum kapítalisma sem nú hafa lagt litla Ísland í einelti. Áður hafði Jón Helgi Egilsson sýnt fram á það með trúverðugum rökum að alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er að gefa Íslandi inn lyf sem passar ekki við sjúkdóminn. Ketill Sigurjónsson lögfræðingur varaði við glannalegri draumsýn um að þetta “muni allt saman reddast” þegar við byrjum að dæla olíu upp af Drekasvæðinu. Þeir Hudson og Perkins eru báðir svo róttækir í sinni sýn á heiminn, að hvorugum þeirra er boðið í mainstream fjölmiðla í Ameríku. “Ameríska lýðræðið” þolir ekki svona menn. Þess vegna eru þeir jaðrinum.

Hvað eru þeir að segja? Þeir eru að afhjúpa Ameríska heimsveldið og heimsyfirráð þess. Þeir birta ógnvekjandi tölur um misskiptingu auðs og tekna innan heimsveldisins. Á fáeinum áratugum hefur “the corporate elite” hins fjölþjóðlega heimskapítalisma vaxið frá því að eiga 37% af þjóðarframleiðslu Bandaríkjamanna upp í það að eiga 66%, á sama tíma og að laun almennings hafa rýrnað að kaupmætti. Þessar tölur tala sínu máli um að í Bandaríkjunum ríkir auðræði (eins og Ragnar Önundarson hefur kallað það). Plutocracy heitir það og er andstæða lýðræðis. Af 100 stærstu hagkerfum heimsins eru 50 fjölþjóðlegir auðhringar. Þegar kalda stríðinu um heimsyfirráð við Sovétríkin lauk, tók við nýtt stríð. Það snýst um eignarhald eða forræði yfir auðlindum heimsins og stjórn á lýðnum í þjóðríkjunum þar sem örbirgð almennings er öflugasta vopnið.

Lesa meira