Almenna reglan er sú að aðildarríki ESB ráða sjálf yfir auðlindum sínum. Eignarréttarskipan á þeim er þeirra mál. Spánverjar ráða sínum ólífulundum; Bretar sinni Norðursjávarolíu; Pólverjar sínum kolanámum og Finnar sínum skógarlendum. Sameiginlega fiskveiðistefnan er undantekning frá þessu. Ástæðan liggur í augum uppi. Öldum saman hafa grannþjóðir við Norðursjó, sem nú eru innan ESB, nytjað sameiginlega fiskistofna á sameiginlegu hafsvæði. Til þess að mismuna þeim ekki er umsjá hins sameiginlega hafsvæðis hjá Evrópusambandinu, fremur en einhverri aðildarþjóðanna. Það ræðst af aðstæðum.
AUÐLINDIRNAR OG ESB
Helgi Áss Grétarsson, lögfræðingur, heldur því fram í grein í þessu blaði (13.03.09.) að stjórnarskrárákvæði um þjóðareign á auðlindum Íslendinga þ.m.t. fiskimiðunum gangi í berhögg við sameiginlega fiskveiðistefnu bandalagsins (CFP), sem kveður á um forræði bandalagsins yfir efnahagslögsögu aðildarríkja utan 12 mílna. Ályktun Helga Áss er sú að stjórnarskrárákvæðið torveldi aðildarsamninga við ESB eða geri þá hreinlega ósamrýmanlega stjórnarskránni.