En kjarni málsins var þessi. Björn Jónsson, síðar forseti ASÍ, hafði treyst mér til að vera í nefnd, sem var skipuð af þingflokkum og átti að vera þingflokkunum til ráðgjafar um EFTA-málið. Ég átti þátt í því, í náinni samvinnu við Björn, við að snúa samtökum Frjálslyndra og vinstri manna frá andstöðu og til fylgis við málið. Fyrstu fundirnir sem ég tók þátt í vítt og breitt um landið, voru um þetta mál. Ég tók eindregna afstöðu og fylgdi eftir sannfæringu minni og varði þann málstað fyrir hverjum sem var. Þetta var fyrsta prófraun mín í pólitík.
Meira um sæta stráka. (Svar til Heiðu, sjá póst neðan við fyrri grein)
Það er ævinlega þörf áminning að benda mönnum á að líta í eigin barm. Já, ég var einu sinni ungur og óreyndur. Ég man enn hvað ég var innst inni upp með mér þegar ég spilaði í fyrsta sinn í “landsliðinu”. Þetta var árið 1969 og ég var þrítugur. Það var efnt til kappræðna um inngönguna í EFTA og við vorum þrír framsögumenn: Gylfi Þ Gíslason, viðskiptaráðherra og frumkvöðull málsins, Lúðvík Jósepsson, þrautreyndur pólitískur slagsmálahundur, og svo unglingurinn sjálfur ég. Ég fann það á fundinum að ég var ekki orðinn jafnoki þessara þungavigtarmanna, en hélt þó mínum hlut, að eigin mati, án þess að verða mér til skammar.