Hvað er til ráða eftir hrun? Húsfyllir í Norræna húsinu.

Þrátt fyrir bjart og fagurt vetrarveður í gær, laugardaginn 7. mars, var fullt út úr dyrum á fundinum sem ég boðaði til í Norræna húsinu. Þétt setið í salnum svo að það þurfti að raða upp aukastólum í anddyrinu. 160 manns að sögn húsráðenda. Fundarefnið var:
HVAÐ ER TIL RÁÐA EFTIR HRUN?

Ég leitaði svara við mörgum spurningum sem nú brenna á fólki:

Lesa meira

Eimreiðarhópurinn: Who is who í valdakerfinu

Kafli úr ræðu Jón Baldvins, sem hann mun flytja á opnum fundi í Norræna húsinu á morgun kl. 14:00.
Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Þeir ungu menn sem gerðust handgengnir nýfrjálshyggjunni hér á landi mynduðu snemma með sér félagsskap sem gekk undir nafninu Eimreiðarhópurinn. Það er athyglisvert að þeir þrír einstaklingar sem verið hafa formenn Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherrar í umboði hans s.l. aldarfjórðung tilheyrðu allir þessum félagsskap. Hafi Davíð Oddsson verið hinn ókrýndi leiðtogi hópsins þá var Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor, hugmyndafræðingurinn, eins konar Suslov, en Kjartan Gunnarsson var apparatchíkinn, framkvæmdastjóri Flokksins. Þegar litið er yfir nafnalistann lítur hann út eins og Who is Who yfir valdakerfi Sjálfstæðisflokksins s.l. áratugi.

Lesa meira

FRÉTTATILKYNNING

Jón Baldvin boðar til borgarafundar í Norræna húsinu, laugardaginn, 7. mars, kl. 14:00.

Umræðuefni:
HVAÐ ER TIL RÁÐA EFTIR HRUN?

Þarna mun JBH fjalla um þá möguleika sem Íslendingum standa til boða eftir hrun efnahagslífsins. Hann mun fjalla um Evrópumál og upptöku evru, einkum með hliðsjón af sérkennilegum ummælum Dr. Kenneth Rogoff um upptöku evru í viðtalsþætti í sjónvarpinu hjá Boga Ágústssyni á þriðjudaginn. Þar fjallaði prófessorinn frjálslega um að evra hefði orðið okkur til trafala síðasta haust. Síðar í þættinum lýsti Dr. Rogoff hins vegar yfir að hann þekkti ekki íslenskt efnhagslíf nægjanlega vel til að geta rætt það í þaula!

Að Framsögu lokinni svarar Jón Baldvin spurningum úr sal.

Stuðningsmenn.

PÓLITÍSK ÁBYRGÐ?

Jón Ólafsson, lærdómsmaður að Bifröst, vandar um við mig í pistli sínum fyrir að gera ekki tilhlýðilegan greinarmun á ráðherraábyrgð og ábyrgð flokksformanns. Það getur vel verið að á þessu tvennu sé einhver munur þótt rökstuðningur J.Ól. fyrir því sé lítt sannfærandi. Og þegar hann sakar mig um að “rugla saman … fullkomlega óskyldum tegundum siðferðilegrar ábyrgðar,” er hann áreiðanlega farinn að fullyrða meira en hann getur staðið við.

Samkvæmt leikreglum lýðræðisins er stjórnmálamönnum skylt að leggja mál sín reglulega “í dóm kjósenda.” Öfugt við embættismenn, t.d. bera þeir ábyrgð frammi fyrir kjósendum. Þetta á við um alþm. og ráðherra, sem skv. íslenskri hefð eru oftast sama persóna. Þessu til viðbótar ber að nefna landsdóm, sem er sérstakur dómstóll sem á að dæma um afglöp ráðherra í starfi. Merkilegt nokk hefur sá dómstóll ekki haft mikið að gera á Íslandi.

Lesa meira

“DABBI OG SIMMI”: ANNAR ÞÁTTUR

Sjóið heldur áfram. Sömu leikarar í sömu hlutverkum: Dabbi og Simmi.
Dabbi leikur aðþrengdan stjórnmálamann með létta paranoju og lítt haminn ofsóknarkomplex. Simmi leikur rannsóknarlögreglumann hjá INTERPOL sem er nýr í bransanum en vill ólmur klára málið. Nær samt ekki alveg upp í það.

TAKA I.

Stjórnmálamaðurinn Davíð var svo seinheppinn að vistráða sig í Seðlabankann þegar hann “hætti í pólitík”. Lögum samkvæmt á hann bara að sjá um tvennt sem seðlabankastjóri: Að gjaldmiðillinn sé stöðugur og að bankakerfið sé traust. Hvort tveggja klikkaði á hans vakt. Það varð kerfishrun sem framvegis verður minnst í skólabókum sem sígilds dæmis um mistök á heimsmælikvarða. Afleiðingin er neyðarástand. Það mun taka þjóðina mörg ár að jafna sig eftir áfallið og borga reikningana. Rannsóknarspurningin er: Hvers vegna sögðu seðlabankastjórarnir ekki af sér kl. 9:00 stundvíslega daginn eftir hrun? Það skilur enginn (Skýring: Alan Greenspan var seðlabankastjóri Bandaríkjanna í 18 ár. Hann er talinn bera höfuðábyrgð á heimskreppunni. Nafn hans er á válistanum, ásamt nöfnum minni spámanna eins og Oddsson og Haarde. Munurinn er sá að Greenspan hefur gengist við ábyrgð sinni. Hann sagði frammi fyrir rannsóknarnefnd þingsins: “Ég trúði því í 40 ár að markaðirnir leiðréttu sig sjálfir. Það voru mistök” sagði hann og baðst afsökunar.)

Lesa meira

80 DAGA STJÓRNIN OG ATVINNULÍFIÐ OG HEIMILIN

Fréttir dagsins úr atvinnulífinu eru ógnvekjandi. Fyrir skömmu lýstu Samtök atvinnulífsins því yfir að u.þ.b. 70% fyrirtækjanna í landinu væru “tæknilega gjaldþrota”. Það þýðir að þau eiga ekki fyrir skuldum.Samkvæmt fréttum dagsins er gósentíð framundan hjá innheimtulögfræðingum. Þeir búast við því að út þetta ár fari um 10 fyrirtæki á hausinn á dag. Atvinnulaust fólk telst nú þegar um 15 þúsund. Þeim mun fjölga dag frá degi út árið verði ekki að gert.

Fyrir nokkrum vikum kom hingað til lands Göran Persson fv. forsætisráðherra Svía. Hann miðlaði okkur af reynslu sinni af kreppuvörnum í Svíþjóð frá árunum 1992-95, en þá gegndi hann embætti fjármálaráðherra Svía. Hann lagði í máli sínu þunga áherslu á fá en einföld sannindi: Gerir strax í upphafi áætlun til næstu ára um kreppuvarnir. Kynnið áætlunina rækilega og rökstyðjið nauðsyn hverrar aðgerðar frammi fyrir þjóðinni, þannig að fólk sannfærist um illa nauðsyn harðráðanna. Því að eins að þetta sé gert getur fólk eygt vonarneista um að með harðfylgi, sjálfsaga og sjálfsafneitun geti þjóðin unnið sig út úr vandanum með samstilltu átaki. Fólk þarf að geta treyst því að björgunaráætlunin sé sanngjörn og réttlát.

Lesa meira

Í TILEFNI AF SJÖTUGS AFMÆLIS JÓN BALDVINS HANNIBALSSONAR. VIÐTAL KOLBRÚNAR BERGÞÓRSDÓTTUR VIÐ JBH SEM BIRTIST Í MORGUNBLAÐINU ÞANN 21. FEBRÚAR 2009.

Það vakti mikla athygli þegar Jón Baldvin Hannibalsson lýsti því yfir að hann myndi bjóða sig fram til formanns Samfylkingar viki Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ekki úr sæti formanns.

Þegar Jón Baldvin er spurður hvort hann standi enn við þessa yfirlýsingu sína svarar hann: „Við skulum ræða um foringja og ábyrgð og alvöru málsins. Ég heimsótti son minn til Afríku síðastliðið sumar og fór með honum í þorp á þurrkasvæðum. Þar hitti ég særingameistara sem á að hafa ítök hið efra til að sjá um að nógu mikið rigni úr himinhvolfinu til að koma í veg fyrir að jörðin skrælni, uppskeran bregðist, búsmalinn falli og hungursneyð verði í landinu. Þarna hafa verið miklir þurrkar í tvö ár og ég sá í augum hans að hann óttaðist það að ef ekki færi að rigna þá myndi hann ekki kemba hærurnar sem trúnaðarmaður fólksins. Svona er ábyrgin í frumstæðum þjóðfélögum og svona er ábyrgðin í lýðræðinu hjá okkur. Þeir sem sækjast eftir umboði fólks til að stjórna eiga að bera ábyrgð. Ef þeir vinna verk sín vel svo fólki vegni vel þá geta þeir gert sér vonir um endurkjör. En ef þeim mistekst, ég tala ekki um mistekst hrapalega, þá eru þeir eru ekki á vetur setjandi.

Lesa meira