Þetta gengur m.ö.o. ekki. Bankakerfið er í lamasessi. Vextir eru allt of háir. Eigið fé fyrirtækjanna er á þrotum, enda sogast það með ofurvöxtunum inn í bankana. Hvers konar atvinnustefna er þetta? Um tíu fyrirtæki verða gjaldþrota á dag og tala atvinnuleysingja er komin yfir 16.000. Alls staðar í löndunum í kring um okkar er verið að lækka vexti. Stýrivextir Bank of England eru að nálgast núllið. Efnahagsvandinn núna er ekki að draga úr þenslu heldur að koma í veg fyrir samdrátt. Það þarf að lækka vexti og moka peningum í fyrirtækin til þess að halda uppi framleiðslu og atvinnu.
JÁ, EN HVAÐ MEÐ VERÐTRYGGINGUNA?
Það er engin eftirspurnarþensla í hagkerfinu til að kynda undir verðbólgu. Þvert á móti. Framundan er samdráttur og jafnvel verðhjöðnun. Þes vegna er furðulegt að Seðlabankinn (eða IMF/AGS) skuli halda uppi 18% stýrivöxtum. Til hvers? Til þess að stöðva fjárflótta úr landi, segja þeir. Þess þarf ekki þar sem við búum við gjaldeyrishöft. Það er bannað að flytja fé úr landi nema með leyfi. Hves vegna er þá verið að halda uppi 18% vöxtum? Til þess að draga úr verðbólgu segja þeir. En það er engin verðbólga – það er verðhjöðnun framundan.