Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Jóhannes Haukur Jóhannesson í hlutverkum prinsessunnar og forsetans
Ég hef einhvern veginn svo miklar væntingar til leikhússins, að í hvert sinn, sem ég er ekki alveg sátt við sýningu, þá hef ég tilhneigingu til að kenna sjálfri mér um – að ég sé bara þreytt eða illa fyrir kölluð, eða hafi bara einfaldlega ekki vit á því, sem á borð er borið. Þar að auki fór ég alein á Ballið á Bessastöðum, hafði engan félagsskap. Ég saknaði þess að hafa ekki lítinn hnokka við h lið mér, sem gæti vottað með látæði sínu, hvort sýningin væri skemmtileg eða leiðinleg – þetta er nú einu sinni barnasýning og það er því þeirra að dæma. Það eru börnin, sem eiga að fylla salinn sunnudag eftir sunnudag, og ef það tekst að lokka þau í leikhúsið (þrátt fyrir 3.200 krónur miðaverð), þá er sigurinn unninn og segir allt um sýninguna, sem segja þarf –sama hvað mér finnst, sem er komin nokkuð af barnsaldri.