Loksins höfðu Íslendingar sannað, þar sem á reyndi, að þeir væru engir eftirbátar annarra Norðurlandaþjóða. En af því að knattspyrna á að heita hópíþrótt, var þetta einstaklingsafrek þeim mun ótrúlegra. Hvílíkur galdramaður. Óviðjafnanlegur. Á þessum 90 mínútum skráði Ríkharður nafn sitt óafmáanlega á spjöld Íslandssögunnar. Hafi nokkur einstaklingur gerst fyrirmynd og átrúnaðargoð heillar kynslóðar hins unga lýðveldis, þá var það hann: Skagamaðurinn frækni.
Ríkharður Jónsson, minning
Ríkharður ljónshjarta- það hét hann alla vega meðal okkar, aðdáenda hans fyrir vestan. Stundum Rikki hinn ósigrandi. Það leikur enn ljómi um nafnið, 66 árum eftir að hann – nánast einn síns liðs – sigraði ólympíumeistara Svía í landsleik í knattspyrnu árið 1951 – 4:3.