Þetta er mikið vald á fárra höndum. Í óbeisluðum kapítalisma – eins og t.d. í Bandaríkjunum – er fátt sem hemur þetta geðþóttavald, af því að verkalýðshreyfingin hefur þar verið brotin á bak aftur. Einungis 10% vinnandi fólk er þar í stéttarfélögum. En í blönduðu hagkerfi – stundum kallað lýðræðislegt markaðskerfi – skiptir miklu máli, hverjir fara með pólitíska valdið. Opinberi geirinn spannar víða 4050% af vergri landsframleiðslu og veitir um þriðjungi mannaflans vinnu. Við þetta bætist, að löggjafinn semur leikreglurnar. Ef eigendur fjármagns og fyrirtækja ná að sölsa undir sig pólitíska valdið líka, verður fátt um varnir. Leikreglurnar verða þá sérsniðnar þeim í hag. Afleiðingarnar birtast okkur í samtímanum í sívaxandi ójöfnuði eigna og tekna annars vegar, en í réttleysi, arðráni og öryggisleysi almennings hins vegar.
Mannréttindahreyfing gegn mismunun
Í fyrri grein var sýnt fram á að ákvörðunarvaldið um fjárfestingar og framkvæmdir er að stærstum hluta í höndum fámenns hóps eigenda fjármagns og fyrirtækja. Valdið á vinnumarkaðnum til að ráða og reka er í höndum sama hóps. Ef stéttarfélög eru veikburða – eða jafnvel ekki til – á vinnandi fólk allt sitt undir valdi vinnuveitenda.