Ég held það sé á engan hallað, þegar ég segi, að Hörður Zóphaníasson þekkti sögu þeirra Hafnarfjarðarkrata manna best. Hörður var vel menntaður kennari og uppeldisfrömuður og hafði stundað framhaldsnám við Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn. Uppeldi æskulýðsins var í hans huga hluti af mannrækt jafnaðarmannsins. Þeir sem nutu handleiðslu hans á æskuárum, bera því vitni, að öllum kom hann til nokkurs þroska.
Hörður Zóphaníasson
Í marsmánuði á næsta ári munu íslenskir jafnaðarmenn minnast þess, að heil öld er þá liðin frá stofnun Alþýðuflokksins og Alþýðusambands Íslands, baráttusamtaka fátæks fólks, sem hafði að leiðarljósi að breyta þjóðfélaginu. Þeir sem þekkja þessa sögu, vita, að höfuðvígi jafnaðarmanna á Íslandi, var að finna á Ísafirði og í Hafnarfirði.