Það tók Arnór ekki langan tíma að komast að raun um, að Sovéttrúboðið íslenska fór villur vega í sínum boðskap; draumurinn hafði fyrir löngu snúist upp í martröð. Sovétríkin voru fólskulegt lögregluríki – fangelsi þjóðanna – haldið saman með ofbeldi. Arnór lá ekki á skoðunum sínum. Við það komst hann upp á kant við hina heilögu þrenningu (Einar, Brynjólf og Kristinn E.), item ritstjóra Þjóðviljans og Tímarit máls og menningar, sem ritskoðuðu greinar hans eða synjuðu birtingar. Heimkominn birti Arnór greinasafn um þessa lífreynslu sína undir heitinu Valdið og þjóðin. Hann fylgdi því síðan eftir með bókinn Kommúnismi og vinstri hreyfing. Ragnar í Smára gaf út þetta bannfærða efni. Eftir þetta varð Arnór persona non grata meðal menningarelítunnar, sem alist hafði upp í lífslygi Sovéttrúboðsins. Hann var kerfisbundið rægður. Það var sagt, að hann hefði ekki þolað álagið í Moskvu og “bilast”.
Svipmynd: RAUÐI ÞRÁÐURINN……
Arnór elsti bróðir minn var, eftir því sem ég best veit, fyrsti maðurinn af Vesturlöndum eftir stríð til að útskrifast úr háskólanum í Moskvu. Hann stundaði þar nám á árunum 1953 (árið sem fjöldamorðinginn Stalín hrökk upp af) til 1959. Næstu tvö árin stundaði hann framhaldsnám í heimspeki (m.a. hjá Kolakowski) í Kraká og Varsjá. Báðir voru þeir Árni Bergmann og hann, en þeir voru samtímis í Moskvu, vistaðir þar fyrir milligöngu Einars Olgeirssonar gegnum flokkstengsl.