Inngangsorð: Nú er komin skýringin á því, hvers vegna Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor, hefur látið óvenjulítið fara fyrir sér að undanförnu. Ástæðan er ekki endilega sú, að fjörbrot frjálshyggjunnar hafa skekið íslenskt þjóðfélag til grunna – og reyndar heimsbyggðina alla í þokkabót – og að þetta hafi vakið prófessornum efasemdir um trúverðugleik trúboðsins. Ástæðan er sú, að prófessorinn hefur lokað sig inni við að snúa hinu mikla franska ritsafni: “Svartbók kommúnismans” yfir á íslensku. Þetta er mikið verk, sem verðskuldar vandaða umræðu um ýmis undirstöðuatriði í stjórnmálum samtímans – ekki síst nú, þegar frjálshyggjutilraunin með Ísland hefur brugðist og við stöndum sem þjóð frammi fyrir þeirri óumflýjanlegu spurningu: Hvers konar þjóðfélag viljum við byggja upp á rústum hins hrunda? Fyrir þetta á Hannes Hólmsteinn hrós skilið.
Í tilefni af útkomu bókarinnar var efnt til málþings um efni hennar á vegum ýmissa stofnana háskólans í Þjóðminjasafni Íslands í hádeginu mán. 31.08.09. Björn Bjarnason fv. dómsmálaráðherra, stýrði fundi. Göran Lindblad, sænskur hægrimaður, sem beitti sér fyrir samþykkt ályktunar þings Evrópuráðsins um glæpi kommúnismans, reifaði málið. Undirritaður var til andsvara f.h. hugmyndaarfs marxismans og velferðarríkis jafnaðarstefnunnar, sem hefur sótt sitthvað af gagnrýni sinni á hinn óbeislaða kapítalisma til Karls Marx og arftaka hans. Lindblad lýsti þeirri skoðun, að Sovétgulagið væri óhjákvæmileg afleiðing af kenningum Marx. Ég andmæli þeirri skoðun og spyr: Er sanngjarnt að kenna Kristi um seinni tíma óhæfuverk kaþólsku kirkjunnar: Ofsóknir hennar á hendur trúvillingum, krossferðir á hendur heiðingjum, ritskoðun gegn röngum skoðunum, rannsóknarréttur gegn grunuðum efasemdarmönnum, nornaveiðar gegn konum og þegjandi samþykki við Gyðingaofsóknum og sitt hvað fleira óbermilegt? Í eftirfarandi texta er að finna frekari rökstuðning fyrir þeim skoðunum, sem ég lýsti á fyrrnefndum fundi. – JBH .
Lesa meira