HÁSKÓLINN Á BIFRÖST – MÁLÞING Í IÐNÓ: ER HÆGT AÐ LÆRA TIL FORSÆTISRÁÐHERRA?

Það stendur hvergi skrifað, svo ég viti – hvorki í dönsku stjórnarskránni né í stjórnsýslulögum – að forsætisráðherrann þurfi að hafa hæfnisvottorð upp á vasann. Embætti forsætisráðherra er m. ö. o. eitt af örfáum djobbum, sem eftir eru á vinnumarkaðnum, þar sem ekki er krafist prófskírteinis.

Þú þarft sumsé ekki að hafa bréf upp á það. Enda er djobbið undanþegið auglýsingaskyldu. Það eru engin eyðublöð til að fylla út og engin dómnefnd til að meta hæfni umsækjenda. Þjóðin er ekki einu sinni spurð álits. Það eru formenn samstarfsflokka í ríkisstjórn, sem semja sín í milli um það, hver hreppir hnossið.

Lesa meira

Á tímamótum: Styrmir Gunnarsson sjötugur

Um höfuðvitni aldarfarsins

Styrmir er sagður sjötugur í dag. Það þýðir að einn góðan veðurdag, áður en árið kveður, mun hann standa upp úr ritstjórastólnum, sem hann hefur setið í 36 ár, taka hnakk sinn og hest og ríða inn í sólarlagið. Þetta munu þykja góðar fréttir á Wall Street. Verst, að ástandið á fjármálamörkuðunum leyfir varla, að þeir geri sér almennilega dagamun í tilefni dagsins. Nema hlutabréfaverðið taki upp á því að rakna úr rotinu, svo að menn geti tekið gleði sína á ný.

Styrmir Gunnarsson, sjötugur

En hvort sem mönnum þykir brottför Styrmis frá Hádegismóum góðar fréttir eða slæmar, þá táknar hún tímamót. Þegar þar að kemur. Maðurinn er búinn að vera 43 ár á Mogganum, þar af ritstjóri í 36 ár. Reyndar er liðin meira en hálf öld frá því að þeir Hörður Einarsson voru að bögga Bjarna Ben. með einhverri æskulýðssíðu í nafni SUS. Bjarna fannst þeir víst bara nokkuð efnilegir.

Lesa meira

A LETTER TO MR. KAZICKAS

Mr.Kazickas is an American of Lithuanian descent. He published his memoirs with an account of his involvement in the struggle for the restoration of Lithuania´s independence. According to Mr. Kazickas’s story, Iceland´s role in support of the Baltic countries´ independence was explained as having been iniciated and orchestrated by the US through their ambassador in Reykjavik, Mr. Cobb.

Several high ranking leaders of the Baltic independence movement have told me that this was an official US attempt at historical revision, trying to justify that the Bush senior administration was very late in recognizing the hard won independence of the Baltic States.
I wrote this letter to Mr. Kazickas to put the record straight.

Continue reading

AL GORE GEGN AMRÍSKA HEIMSVELDINU

Al Gore: The Assault on Reason
The Penguin Press, N.Y., 2007, 308 bls..

Ef Al Gore, þáverandi varaforseti og frambjóðandi í forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2000, hefði unnið kosningarnar, eins og öll rök stóðu til, hefði hann ekki þurft að skrifa þessa bók. Al Gore hafði verið einn áhrifamesti varaforseti í sögu þess vandræðalega embættis, (a.m.k. fram að tíð Cheneys, núverandi varaforseta, sem flestir álíta meiri þungavigtarmann en meintan húsbónda í Hvíta húsinu). Bill Clinton naut almennra vinsælda sem forseti og hefði auðveldlega fengið umboð kjósenda þriðja kjörtímabilið í röð, væri það leyfilegt samkvæmt stjórnarskránni. Clinton og Gore höfðu skilað góðu búi. Það var uppgangur í efnahagslífinu, sem var drifinn áfram af tæknibyltingu, sem jók framleiðni og samkeppnishæfni bandarískra fyrirtækja og dró um leið úr atvinnuleysi. Viðvarandi fjárlagahalla hafði verið snúið upp í fimm trilljón dala tekjujöfnuð. Það blés því byrlega fyrir Al Gore.

Keppinautur hans af hálfu republíkana, fráfarandi ríkisstjóri í Texas, hafði af litlu að státa. Hann hafði verið drykkfelldur dekurdrengur og mislukkaður bissnissmaður, sem hafði sloppið frá gjaldþroti fyrir atbeina föður síns og vina hans. En hann hafði frelsast fyrir náð Jesús og snúið til betri vegar. En þessi fákunnandi og reynslulausi einfeldningur frá Texas, sem hafði komið einu sinni til útlanda (til Mexíkó), virtist lítið erindi eiga í hendurnar á Al Gore. Gore var þrautreyndur stjórnmálamaður eftir langa setu í fulltrúadeildinni og Senatinu, auk þess sem hann hafði bakað skæðari keppinauta en Bush í frægum sjónvarpseinvígum, þeirra á meðal menn eins og Senator Bradley og Ross Perot.

Lesa meira

KOLLA OG KÚLTÚRINN FIMMTÍU ÁRA

Auðvitað átti Mál og menning að heiðra Kollu og kúltúrinn í tilefni af þessu stórafmæli með því að gefa út bók með úrvali af viðtölum Kollu við mannfólkið. Þá hefðum við séð það svart á hvítu, sem mörgum okkar hefur lengi boðið í grun, að Kolla væri besti viðtalshöfundur samtímans. A.m.k. eftir að Matti Jó hætti að birta sexopnuviðtöl við Rostropovits um kalda stríðið í kúltúrnum undir fyrirsögninni: Í fáum orðum sagt.

Að öðru leyti verður að viðurkenna, að samkeppnin í viðtalabransanum er ekki mjög hörð hér á landi. Flestir fjölmiðlar íslenskir virðast starfa samkvæmt þeirri grundvallarreglu að tala bara við fólk, sem hefur ekkert að segja. Það er af því að þótt svoleiðis textar freisti ekki lesenda, þá fæla þeir alla vega ekki frá auglýsendur. Kolla er aftur á móti hinsegin. Hún spyr bara spurninga, sem skipta máli, en hefur ekki áhuga á hinu. Það er varla til sá andlegi trédrumbur, að hann vakni ekki til einhvers konar vitundar í viðtali við Kollu. T.d. tókst henni nýlega að láta formann FL Group líta út eins og mann, af því að það hvarflaði ekki að henni að spyrja hann út í það eina, sem hann hefur vit á, nefnilega peninga.

Lesa meira

Í MINNINGU EINARS ODDS KRISTJÁNSSONAR

Þjóðarsáttarsamningarnir snemma á tíunda áratug seinustu aldar voru stóra stundin á pólitískum ferli Einars Odds Kristjánssonar. Það er vafamál, hvort þessir samningar hefðu komist á án hans atbeina. Auðvitað áttu fleiri góðan hlut að því máli, en áræðni Einars Odds og sannfæringarkraftur kunna að hafa ráðið úrslitum. Fyrir þetta stendur íslenska þjóðin í þakkarskuld við Einar Odd Kristjánsson. Viðurkenning manna á lofsverðri framgöngu Einars Odds í þessu máli fékk m.a. s. birtingarform í tungutakinu, því að lengi á eftir var til hans vísað undir sæmdarheitinu “bjargvætturinn frá Flateyri.”

Mikilvægi þessara tilteknu kjarasamninga er trúlega hulin ráðgáta öðrum en þeim, sem ólust upp í verðbólguþjóðfélaginu íslenska. Þrálát verðbólga var á þessum árum innbyggð í sjálft stjórnkerfið og orðin að sérstökum lífsstíl. Verðbólgan var knúin áfram af sjálfvirkri víxlverkan verðlags og launa. Kjarasamningar, jafnvel upp á tugi prósenta, héldu ekki, því að kaupmátturinn eyddist í verðbólgunni. Verðbólguvæntingarnar stýrðu hugsunarhætti og athöfnum fólks. Glataður var geymdur eyrir. Sparnaður var nánast refsivert athæfi. Engir haldbærir mælikvarðar voru til á arðsemi fjárfestinga. Allt var talið borgað sig, ef það var bundið nógu hratt í steinsteypu. Munurinn á verðlagi og tilkostnaði innan lands og meðal viðskiptaþjóða kallaði á reglubundnar gengisfellingar krónunnar til þess að halda sjávarútveginum að meðaltali ofan við núllið.

Lesa meira

Á ÉG AÐ GÆTA BRÓÐUR MÍNS?

Þorgrímur Gestsson: Öryggissjóður verkalýðsins – Baráttan fyrir atvinnuleysistryggingum á Íslandi. 316 bls. Útgefandi: Atvinnuleysistryggingasjóður.

Þótt þessi bók sé harla ólíkleg til að ná inn á metsölulista bókaútgefenda, er hún samt áhugaverð um margt og kannski einmitt þess vegna. Í fyrsta lagi er hún áhugaverð vegna þess að hún lýsir hugmyndafræðilegum ágreiningi milli ráðandi stjórnmálaafla um uppbyggingu velferðarríkis á Íslandi. Hún skýrir líka, hvers vegna jafnaðarmönnum á Íslandi tókst ekki að fá lög um atvinnuleysistryggingar virk í framkvæmd fyrr en árið 1956, hálfri öld síðar en í Danmörku og Noregi og löngu eftir að atvinnuleysistryggingar voru lögfestar í Finnlandi (1917) og í Svíþjóð (1938).

Reyndar voru atvinnuleysistryggingar hluti af löggjöfinni um almannatryggingarnar, sem Haraldur Guðmundsson, fyrsti ráðherra Alþýðuflokksins í ríkisstjórn hinna vinnandi stétta, náði fram á þinginu 1935-36. En kaflinn um atvinnuleysistryggingar sætti svo harðri andstöðu forystumanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks og tók svo miklum breytingum í meðförum þingsins , að lögin máttu heita óvirk í framkvæmd. Þótt árstíðarbundið atvinnuleysi mætti heita fastur liður í lífi sjávarplássanna og langvarandi atvinnuleysi hrjáði mörg alþýðuheimili á kreppu- og samdráttartímum, treystu verkalýðsfélögin sér ekki til að leggja þær kvaðir – iðgjöld – á fátækt verkafólk, sem þurft hefði til að virkja lögin.

Lesa meira

ÞAÐ EINA SEM ÞEIR SKILJA

Það er sagt, að allt vald spilli. Og að allsherjarvald spilli algerlega. Valdhafar sem venjast því, að þeir séu fæddir til valda, og að fátt eða ekkert geti hróflað við völdum þeirra, ganga yfirleitt á lagið. Það býður spillingunni heim.

Til þess er lýðræðið og réttarríkið að koma í veg fyrir spillingu valdaeinokunar. Hvorugt er sjálfgefið. Hvorugt hefur áunnist í eitt skipti fyrir öll. Aðhald að valdhöfum krefst stöðugrar árvekni kjósenda, stjórnarandstöðu, fjölmiðla. Vald kjósenda er í því fólgið að geta skipt út valdhöfum með reglulegu millibili. Það kemur í veg fyrir, að valdhafarnir umgangist valdið sem sjálfgefið.

Lesa meira

TIL UMHUGSUNAR FYRIR KJÓSENDUR, ÁÐUR EN GENGIÐ ER AÐ KJÖRBORÐINU:TÍU ÁSTÆÐUR TIL AÐ SKIPTA UM VALDHAFA

Kosningar snúast um að velja fulltrúa til að fara með völd. Valdið er vandmeðfarið. Það er sagt, að allt vald spilli. Og að allsherjarvald spilli algerlega. Valdhafar sem venjast því, að þeir séu fæddir til valda og að fátt eða ekkert geti hróflað við völdum þeirra, ganga yfirleitt á lagið. Það býður spillingunni heim.

Eins flokks kerfi er yfirleitt gerspillt, jafnvel þótt kosningar fari fram til málamynda. Ef sami valdahópurinn ræður ríkisvaldinu, sveitarstjórnum og fjölmiðlum, og hefur auk þess sterk ítök í fjármálalífinu, er hætt við, að valdið stígi honum til höfuðs. Að hann telji sig smám saman hafinn yfir almennar leikreglur. Og komist upp með hvað sem er.

Lesa meira