HAFA SKAL ÞAÐ SEM SANNARA REYNIST

Mér þykir leitt til þess að vita, hvað athugasemd Jóns Ólafssonar við grein mína í Stundinni (30.03.17) var ólundarleg – og eiginlega út í hött, þegar að er gáð. Grein mín fjallaði um stríðsglæpi sovétkommúnista og þýskra nazista í Eystrasaltslöndum undir hernámi þeirra. Prófessorinn ávítar mig fyrir að ýkja tölu fórnarlambanna. Annað hefur hann ekki til málanna að leggja. Um hvað snýst málið?

1.
Um útrýmingu Gyðinga í Eistlandi: Skv. upplýsingum frá Gyðingasamfélaginu eistneska bjuggu 4500 Gyðingar í Eistlandi fyrir stríð. Um helmingur þeirra flúði land.12% voru þvingaðir til herþjónustu í Rauða hernum. Um 500 voru fluttir nauðungarflutningum í gúlagið. Um 200 voru skotnir af NKVD (forvera KGB).Um 900 voru líflátnir af þýskum hernámsyfirvöldum. Niðurstaða Jaaks Valge , sem er viðurkenndur sérfræðingur í þessum efnum, er eftirfarandi: „Heildartala þeirra Gyðinga, sem urðu fórnarlömb þýska og sovéska hernámsins, er svipuð“. Jón Ólafsson finnur hjá sér þörf til að koma því á framfæri, að aðeins 400 Gyðingar hafi verið sendir í gúlagið. Það gefur vægast sagt villandi mynd af örlögum Gyðingasamfélagsins í Eistlandi. Því var einfaldlega útrýmt. Hálfsannleikur oftast er, óhrekjandi lygi.

Lesa meira

Smitberar spillingarinnar

Umfjöllun Guðmundar Andra í mánudagsgrein hans í Fréttablaðinu 14. mars, um spillingarorðið, sem, að hans sögn, fór af krötunum í Viðreisnarstjórninni, gefur tilefni til athugasemda.

Spillingarorðinu var klínt á Alþýðuflokkinn, um leið og hann komst til áhrifa – var orðinn hættulegur – löngu fyrir daga Viðreisnar. Jón Baldvinsson, forseti ASÍ, var bankastjóri Útvegsbankans. Stefán Jóhann, arftaki hans, var forstjóri Brunabótafélags Íslands (Þar sem auðvitað ætti að hýsa skyldutryggingar enn í dag). Haraldur Guðmundsson, guðfaðir velferðarríkisins íslenska, var forstjóri Tryggingarstofnunar ríkisins.Vilmundur var landlæknir. Emil var vita- og hafnarmálastjóri. Og Héðinn, Dagsbrúnarformaður, var ríkasti maður landsins á tímabili.

Þetta eru nokkur dæmi um það spillingarorð, sem fór af krötunum – nota bene, löngu fyrir daga Viðreisnar. Íhald og kommar sameinuðust um að koma spillingarorðinu á. Það hefur aldrei þótt bera vott um spillingu, þótt Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn væru skipaðir í embætti á vegum ríkisins. Það þótti – og þykir enn – sjálfsagt mál.Helmingaskiptareglan var jú grundvallarregla, sem gilt hefur um stjórnsýsluna allan lýðveldistímann.

Lesa meira

Getum við lært af Norðmönnum?

Framkoma sægreifanna í Granda gagnvart starfsfólki sínu á Skaga staðfestir enn einu sinni, að handhafar veiðiheimildanna meðhöndla þær eins og um hreina einkaeign sé að ræða, í trássi við lög og rétt. Mottóið er eins og hjá Hannesi Smárasyni forðum: „Ég á þetta – ég má þetta“.

Af þessu tilefni er ástæða til að skoða, hvernig frændur vorir í Noregi hafa mótað stefnuna um auðlindanýtingu og fiskveiðistjórnun. Flestir vita, að Noregur er vellauðugt olíuríki. Frá upphafi olíuvinnslunnar hafa þeir gætt þess vandlega, að arðurinn af olíuauðlindinni, sem er skilgreind sem þjóðar-eign, renni í sameiginlegan fjárfestingarsjóð, sem nú er reyndar orðinn sá öflugasti í heiminum.

Lesa meira

Mannréttindahreyfing gegn mismunun

Í fyrri grein var sýnt fram á að ákvörðunarvaldið um fjárfestingar og framkvæmdir er að stærstum hluta í höndum fámenns hóps eigenda fjármagns og fyrirtækja. Valdið á vinnumarkaðnum til að ráða og reka er í höndum sama hóps. Ef stéttarfélög eru veikburða – eða jafnvel ekki til – á vinnandi fólk allt sitt undir valdi vinnuveitenda.

Þetta er mikið vald á fárra höndum. Í óbeisluðum kapítalisma – eins og t.d. í Bandaríkjunum – er fátt sem hemur þetta geðþóttavald, af því að verkalýðshreyfingin hefur þar verið brotin á bak aftur. Einungis 10% vinnandi fólk er þar í stéttarfélögum. En í blönduðu hagkerfi – stundum kallað lýðræðislegt markaðskerfi – skiptir miklu máli, hverjir fara með pólitíska valdið. Opinberi geirinn spannar víða 4050% af vergri landsframleiðslu og veitir um þriðjungi mannaflans vinnu. Við þetta bætist, að löggjafinn semur leikreglurnar. Ef eigendur fjármagns og fyrirtækja ná að sölsa undir sig pólitíska valdið líka, verður fátt um varnir. Leikreglurnar verða þá sérsniðnar þeim í hag. Afleiðingarnar birtast okkur í samtímanum í sívaxandi ójöfnuði eigna og tekna annars vegar, en í réttleysi, arðráni og öryggisleysi almennings hins vegar.

Lesa meira

Tvær þjóðir

Það er bullandi uppgangur í atvinnulífinu: Meira en 7% hagvöxtur, gjaldeyrisvarasjóðurinn stútfullur, lítið sem ekkert atvinnuleysi – reyndar vöntun á vinnuafli, sem þúsundir innflytjenda redda. Hinir ríku eru að verða æ ríkari. Tuttugu þúsund fjölskyldur eiga meira en tvo þriðju af öllum eignum. Bankarnir græða á tá og fingri.

Á sama tíma er áleitin umræða um fátækt á Íslandi. Láglaunafólk lifir ekki af launum sínum. Sex þúsund börn búa við fátækt á degi hverjum. Lífeyrisþegar og öryrkjar kvarta sáran undan kjörum sínum. Ungu kynslóðinni hefur því sem næst verið úthýst. Það skortir íbúðarhúsnæði við hæfi. Fasteignaverðið rýkur upp í rjáfur. Fæstir hinna ungu eiga fyrir útborgun. Leiguokrið læsir unga fólkið inni í fátæktargildru. Hin séríslenska verðtrygging léttir allri áhættu af ófyrirséðum áföllum af fjármagnseigendum, en gerir hina skuldugu á sama tíma að skuldaþrælum.

Lesa meira

Að læra af reynslunni

Grandi h/f, næststærsti þiggjandi einkaleyfa til að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar – fiskimiðin innan íslensku lögsögunnar – hefur tilkynnt, að þeir ætli að hætta fiskvinnslu á Akranesi. Eftir situr starfsfólkið á atvinnuleysisskrá og byggðarlagið í uppnámi.

Margir spyrja sjálfa sig: Hvað getur komið starfsfólkinu og bæjarfélaginu til varnar, þegar ákvörðun einkaaðila ógnar atvinnuöryggi og afkomu fólks með þessum hætti? Margir – þeirra á meðal sjávarútvegsráðherra – leita nú halds og trausts í fyrstu grein fiskveiðistjórnarlaganna. Það er því ástæða til að rifja upp, hvernig þetta lagaákvæði er tilkomið, og hvernig til hefur tekist um framkvæmdina.

Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur, rifjar upp þá sögu í bók sinni „Úr fjötrum“, sem kom út á s.l. hausti í tilefni af aldarafmæli Alþýðuflokksins.

Lesa meira

Norræna módelið gegn nýfrjálshyggjunni

Guðbjörn Guðbjörnsson, virkur þátttakandi í þjóðfélagsumræðunni (og óperusöngvari í kaupbæti) skrifar fróðlegan Eyju-pistil (19.03.17) um sögu þýska velferðarríkisins. Þetta er þarft innlegg í brýna umræðu um kreppu velferðarríkisins eftir Hrun. Guðbjörn vill halda því til haga, að Bismark gamli – sjálfur járnkanslarinn – hafi rutt brautina fyrir velferðarríki seinni tíma. Líka að mér hafi láðst að geta þessa í Eyju-pistli mínum um norræna módelið og tilvistarkreppu sósíal-demókrata í samtímanum. Það getur ekki talist vera höfuðsynd, af þeirri einföldu ástæðu, að norræna módelið nýtur mikillar sérstöðu í þessum samanburði. Það er super-módel samtímanseins og vikuritið Economist lýsti því fyrir tveimur árum. Ég nefni fjórar ástæður þessu til skýringar:

(1)„Þetta snýst allt um vald, kjáninn þinn“. Það fer ekki á milli mála, að vald eigenda fjármagns og fyrirtækja er gríðarlegt í kapítalísku hagkerfi. Ákvörðunarvaldið um fjárfestingar og framkvæmdir er að stærstum hluta í höndum fámenns hóps eigenda fjármagns og fyrirtækja. Valdið á vinnumarkaðnum til að ráða og reka er í höndum þeirra. Fjöldi fólks á allt sitt undir þessum ákvörðunum. Ef stéttarfélög eru veikburða eða jafnvel ekki til staðar, fær vinnandi fólk litlu sem engu ráðið um þessar ákvarðanir. Sívaxandi samþjöppun þessa valds í höndum stjórnenda risavaxinna fjölþjóða fyrirtækja (allt að helmingur allra alþjóðaviðskipta fer fram innan þeirra) og fjármálastofnana (5 risabankar ráða helmingi fjármálamarkaða heimsins) ræður miklu um þann veruleika, sem jarðarbúar búa við á okkar tímum. Það er því í hæsta máta villandi, þegar menn tala í síbylju um „frjálsa markaði“, en í reynd er iðulega um að ræða einokun, fákeppni eða markaðsráðandi stöðu.

Lesa meira

Jafnaðarmenn: Fórnarlömb eigin árangurs?

Norræna módelið er eina þjóðfélagsmódelið, sem mótað var á öldinni sem leið, sem staðist hefur dóm reynslunnar á tímum hnattvæddrar samkeppni á 21stu öldinni. Kommúnisminn er huslaður á öskuhaugum sögunnar. Óbeislaður kapítalismi skv. forskrift nýfrjálshyggjunnar hrekst úr einni kreppunni í aðra – en tórir enn í gjörgæslu ríkisins.

Hvernig má þá vera í ljósi þessa árangurs, að jafnaðarmannaflokkarnir í Evrópu – m.a.s. líka á Norðurlöndum – eiga víðast hvar í vök að verjast? Er það vegna þess að velmegun velferðarríkisins „dregur eðlilega úr löngun okkar til að hugsa til breytinga á samfélaginu“, eins og Þröstur Ólafsson orðaði það í erindi í tilefni af aldarafmæli Alþýðuflokksins. Þröstur sagði það skýra, að „pólitísk tómhyggja“ réði ríkjum. „Við erum… hætt að trúa því, að til sé hagskipan, sem virki betur en kapítalismi, „bragðbættur með nýfrjálshyggju“.

Lesa meira