1.
Um útrýmingu Gyðinga í Eistlandi: Skv. upplýsingum frá Gyðingasamfélaginu eistneska bjuggu 4500 Gyðingar í Eistlandi fyrir stríð. Um helmingur þeirra flúði land.12% voru þvingaðir til herþjónustu í Rauða hernum. Um 500 voru fluttir nauðungarflutningum í gúlagið. Um 200 voru skotnir af NKVD (forvera KGB).Um 900 voru líflátnir af þýskum hernámsyfirvöldum. Niðurstaða Jaaks Valge , sem er viðurkenndur sérfræðingur í þessum efnum, er eftirfarandi: „Heildartala þeirra Gyðinga, sem urðu fórnarlömb þýska og sovéska hernámsins, er svipuð“. Jón Ólafsson finnur hjá sér þörf til að koma því á framfæri, að aðeins 400 Gyðingar hafi verið sendir í gúlagið. Það gefur vægast sagt villandi mynd af örlögum Gyðingasamfélagsins í Eistlandi. Því var einfaldlega útrýmt. Hálfsannleikur oftast er, óhrekjandi lygi.
HAFA SKAL ÞAÐ SEM SANNARA REYNIST
Mér þykir leitt til þess að vita, hvað athugasemd Jóns Ólafssonar við grein mína í Stundinni (30.03.17) var ólundarleg – og eiginlega út í hött, þegar að er gáð. Grein mín fjallaði um stríðsglæpi sovétkommúnista og þýskra nazista í Eystrasaltslöndum undir hernámi þeirra. Prófessorinn ávítar mig fyrir að ýkja tölu fórnarlambanna. Annað hefur hann ekki til málanna að leggja. Um hvað snýst málið?