NORRÆNIR KVIKMYNDADAGAR Í LÜBECK

Hvað eiga þeir Thomas Mann, Günther Grass og Willy Brandt sameiginlegt með Bryndísi? Þau eiga öll ættir sínar að rekja til Lübeck, miðaldaborgarinnar fögru í Schleswig-Holstein. Ekki amalegur félagsskapur a´tarna.

Það var ekki á kot vísað að vera í félagsskap Bryndísar á Norrænum kvikmyndadögum í Lübeck dagana 4. til 8. nóvember. Þetta var, satt að segja, samfelld veisla fyrir skilningarvitin, sjón og heyrn – og bragðlaukana líka þar á milli. Ég var þarna til að fylgja úr hlaði heimildamyndinni „Þeir sem þora…“, sem var ein þrettán kvikmynda frá Íslandi á þessari rótgrónu kvikmyndahátíð að þessu sinni.

Reyndar varð þetta íslensk kvikmyndaveisla um það er lauk, því að íslenskar kvikmyndir sópuðu að sér verðlaunum dómnefnda og áhorfenda, svo að ýmsum þótti nóg um.

FÚSI hans Dags Kára fékk reyndar tvenn verðlaun, önnur að mati áhorfenda, en hin samkvæmt dómnefnd hinnar evangelísk-lúthersku kirkju Lübech-Lauenburg. Myndin fjallar sem kunnugt er um mann, sem er tröllvaxinn hið ytra en göfugmenni innst inni – og svo vel leikin, að leikarinn, Gunnar Jónsson, fékk sérstök verðlaun fyrir frammistöðu sína (þótt hann hafi, að sögn, aldrei komið í leiklistarskóla).

Lesa meira

Fyrstu verðlaun á kvikmyndahátíð í Toronto „ÞEIR SEM ÞORA…“ sýnd í Kanada og Kaliforníu.

Íslenska heimildamyndin, „Þeir sem þora…“, um þátt Íslands til stuðnings sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða á árunum 1988-91 vann fyrstu verðlaun, að mati áhorfenda, á kvikmyndahátíðinni „Est Docs“, sem haldin var í Toronto í Kanada dagana 15.-20. október.

Þessi kvikmyndahátíð í Toronto, sem nú var haldin í 11. sinn, hefur verið að vinna sér nafn fyrir áhugaverðar heimildamyndir. Hátíðin er haldin á vegum samtaka fólks af eistneskum uppruna í Kanada. Forsvarsmenn hátíðarinnar sérhæfa sig í heimildamyndum frá Eystrasaltsríkjum – eða um efni, sem tengist þeim á einhvern hátt. Að þessu sinni voru sýndar níu myndir með fjölbreyttu efnisvali, allt frá goðsögnum frumbyggja Síberíu til tónlistar Arvos Pärt, þekktasta nútímatónskálds Eista.

Lesa meira

Ísbrjóturinn? Um stuðning Íslands við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltslandanna

Svar Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings við þessari grein JBH: Kemur fiskur í staðinn fyrir „foreign policy“ á Íslandi? Makríll í staðinn fyrir mannréttindi? Hagsmunir í staðinn fyrir hugsjónir – prinsip, grundvallarsjónarmið?

Senn er aldarfjórðungur síðan Eystrasaltslöndin þrjú endurheimtu sjálfstæði sitt. Í hálfa öld höfðu Eistar, Lettar og Litháar mátt þola kúgun erlends valds en loks náði réttlætið fram að ganga. Þá létu íslensk stjórnvöld að sér kveða, með Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra í broddi fylkingar. Á alþjóðavettvangi hélt hann málstað þeirra á lofti. Jafnframt hélt hann til landanna þriggja við Eystrasalt í janúar 1991 þegar sovéskar sérsveitir myrtu þar saklausa borgara og harðlínukommúnistar ætluðu að ræna völdum. Aðrir ráðamenn á Vesturlöndum vildu ekki fara eða sáu meinbugi á því að sýna þannig í verki stuðning sinn við heimamenn og sjálfsagða baráttu þeirra.

Lofsverðs framtaks Jóns Baldvins Hannibalssonar verður ætíð minnst í Eystrasaltslöndunum. Sömuleiðis gleyma íbúar þar því seint að í ágúst þetta sama ár, 1991, tóku íslensk stjórnvöld á ný upp stjórnmálasamband við ríkin þrjú, fyrst allra á Vesturlöndum. Utanríkisráðherrar Eistlands, Lettlands og Litháens staðfestu þau tímamót við hátíðlega athöfn í Höfða hinn 26. ágúst 1991. „Ísland var fyrst“ og „Ísland var ísbrjótur,“ sögðu gestirnir góðu. Æ síðan hefur frumkvæði Íslendinga verið hampað með ýmsum hætti. Í Vilníus er Íslandsgata og Íslandstorg í Riga og Tallinn. Aðrar þjóðir hafa ekki notið viðlíka heiðurs.

Lesa meira

Kemur fiskur í staðinn fyrir „foreign policy“ á Íslandi? Makríll í staðinn fyrir mannréttindi? Hagsmunir í staðinn fyrir hugsjónir – prinsip, grundvallarsjónarmið?

Þetta var meðal þeirra spurninga, sem Eiríkur í Víðsjá, (RÚV) reifaði miðvikudaginn 23. sept. s.l.. Allt saman þýðingarmiklar spurningar – og tilefni til að leita svara ærin: lífsháski Úkraínu- og Palestínumanna frammi fyrir yfirþyrmandi hervaldi; sjálfsákvörðunarréttur þjóða frammi fyrir hernaðarofbeldi; mannréttindi hinna varnarlausu frammi fyrir drápsmaskínum styrjalda. Kemur þetta okkur við?

Eiríkur fékk Guðna Th. – annálaðan sagnfræðing og virtan álitsgjafa – til að ganga til spurninga. Er lífið saltfiskur, var spurt – og svar sagnfræðingsins var já. Þora Íslendingar að styðja lög og rétt í samskiptum þjóða? Eða lúffa þeir alltaf, þegar á reynir, ef komið er við pyngjuna? Ef fiskmarkaðir eru í hættu? Svar sagnfræðingsins var: Lífið er saltfiskur – Íslendingar lúffa alltaf, þegar á reynir.

Lesa meira

HÁSKÓLAR: HANDA HVERJUM – TIL HVERS?

INNGANGUR: Gústaf Vasa Svíakonungur er guðfaðir Háskólans í Tartu í Eistlandi, enda var hann frumkvöðull að stofnun skólans árið 1632. Árið 2032 fagnar háskólinn því fjögurra alda afmæli sínu. Af því tilefni var efnt til málþings á vegum Tartu Háskóla þann 11. apríl, 2014 um framtíð háskólamenntunar. Undirbúningur ráðstefnunnar stóð í u.þ.b. tvö ár. Fulltrúar allra deilda háskólans komu að því verki, en sérstakur stýrihópur skipti með mönnum verkum. Málþingið sjálft var síðan haldið til þess að kynna niðurstöðurnar. – Sim Kallas, fv. forsætisráðherra Eista og fv. varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, útskrifaðist á sínum tíma frá Tartu Háskóla. Honum var ætlað að flytja inngangserindið á málþinginu en forfallaðist á seinustu stundu. Á þessum tíma var ég gestafyrirlesari við háskólann og rannsóknarfélagi við RUSUS (stofnun sem fæst við rannsóknir á sviði Evrópu- og Rússlandsmála). Rektor, Volli Kalm, bað mig að hlaupa í skarðið fyrir Kallas. Ég varð við þeirri bón. Hér fer á eftir inngangserindi mitt á málþinginu í Tartu.

1.

UTANRÍKISRÁÐHERRAR þurfa á stundum að fylgja þjóðhöfðingjum í opinberar heimsóknir til annarra ríkja. Ein slík heimsókn til Hertogadæmisins í Luxemborg snemma á tíunda áratug síðustu aldar er mér enn minnisstæð. Ástæðan er sú, að þá komst ég af hendingu í tæri við gamalreyndan stjórnmálamann til að leita skýringa á fágætum árangri þessarar smáþjóðar á sviði efnahagsmála.

Lesa meira

Um frelsisbaráttu Eystrasaltsþjóða – aldarfjórðungi síðar

INNGANGUR: Aku Sorainen er Finni að ætt og uppruna en býr og starfar í Tallinn. Hann er stofnandi og forstöðumaður stærstu og þekktustu lögfræðiþjónustu í Eystrasaltslöndum og Hvíta Rússlandi. Með inngöngu sinni í Evrópusambandið þurftu fyrirtæki, opinberar stofnanir og einstaklingar mjög á slíkri þjónustu að halda, ekki hvað síst í Evrópurétti. Sorainen og félagar fögnuðu 20 ára afmæli sínu þann 4. júní s.l.. Af því tilefni efndu þeir til ráðstefnu í Tallinn með fyrirlesurun frá Eytrasaltsþjóðunum þremur og Hvíta Rússlandi. Varnar- og öryggismál voru ofarlega á dagskrá ræðumanna, sem og staða smáþjóða í háskalegum heimi. Aku fékk mig til að opna ráðstefnuna með erindi um ofangreint efni, sem hér fer á eftir. Þetta málþing þótti takast með ágætum. Efni þess að öðru leyti er að finna á vefsetrinu http://www.sorainen.com/ .

1.Endatafl Kalda stríðsins.

Hér koma fyrst tvær þekktar tilvitnanir, okkur til umhugsunar, áður en lengra er haldið: „Fall Sovétríkjanna er stærsta sögulega slysið, sem henti á 20stu öldinni“.

Lesa meira

Ekki of seint að iðrast fyrir dauðann: Spænsk dæmisaga um búddista á kauphöllinni.

Hvernig litist ykkur á, ef helsti fjáröflunarmaður Flokksins til margra ára – tengiliður við fjárfesta og bisness – birtist allt í einu á skjánum, síðskeggjaður og í hvítum kufli? Fullur af iðrun bæði hann þjóð sína afsökunar á fyrrum syndugu líferni sínu.Og lofaði bót og betrun. Hann væri reyndar orðinn búddisti og stundaði hugleiðslu í sáttaleit við almættið – og jóga og tandra í tæri við alheimskærleikann.

Hann tilkynnti, að hann ætti í sínum fórum upptökur, sem spönnuðu sjö ára tímabil og afhjúpuðu þjónustu Flokksins við gróðafíklana. Hann boðaði í auðmýkt skilyrðislaust samstarf við sérstakan saksóknara um að afhjúpa glæpi fortíðar. Að vísu vonaðist hann til að fá vægari dóm en ella fyrir vikið. Og að fá – í nafni höfundarréttar – sanngjarna þóknun fyrir upptökurnar.

Lesa meira