Hugleiðingar í tilefni af bók Jóhanns Haukssonar: ÞRÆÐIR VALDSINS.
Einkunnarorð:
„Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir,það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta“(Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri Mbl., í skýrslutöku hjá RnA, VIII, bls. 179).
Arnaldur, Yrsa, Ævar Örn og öll hin spinna sínar íslensku glæpasögur í krafti þeirra eigin frjóa ímyndunarafls. Jóhann Hauksson sækir sinn efnivið í hinn hráslalega veruleika íslensks þjóðfélags eftir HRUN. Mér er nær að halda, að af þessu tvennu sé veruleikinn lyginni líkari. Einkunnarorðin, sem höfð eru eftir Morgunblaðsritstjóranum hér að framan (og hann ætti að vita, hvað hann syngur eftir 50 ára þjónustu í innsta hring valdaklíkunnar) virðast staðfesta það. Enda er nú svo komið, að forráðamenn þjóðarinnar þykjast ekki hafa efni á að byggja nægilega mörg fangelsi fyrir alla þá glæpamenn, sem leika lausum hala úti um allt og bíða vistunar.
Jóhann Hauksson hefur á undanförnum árum reynt að halda uppi heiðri íslenskrar blaðamennsku með fréttaskýringum, þar sem leitast er við að kafa undir yfirborðið og afhjúpa leynda þræði valdsins, „kunningjaveldi og aðstöðubrask“, eins og það er látið heita í undirtitli bókarinnar. Fyrir viðleitni til rannsóknarblaðamennsku af þessu tagi hlaut Jóhann blaðamannaverðlaunin árið 2010. Eftir að Jóhann losnaði undan daglegum kvöðum á DV fékk hann ráðrúm til að rannsaka rætur hrunsins lengra aftur í tímann og af hærri sjónarhól en færi er á af jafnsléttu og við daglegt áreiti blaðamannsins. Þessi bók, „ÞRÆÐIR VALDSINS“, eru afrakstur þessarar iðju. Ef ég ætti að lýsa söguþræði bókarinnar í fáum orðum, hljóðar það svo: Ágrip af sögu spillingarinnar – bók handa byrjendum……
Lesa meira