Heill og sæll, Eggert.
Það er satt sem þú segir, að margir óttast það helst við inngöngu í Evrópusambandið, að þar með verðum við kerfislægu og langvarandi atvinnuleysi að bráð.Þetta er stutt tölum um mikið og langvarandi atvinnuleysi, sérstaklega í hinum stærri löndum ESB. En er það rétt, að hægt sé að setja = merki milli ESB og atvinnuleysis?
Það er reyndar ekki svo. Það má nefna dæmi um ýmsar þjóðir innan ESB, sem bjuggu við mikið atvinnuleysi fyrir rúmum áratug, en náðu því verulega niður eftir inngöngu. Norðurlöndin í ESB eru gott dæmi. Árið 1995 voru atvinnuleysistölur þessara landa eftirfarandi: Danmörk (10,3%), Finnland (15.2%) og Svíþjóð (10.1%). Árið 2007 voru tölurnar þessar: D (3.4), F (6.8) og S (3.5). Mörg smærri ríkjanna innan ESB, þ.á. m. eyríki eins og Kýpur og Malta, hafa haft sæmileg tök á atvinnuleysi. Önnur dæmi um smáþjóðir, sem hafa haldið vel á málum, eru Slóvakía og Slóvenía. Ég bendi þér á grein í Mbl. (050509) eftir Inga Rúnar Eðvarðsson, prófessor við HA. Sjálfur hef ég skrifað grein undir fyrirsögninni: “Er ekkert að óttast?” þar sem fjallað er um peningamálastefnuna og afleiðingar þess að ganga inn í stærra myntsvæði. Þessi grein mun birtast í Fréttablaðinu á næstunni og svo á heimasíðu minni. Ábending þín er þörf. Það er allt betra en atvinnuleysið.
Með bestu kveðjum, JBH