TAKA I.
Stjórnmálamaðurinn Davíð var svo seinheppinn að vistráða sig í Seðlabankann þegar hann “hætti í pólitík”. Lögum samkvæmt á hann bara að sjá um tvennt sem seðlabankastjóri: Að gjaldmiðillinn sé stöðugur og að bankakerfið sé traust. Hvort tveggja klikkaði á hans vakt. Það varð kerfishrun sem framvegis verður minnst í skólabókum sem sígilds dæmis um mistök á heimsmælikvarða. Afleiðingin er neyðarástand. Það mun taka þjóðina mörg ár að jafna sig eftir áfallið og borga reikningana. Rannsóknarspurningin er: Hvers vegna sögðu seðlabankastjórarnir ekki af sér kl. 9:00 stundvíslega daginn eftir hrun? Það skilur enginn (Skýring: Alan Greenspan var seðlabankastjóri Bandaríkjanna í 18 ár. Hann er talinn bera höfuðábyrgð á heimskreppunni. Nafn hans er á válistanum, ásamt nöfnum minni spámanna eins og Oddsson og Haarde. Munurinn er sá að Greenspan hefur gengist við ábyrgð sinni. Hann sagði frammi fyrir rannsóknarnefnd þingsins: “Ég trúði því í 40 ár að markaðirnir leiðréttu sig sjálfir. Það voru mistök” sagði hann og baðst afsökunar.)