“DABBI OG SIMMI”: ANNAR ÞÁTTUR

Sjóið heldur áfram. Sömu leikarar í sömu hlutverkum: Dabbi og Simmi.
Dabbi leikur aðþrengdan stjórnmálamann með létta paranoju og lítt haminn ofsóknarkomplex. Simmi leikur rannsóknarlögreglumann hjá INTERPOL sem er nýr í bransanum en vill ólmur klára málið. Nær samt ekki alveg upp í það.

TAKA I.

Stjórnmálamaðurinn Davíð var svo seinheppinn að vistráða sig í Seðlabankann þegar hann “hætti í pólitík”. Lögum samkvæmt á hann bara að sjá um tvennt sem seðlabankastjóri: Að gjaldmiðillinn sé stöðugur og að bankakerfið sé traust. Hvort tveggja klikkaði á hans vakt. Það varð kerfishrun sem framvegis verður minnst í skólabókum sem sígilds dæmis um mistök á heimsmælikvarða. Afleiðingin er neyðarástand. Það mun taka þjóðina mörg ár að jafna sig eftir áfallið og borga reikningana. Rannsóknarspurningin er: Hvers vegna sögðu seðlabankastjórarnir ekki af sér kl. 9:00 stundvíslega daginn eftir hrun? Það skilur enginn (Skýring: Alan Greenspan var seðlabankastjóri Bandaríkjanna í 18 ár. Hann er talinn bera höfuðábyrgð á heimskreppunni. Nafn hans er á válistanum, ásamt nöfnum minni spámanna eins og Oddsson og Haarde. Munurinn er sá að Greenspan hefur gengist við ábyrgð sinni. Hann sagði frammi fyrir rannsóknarnefnd þingsins: “Ég trúði því í 40 ár að markaðirnir leiðréttu sig sjálfir. Það voru mistök” sagði hann og baðst afsökunar.)

Lesa meira

80 DAGA STJÓRNIN OG ATVINNULÍFIÐ OG HEIMILIN

Fréttir dagsins úr atvinnulífinu eru ógnvekjandi. Fyrir skömmu lýstu Samtök atvinnulífsins því yfir að u.þ.b. 70% fyrirtækjanna í landinu væru “tæknilega gjaldþrota”. Það þýðir að þau eiga ekki fyrir skuldum.Samkvæmt fréttum dagsins er gósentíð framundan hjá innheimtulögfræðingum. Þeir búast við því að út þetta ár fari um 10 fyrirtæki á hausinn á dag. Atvinnulaust fólk telst nú þegar um 15 þúsund. Þeim mun fjölga dag frá degi út árið verði ekki að gert.

Fyrir nokkrum vikum kom hingað til lands Göran Persson fv. forsætisráðherra Svía. Hann miðlaði okkur af reynslu sinni af kreppuvörnum í Svíþjóð frá árunum 1992-95, en þá gegndi hann embætti fjármálaráðherra Svía. Hann lagði í máli sínu þunga áherslu á fá en einföld sannindi: Gerir strax í upphafi áætlun til næstu ára um kreppuvarnir. Kynnið áætlunina rækilega og rökstyðjið nauðsyn hverrar aðgerðar frammi fyrir þjóðinni, þannig að fólk sannfærist um illa nauðsyn harðráðanna. Því að eins að þetta sé gert getur fólk eygt vonarneista um að með harðfylgi, sjálfsaga og sjálfsafneitun geti þjóðin unnið sig út úr vandanum með samstilltu átaki. Fólk þarf að geta treyst því að björgunaráætlunin sé sanngjörn og réttlát.

Lesa meira

SNÚIÐ ÚT ÚR SNÆVARR

Árni Snævarr birtir snaggaralegan pistil á heimasíðu sinni (15.02.) þar sem hann tekur undir málflutning minn í ræðu (hjá Alþýðuflokksfélagi Reykjavíkur, 14.02.) og riti (í opnugrein í Mbl. 17.02.) um það að núverandi formaður Samfylkingarinnar geti ekki verið trúverðugur foringi í augum kjósenda í uppbyggingarstarfinu sem framundan er, vegna ábygðar sinnar á hruninu í tíð fyrri ríkisstjórnar. Satt að segja fyrirfinnst varla nokkur maður sem andmælir þessu sjónarmiði með haldbærum rökum (þótt ýmir láti ergelsi út af þessum óþægilegum staðreyndum hlaupa með sig í gönur).

Ég hef bara þrjár athugasemdir að gera við skrif Árna:

Lesa meira

SKILYRÐISLAUS UPPGJÖF – OG ÞAR LAGÐIST LÍTIÐ FYRIR KAPPANN

Það var smáfrétt í vikunni að Jón Magnússon, sem kosinn var á þing í seinustu kosningum fyrir Frjálslynda flokkinn, hefði loksins ratað aftur heim til íhaldsins eftir átján ára pólitíska vosbúð. Það eina sem sætir tíðindum við þetta er tímasetningin. Gleymd er öll gagnrýni á Sjáflstæðisflokkinn út af gjafakvótum, og annarri kerfislægri spillingu sem hefur eitrað útfrá sér um allt þjóðfélagið í skjóli Eimreiðarklíkunnar eftir að hún náði völdum í flokki og landi. Þessi misserin eru Íslendingar einmitt að upplifa afleiðingarnar af valdatöku og valdbeitingu þessa hóps s.l. átján ár.

Listinn lítur svona út: Gjaldmiðillinn er hruninn. Fjármálakerfið er hrunið. Um 70% fyrirtækjanna í landinu eru tæknilega gjaldþrota. Himinháir stýrivextir munu ganga frá þeim fyrirtækjum sem enn hanga uppi á næstu mánuðum eða misserum að óbreyttu. Fréttir dagsins frá innheimtulögfræðingum, kollegum Jóns, eru þær að 10 fyrirtæki muni verða gjaldþrota á dag út þetta árið. Atvinnuleysingjar teljast nú 15000. Það er eini þjóðfélagshópuinn sem er í örum vexti. Erlendar skuldir heimilanna hafa tvöfaldast á sama tíma og íbúðarverð er í frjálsu falli. Skuldugasti hópurinn – unga fólkið undir 35 ára aldri – er í biðröð í atvinnuleit í útlöndum. Landflótti í stórum stíl er fyrirsjáanlegur og óhjákvæmilegur. Þeirra sem eftir sitja og ætla að reyna að þrauka bíður að bera níðþunga skatta á næstu árum um leið og velferðakerfið verður skorið inn að beini. Loks hefur þjóðin glatað því eina sem hún átti og mölur og ryð fær ekki grandað – nefnilega mannorðinu.

Lesa meira

SAMVISKUSPURNING: Á AÐ GERA MINNI KRÖFUR TIL SJÁLFRAR SÍN EN ANNARRA?

Þótt forsætis- og fjármálaráðherrar beri stjórnskipulega höfuðábyrgð á efnahagsstefnunni, ber að hafa í huga að í íslenskum samsteypustjórnum eru það formenn samstarfsflokkanna sem eru valdamestir.

Það eru því formenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks á tímabilinu frá einkavæðingu ríkisbanka fram að hruni, sem bera höfuðábyrgð á óförum þjóðarinnar nú. Samt sem áður geta jafnaðarmenn ekki látið eins og formaður Samfylkingarinnar hafi hvergi nærri komið þá átján mánuði sem hún framlengdi valdatímabil Sjálfstæðisflokksins. Við getum bara deilt um hlutföllin: Átján ár – átján mánuðir.

Lesa meira

ALÞÝÐUFLOKKSRÆÐA JÓNS BALDVINS HANNIBALSSONAR FLUTT Á FUNDI Í ALÞÝÐUFLOKKSFÉLAGINU

Ágæti formaður. Ágætu jafnaðarmenn.

Það er ósegjanleg ánægja að vera aftur í góðum félagsskap.
Það er ekki bjart umhorfs í okkar ranni þessi misserin. Þúsundir einstaklinga og fjölskyldna eiga um sárt að binda í okkar þjóðfélagi. Þetta voru ekki náttúruhamfarir. Þetta var af mannavöldum. Og það er það sárasta.

Forsvarsmenn fyrrverandi ríksistjórnar létu löngum eins og Ísland hefði orðið fórnarlamb utanaðkomandi atburða heimskreppunnar. Og þetta hefði bara verið slys. Það lá við að þau gæfu í skyn að við ættum að hafa samúð með þeim fyrir að hafa lent í slysi. Ég er þannig innréttaður að ég hef meiri samúð með fórnarlömbum slysa en þeim sem ollu þeim.

Lesa meira

HÁDEGISFUNDUR

Alþýðuflokksfélag Reykjavíkur, Samfylkingafélag, heldur súpufund í hádeginu laugardaginn 14. febrúar kl. 12.00 á fyrstu hæð í Rúgbrauðsgerðinni við Skúlagötu.
Ræðumaður á fundinum verður: Jón Baldvin Hannibalsson, fyrverandi formaður Alþýðuflokksins

Erindið nefnir hann :
80 daga stjórnin, fyrirburður eða framhaldslíf.

Til að ræða efnið verða líka
Valgerður Bjarnadóttir,
Vilhjálmur Þorsteinsson,
Eiríkur Bergmann og
Anna Pála Sverrisdóttir, en hún er formaður Ungra Jafnaðamanna.

Allt Samfylkingarfólk og annað áhugafólk um stjórnmál velkomið.

Stjórnin.