Samkvæmt leikreglum lýðræðisins er stjórnmálamönnum skylt að leggja mál sín reglulega “í dóm kjósenda.” Öfugt við embættismenn, t.d. bera þeir ábyrgð frammi fyrir kjósendum. Þetta á við um alþm. og ráðherra, sem skv. íslenskri hefð eru oftast sama persóna. Þessu til viðbótar ber að nefna landsdóm, sem er sérstakur dómstóll sem á að dæma um afglöp ráðherra í starfi. Merkilegt nokk hefur sá dómstóll ekki haft mikið að gera á Íslandi.
PÓLITÍSK ÁBYRGÐ?
Jón Ólafsson, lærdómsmaður að Bifröst, vandar um við mig í pistli sínum fyrir að gera ekki tilhlýðilegan greinarmun á ráðherraábyrgð og ábyrgð flokksformanns. Það getur vel verið að á þessu tvennu sé einhver munur þótt rökstuðningur J.Ól. fyrir því sé lítt sannfærandi. Og þegar hann sakar mig um að “rugla saman … fullkomlega óskyldum tegundum siðferðilegrar ábyrgðar,” er hann áreiðanlega farinn að fullyrða meira en hann getur staðið við.