Víkingar sóttu í vesturveg til skosku eyjanna, inn í Skotland og Írland og til Englands og stofnuðu reyndar víkingaríki í Normandí í Frakklandi. Vilhjálmur hinn sigursæli, sem seinustum manna heppnaðist innrás í England árið 1066, var beinn afkomandi Göngu-Hrólfs, stofnanda víkingaríkisins í Normandí. Tæknikunnátta við skipasmíði, sjómennskureynsla og siglingakunnátta tryggði víkingum yfirburði umfram aðra á þeim tíma. Það voru þessir tæknilegu yfirburðir, sem gerðu víkingum kleift að stunda úthafssiglingar á Atlantshafi og brúa þannig bilið milli Evrópu og Ameríku í fyrsta sinn, svo vitað sé.
HVERJIR ERU ÞESSIR ÍSLENDINGAR?
Hverjir eru þessir Íslendingar, og hvaðan koma þeir? Íslendingar geta státað af því, umfram flestar aðrar þjóðir, að eiga skráðar heimildir um fund landsins og landnám á 9du og 10du öld. Þetta gerist á útþensluskeiði norrænna manna, sem við köllum Víkingaöld, u.þ.b. 800-1190, ef fall Dyflinar sem víkingavirkis árið 1190 er talið tákna lok þess tímabils. Á Víkingaöld leituðu norrænir menn út frá meginlandi Skandínavíu austur og vestur og jafnvel suður á bóginn inn í veröld Miðjarðarhafsins. Sókn þeirra yfir Atlantshafið í áföngum með fundi og landnámi Færeyja, Íslands, Grænlands og loks meginlands Norður-Ameríku um árið 1000, var afrek, sem færði út landamæri hins þekkta heims þeirrar tíðar, hálfu árþúsundi á undan Kólumbusi. Ógrynni heimilda hafa varðveist, þ.á.m. í Íslendingasögum, um samskipti norrænna manna, misjafnlega friðsamleg, og hinna ýmsu ættbálka handan Eystrasalts, sem nú byggja þau lönd, sem við köllum Finnland, Eistland, Lettland og Litháen og inn í Rússland og Úkraínu. Lívónía, Kúrland og Kænugarður eru kunnuglegt sögusvið í Íslendingasögum.