Þetta má til sanns vegar færa að nokkru leyti. Þjóðin situr nú uppi með óbærilegar “skuldir óreiðumanna,” sem hún stofnaði ekki til og naut aðeins að litlu leyti, þar sem lánin fóru að stórum hluta í fjárfestingar erlendis. Ósköpin dundu yfir, af því að hin pólitíska forysta, sem meirihluti þjóðarinnar valdi í hverjum kosningum á fætur öðrum, svaf á verðinum og brást gjörsamlega trausti þjóðarinnar, þegar á reyndi. En það þýðir um leið, að þjóðin er ekki bara saklaust fórnarlamb. Hún er að því leyti sinna eigin örlaga smiður, að hún valdi þessa menn og flokka til forystu, og hefur þar af leiðandi ekki við aðra að sakast.
ÍSLAND OG EVRÓPUSAMBANDIÐ
Í grein sinni: “Ísland – það sem læra má af efnahagshruninu,” sem birtist í áhrifamiklum fjölmiðlum í Bretlandi, Frakklandi og Noregi, auk Íslands, 1. ágúst, s.l., byggir Eva Joly, þingmaður á Evrópuþinginu, málflutning sinn á því, að íslenska þjóðin sé fórnarlamb atburða, sem hún fékk engu um ráðið.