Það verður lengi í minnum haft, þegar Geir H. Haarde, hinn slétti og felldi formaður Flokksins og forsætisráðherra stóð á gati í Hard Talk (þrátt yfir tvær MA gráður í hagfræði) frammi fyrir spurningunni: “Hvað gerðuð þér, herra forsætisráðherra, til að forða þjóð yðar, sem var ein af ríkustu þjóðum heims, frá því að verða bónbjarga þjóð (“a failed economic state”)? Þegar Geir kvartaði undan harðýðgi Breta, sem beittu hryðjuverkalögum á íslenska hryðjuverkamenn, spurði spyrillinn: “Tókuð þér ekki málið upp við Gordon Brown, starfsbróður yðar?” Og svarið var: “No – but perhaps I should have.”
BILDTINGARMAÐUR?
Það virðist vera orðið samdóma álit almennings á Íslandi, að íslenskum athafna- og stjórnmálamönnum sé ekki hleypandi út fyrir landsteinana, án þess að þeir verði landi og þjóð til skaða og skammar. Úrásarvíkingarnir rómuðu reyndust, sem kunnugt er, vera fávísir flottræflar. Það sneri allt öfugt; þeir reyndust vera sauðir undir úlfshárum. Og stjórnmálaforystan, sem átti að standa vaktina, gæta hagsmuna almennings og hafa taumhald á dekurdrengjunum – hún svaf á vaktinni og brást þjóð sinni með hörmulegum afleiðingum fyrir samtíð og framtíð.