Sú ákvörðun eigenda og stjórnenda Landsbankans að starfrækja Icesave-innlánsreikningana í Bretlandi og Hollandi í formi útibús Landsbankans en ekki í formi bresks dótturfélags, var ákvörðun um að ábyrgðartrygging sparifjáreigenda skyldi endanlega hvíla á íslenskum skattgreiðendum en ekki breskum. Þessi ákvörðun var tekin vitandi vits af ásettu ráði. Þetta var ásetningsglæpur. Mér er það hulin ráðgáta, hvers vegna þeim mönnum, sem þessa ákvörðun tóku, hefur ekki verið gert að taka afleiðingum gerða sinna.
Á FLÓTTA
Englendingar gera greinarmun á því, sem heitir “crime of commission vs. crime of omission.” Annars vegar er um að ræða glæp sem framinn er af ásetningi, hins vegar um það sem kalla mætti vanræksluglöp.