Það er satt sem þú segir, að ESB mun ekki borga fyrir okkur; líka að við verðum “sjálf að vinna okkur út úr þessu”. Það sem okkur greinir á um er, hvernig það verði best gert. Ég tel, að okkur sé fyrir bestu að byggja upp fjölbreytt þjóðfélag, sem skapar störf fyrir vel menntað fólk í hagkerfi sem er opið og virkur þátttakandi í alþjóðaviðskiptum. Forsendan fyrir því að byggja upp þjóðfélag af þessu tagi er stöðugleiki. Þennan stöðugleika tryggjum við best með þátttöku í stærra myntsvæði.
Svar til Þorsteins Helga
Heill og sæll, Þorsteinn Helgi:
Það gleður mig að heyra frá frænda, sem ég geng út frá að beri nafn sr. Þorsteins í Vatnsfirði og Helga í Dal. Er það rétt til getið? Mér sýnist af þinni orðsendingu, að við verðum að sætta okkur við að vera sammála um að vera ósammála, þrátt fyrir frændsemina. Og allt í lagi með það af minni hálfu.