Við munum það, eins og gerst hafi í gær. Seinasta lag fyrir fréttir. Þulurinn sagði hátíðlegri röddu: Ljóðið er eftir Jóhannes úr Kötlum, en lagið eftir Atla Heimi Sveinsson, tónskáld.
Hann var 15 ára. Þar með var þessi bráðgeri bekkjarbróðir stiginn upp á Olympstind, þar sem fyrir sátu höfuðsnillingar mannsandans. Alla tíð síðan hefur Atli Heimir staðið við fyrirheit æskumannsins. Höfundarverk hans er svo mikið og fjölskrúðugt að furðu sætir. Að baki bjó skapandi hugur og óbilandi viljastyrkur.
Að loknu stúdentsprófi lá leið hans til Þýskalands, landsins sem kennt er við Heine og Hitler, Göthe og Göbbels. Þjóðverjar voru að skríða upp rústum stríðsins, eftir að hafa tapað glórunni í sjálfstortímingaræði nazismans. Atli varð innvígður í tónlistarhefð þýska menningarheimsins, sem stendur engum að baki. En hann var einskis manns hermikráka. Atli var skapandi hugsuður undir aga tónlistarformsins og kenndi til í tilfinningaróti tvíræðrar tilveru, sem einkenndist af ofsa og hraða. En leitaði að lokum hjálpræðis í hinu fagra og friðsæla.
Helförin var Húnunum í fersku minni. Menntaðasta þjóð Evrópu hafði hrokkið af hjörunum og hrasað út í botnlausa villimennsku. Stockhausen, meistari Atla Heimis, skildi samtíma sinn: Öld öfga, ofbeldis og tortímingar. Atli skildi það líka. Og funi og fjör æskumannsins bauð ekki upp á neinar málamiðlanir.
Lesa meira