Að loknu stúdentsprófi lá leið hans til Þýskalands, landsins sem kennt er við Heine og Hitler, Göthe og Göbbels. Þjóðverjar voru að skríða upp rústum stríðsins, eftir að hafa tapað glórunni í sjálfstortímingaræði nazismans. Atli varð innvígður í tónlistarhefð þýska menningarheimsins, sem stendur engum að baki. En hann var einskis manns hermikráka. Atli var skapandi hugsuður undir aga tónlistarformsins og kenndi til í tilfinningaróti tvíræðrar tilveru, sem einkenndist af ofsa og hraða. En leitaði að lokum hjálpræðis í hinu fagra og friðsæla.
Helförin var Húnunum í fersku minni. Menntaðasta þjóð Evrópu hafði hrokkið af hjörunum og hrasað út í botnlausa villimennsku. Stockhausen, meistari Atla Heimis, skildi samtíma sinn: Öld öfga, ofbeldis og tortímingar. Atli skildi það líka. Og funi og fjör æskumannsins bauð ekki upp á neinar málamiðlanir.