Sigríður Ragnarsdóttir, minning

Þetta var að áliðnu hausti á Ísafirði á áttunda áratugnum. Við vorum á kvöldgöngu í gamla bænum niðri á Eyrinni. Það sem fangaði athygli okkar var, að það barst tónlist út um glugga í nærri því öðru hverju húsi – allt frá Mozart og Chopin til Jóns Leifs og Sigvalda Kaldalóns. Um stund fannst okkur, eins og við værum stödd í Bæheimi, þar sem við höfðum orðið vitni að svipaðri stemningu.

Við vorum að upplifa sérstaka arfleifð Ísafjarðar, allt frá tímum Jónasar Tómassonar, sem stofnaði fyrsta tónlistarskólann snemma á liðinni öld, til Ragnars H. Ragnar og konu hans, Sigríðar Jónsdóttur frá Gautlöndum, sem glæddu tónlistarlíf Ísfirðinga nýju lífi upp úr Seinna stríði.

Lesa meira

Anna Kristine Magnúsdóttir – minning

“Elsku Bryndís mín. Gleðilegar nýársóskir til ykkar Jóns. Ég ætlaði að hringja, en varð skyndilega raddlaus. Elska ykkur, knús og kossar”.

Þetta var síðasta kveðja Önnu Kristine til mín. Tveimur dögum síðar var hún gengin út af sviðinu – horfin mér að eilífu.
Aldrei framar mundi hún senda mér uppörvandi kveðju – hugga mig í andstreymi, gefa mér von um betra líf – bjartsýn og örlát, vinur í raun.
Ég var strax farin að sakna hennar.

Við Anna höfðum þekkst lengi. Unnum saman um tíma fyrir mörgum árum, þegar ég bjó á Vesturgötunni og hún á Ránargötunni – bara spölkorn á milli. Við vorum að gefa út blað – kvennablað – og vorum stöðugt að leita að söluvænum, spennandi hugmyndum.

Lesa meira

Arna Schram – minning

Örninn, hinn tígulegi fugl, er einfari, fer eigin leiðir, flýgur hátt, fjarri mannabyggð, er sjálfum sér nægur. Og þannig var Arna –  eins og nafnið ber með sér. Alveg frá barnsaldri var hún mjög sjálfstæð, vissi hvað hún vildi. Ekki allra, að vísu, en íhugul og seinþreytt til vandræða.

Ég kynntist þessari bróðurdóttur minni, þegar hún var smábarn og kom í heimsókn til okkar að sumarlagi vestur á firði.  Arna og Snæfríður, dóttir mín, voru jafnaldrar og urðu fljótt nánar vinkonur. Báðar með  ljósan hadd og himinblá augu. Önnur feimin og hlédræg, hin á heimavelli á Ísafirði, og líklega ögn heimarík. 

Lesa meira

Til minningar um Hallgrím Svein Sævarsson

Hann kom hingað að Álfhóli þann 13. september síðastliðinn, daginn sem bókin mín – Brosað gegnum tárin, – kom út. Húsið var fullt af fólki. Allir í góðu skapi.

Ég hafði aldrei séð hann áður, en oft talað við hann í síma. Ég vissi, að hann var ljóðelskt tónskáld, sem átti sér þann draum að gera ljóðin ódauðleg, sveipuð fögrum tónum, sem komu úr hans eigin hugarheimi. Hann hafði næmt eyra, vissi hvað hann vildi – ekki endilega ljóð – heldur bara fallegan texta. Og hann langaði til að koma í heimsókn. En við vorum stödd á fjarlægri strönd, og hann átti ekki heimangengt.

Lesa meira

Elín Kristjánsdóttir, minning

Þegar við kynntumst Ellu bjuggum við öll í gamla Vesturbænum. Og Vesturbærinn var í þá daga eins og vinalegt þorp, sjálfu sér nægt. Þar var allt til alls, fiskbúð á horninu, mjólkurbúð og bakarí og sjoppa – jafnvel skósmiður. Allt í göngufæri. Við sem vorum útivinnandi tókum strætó í vinnuna, fórum inn í önnur hverfi, en hlökkuðum alltaf til að snúa aftur í Vesturbæinn að kvöldi dags.

Lesa meira

Dóra Jakobsdóttir Guðjohnsen, minning

Dóra kom óvænt inn í líf mitt, þegar ég var bara sextán og nýsloppin inn í MR – Lærða skólann í Reykjavík – feimin og hlédræg. Hún var hávaxin, grannholda, laus við allt tildur og full sjálfstrausts. Hún var satt að segja allt öðruvísi en flestar hinar stelpurnar í bekknum, bæði frumleg í hugsun, skemmtilega sérviskuleg og býsna fyndin þegar vel lá á henni. Og ekki skorti hana sjálfstraustið. Hún leyfði sér jafnvel að sproksetja kennarann, sem gerði því skóna að við værum bara komnar í MR sem biðsal hjónabandsins, í leit að hinum rétta – eða þá til að ná máli sem flugfreyjur í háloftunum!

Ég laðaðist ósjálfrátt að Dóru. Hún var gömul sál í ungum líkama, vitrari en við hinar, æðrulaus þegar eitthvað bjátaði á.

Lesa meira

Minning um Sigurð A. Magnússon, sem við kveðjum hinstu kveðju í Hallgrímskirkju í dag.

Þau eru að hverfa á braut hvert á fætur öðru – ganga út af leiksviði lífsins – gamlir vinir, bóhemar og artistar, sem voru í blóma lífsins á seinni hluta liðinnar aldar. Í daglegu lífi minntu þau á persónur úr skáldsögum, sem ekki fundu sér stað innan ramma hversdagsleikans – höfnuðu enda hversdagleikanum. Í þeirra augum var lífið – með öllum sínum sorgum og allri sinni gleði – óendanlegt yrkisefni, sem þau spunnu sinn þráð úr. Guðmunda Elíasdóttir og Bragi Ásgeirsson, bæði tvö nágrannar og vinir á Vesturgötunni, Thor Vilhjálmsson, sem kom alla leið úr Vogunum til að lesa upp úr nýjum bókum fyrir vini í gamla bænum. Öll nýgengin – og nú síðast Sigurður A. Magnússon, saddur lífdaga.

Ég var eiginlega bara barn að aldri, þegar ég kynntist honum – milli tektar og tvítugs, eins og sagt er. Hann var þá nýkvæntur maður, guðfræðistúdent við Háskóla Íslands. Ég var á leið til Ameríku – á Löngufjöru – með viðkomu í höfuðborg heimsins, New York, en þar átti ég að dveljast í nokkra daga. Sigurður var kjörinn leiðsögumaður minn – eða fararstjóri.

Lesa meira

Í minningu móður minnar, Aldísar Þorbjargar Brynjólfsdóttur Schram

Aldís Þorbjörg Brynjólfsdóttir Schram, móðir mín, hefði orðið hundrað ára í dag, 23. mars. Þess vegna skrifa ég eftirfarandi:

Mamma vann aldrei úti. Mamma sagði ósjaldan: Æ, ég var aldrei mikið fyrir börn! Samt eignaðist hún sjö krakka og féll aldrei verk úr hendi. Saumaði á okkur, prjónaði á okkur, fór í ber á hverju ári, sultaði, tók slátur, bakaði reglulega og eldaði mat upp úr danskri kokkabók, sem lá alltaf á eldhúsborðinu. Fiskur alla daga – ýsa var það, heillin – ýmist soðinn eða steiktur, saltaður eða reyktur. Stundum bollur eða kássur.

Á sunnudagsmorgnum var þó brugðið út af venju, þá var boðið upp á lambalæri í hádegismat. Ilmurinn barst um allt húsið, og við krakkarnir stóðumst ekki mátið, drösluðumst á fætur, þó svo að við hefðum verið á djamminu fram undir rauðan morgun. Lambalæri með Orabaunum, rauðkáli úr dós, brúnuðum kartöflum og rjómalagaðri sósu – mmm… hvað við elskuðum mömmu á sunnudögum. Núna man ég ekki, hvort við sögðum einu sinni „Takk fyrir matinn, mamma“.


Aldís Þorbjörg Björgvinsdóttir Schram

 

 

 

Lesa meira

Minning: Bragi Ásgeirsson

Kæri vinur – Svona byrja ég bréf til Braga í águst fyrir þremur árum. Sýning á verkum hans stóð yfir á Kjarvalsstöðum. Við höfum keypt bókina: „Augnasinfónía – myndlist Braga Ásgeirssonar í sextíu ár“.

Í þessu bréfi rifja ég upp, hvernig ég, ung listaspíra í Reykjavík á sjöunda áratugnum, hefði heillast af verkum hans, einkum og sér í lagi grafíkinni. Og konunum í grafíkinni. Ég sagði honum, hvernig mér hefði jafnvel tekist að eignast nokkur þessara verka með því að spara við mig í ýmsum óþarfa. Og svo, hvernig þessar konur hans, heillandi en látlausar í tign sinni, hefðu fylgt mér sem ljós á lífsins braut, bæði heima og að heiman. Þær hefðu svalað fegurðarþrá minni og eflt kvenleika minn. Ég nefndi myndina „Íhygli“, fyrstu grafikmyndina, sem ég eignaðist og síðan margar aðrar. Og loks „Ástríður“, sem var sú seinasta.

Erindi bréfsins til Braga var að láta hann vita, hvað bókin hefði glatt okkur, og hve margt hefði rifjast upp frá liðnum árum við lestur hennar. Í þessari bók er Bragi í essinu sínu. Hin alræmda frásagnargleði hans nýtur sín vel – engin látalæti, engin tilgerð, engin sjálfsvorkunn þrátt fyrir nokkurt mótlæti framan af. Hún lýsir sönnum manni, lífsreyndum – og lífsglöðum. Hún er falleg umgjörð um verk, sem munu lifa með þjóðinni um ókomin ár.

Lesa meira

Minningarorð um Finn Gunnlaugsson frá Hvilft í Önundarfirði.

Það snertir okkur djúpt, þegar við heyrum af andláti nemenda okkar – við hugsum alltaf til þeirra sem unga fólksins, sem á lífið framundan.

Við hugsum til áranna fyrir vestan – þegar verið var að skapa Menntaskólann á Ísafirði frá grunni – sem blómaskeiðs. Frá upphafi voru vonir bundnar við, að með stofnun skólans mundi Vestfjörðum haldast betur á ungu atgervisfólki. Þær vonir, einar og sér, voru kannski ekki raunhæfar. Meira þurfti að koma til. Engu að síður hefur skólinn átt sinn þátt í því að gera flóru mannlífsins, einkum í höfuðstað Vestfjarða, fjölbreyttari og lífvænlegri.

Lesa meira