Tilbrigði við stef
Hvar í heiminum nema á Íslandi getur maður farið í leikhús í hjarta borgar – þar sem þögnin í umhverfinu er slík, að gluggar standa galopnir og eina hljóðið sem berst inn, er gargið í gírugum gæsum – eða álftakvak í umvöndunartón? Hvergi, hugsa ég – en þannig er einmitt stemningin á efri hæðinni í Iðnó þessa dagana. Kaffileikhús – og það í orðsins fyllstu merkingu, því að það er boðið upp á kaffi, jafnvel heitt súkkulaði með rjóma og kruðeríi, í upphafi leiks og áhorfendur deila því með leikendum. Leikendur fá jafnvel eitthvað sterkara, þegar orðræðan verður of ágeng. Jarðgulur litur veggjanna heldur hlýlega utan um leikendur og gesti, þar sem þeir sitja í hnapp hver á móti öðrum. Svona var leikhús kannski einmitt hugsað í upphafi, staður þar sem maður talar við mann og segir sögu. Í svona þröngu rými fá orðin aukið vægi og það hentar mjög vel þeim, sem liggur mikið á hjarta og þurfa að veita tilfinningum sínum útrás.