En nú er neyðarástand. Og neyðarástand kallar á neyðarráðstafanir. Íslenska þjóðin er í svo miklu nauðum stödd að það verður að kasta út til hennar bjarghringnum strax. Ástandið á strandstaðnum er svo ógnvekjandi að innan skamms getur riðið yfir annað brot (önnur brotlending krónunnar og ný verðbólguhrina) sem gæti lagt okkar höktandi hagkerfi einfaldlega í rúst á örskömmum tíma.
NEYÐARÁSTAND KALLAR Á NEYÐARRÁÐSTAFANIR
Það ber að taka tillögur þeirra Ársæls Valfells og Heiðars Más Guðjónssonar, sem þeir birtu í Fréttablaðinu 8. nóv. s.l., um einhliða upptöku evru alvarlega. Við venjulegar kringumstæður hefði ég vísað slíkum tillögum á bug, af pólitískum ástæðum. Með því á ég við eftirfarandi: Við venjulegar kringumstæður ætti Ísland einfaldlega að sækja um og semja um aðild að Evrópusambandinu og evrusvæðinu og að lokum taka upp evru, þegar við höfum uppfyllt áskilin skilyrði, rétt eins og aðrar þjóðir. Við ættum að fara eftir settum leikreglum.