Höfundurinn skrifar af eftirsjá um þá veröld sem var. Hann dregur upp aðlaðandi mynd af þjóðfélagi fyrri tíðar sem hann lýsir sem stéttlausu þjóðfélagi. Ríkasti maður landsins (Tolli í Síld og fisk) vann í kjötvinnslunni við hliðina á starfsfólki sínu og gegndi skyldum sínum refjalaust sem hæsti skattgreiðandi þjóðarinnar. Og maðurinn sem átti plássið, eins og t.d. Einar Guð fyrir vestan, lét sér annt um sitt fólk og sýndi föðurlega umhyggju þegar á reyndi. Þeir bárust ekki á og deildu kjörum með fólkinu í landinu.
NÝJA ÍSLAND. VONSVIKIN ÞJÓÐ Í LEIT AÐ SJÁLFRI SÉR
Í tilefni af bók Guðmundar Magnússonar: Nýja Ísland – listin að
týna sjálfum sér (JPV útgáfa 2008)
Á þessari bók má lesa um aðdragandann að því að sjálfstæði Íslands var tekið að veði upp í skuld. En Bókin var skrifuð fyrir hrun og ber þess merki. Nú þegar spilaborgin er hrunin og þjóðfélagsvefurinn er að rakna upp fyrir augum okkar, er ráðvillt þjóð leitandi að svörum: Hvað kom fyrir? Hún mun ekki finna svörin sem hún leitar að á þessari bók. Til þess þarf að kafa dýpra en þar er gert. Engu að síður er þetta áhugaverð bók og lærdómsrík. Áhugaverð vegna þess að stiklað er á stóru í frásögn af mönnum og atburðum sem, skref fyrir skref, stefndu málum þjóðarinnar í óefni; og lærdómsrík vegna þess að bókin vekur lesandann til umhugsunar um það, hvers vegna svona illa er fyrir okkur komið.