Á HÆTTU SVÆÐI?

“Við eigum ekki að ræða Evrópusambandsaðild á forsendum tímabundins efnahagsvanda” (leiðari í Mbl. 10.05.08)
Hvaðan kemur ritstjóra Morgunblaðsins tyftunarvald til þess að banna almenningi á Íslandi, sem er þungt haldinn kvíða um atvinnu sína, afkomu og eignir, að ræða allar hugsanlegar lausnir á þeim vanda? Og þá ekki síst aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru í stað krónu. Það er nefnilega spurning um lífskjör almennings í framtíðinni.

Evrópusambandsaðild og upptaka evru er nefnilega lífskjaramál. Það snýst um að losna við tíðar, ófyrirsjáanlegar og óútreiknanlegar sveiflur á gengi gjaldmiðilsins – og þar með á lífskjörunum. Þetta snýst um verðstöðugleika. Það snýst um lægra verðlag á lífsnauðsynjum. Það snýst um lægri vexti og þar með viðráðanlegri greiðslubyrði af lánum.

Lesa meira

KÓRVILLA AF VESTFJÖRÐUM

“En upp úr þessu var Guðjóni Friðrikssyni sagt upp og hrökklaðist hann þá til Ísafjarðar. Þar gerði hann sé lítið fyrir og hóf ofsóknir á hendur Jennu og Hreiðari sem barnabókahöfundum .Það voru hefndirnar.”
(úr dagbók Matthíasar Jóhannessen, skálds)

Hér er eitthvað málum blandið, eins og reyndar hefur komið á daginn. Því fer víðs fjarri að Guðjón Fiðriksson hafi ”hrökklast” vestur á Ísafjörð. Ég get trútt um talað því að ég þurfti að hafa talsvert fyrir því að “véla” hann vestur á sínum tíma. Í “Tilhugalífi” (útg. 2002, bls. 264) lýsi ég því með eftirfarandi orðum:

Lesa meira

Í MINNINGU BRYNJU

Þegar Flauelsbyltingin hafði fleytt Vachlav Havel upp í forsetaembætti þáverandi Tékkóslóvakíu, þurfti hann að festa hið nýfrjálsa lýðveldi í sessi með því að heimsækja heiminn. Leikregur valdsins kváðu á um að fyrsti áfangastaður hins nýkjörna forseta skyldi vera Washington D. C. – svört borg á bökkum Potomac árinnar í Virginíu. Þar stóð skrifað að höfuðborg heimsins ríkti milli Hvíta hússins og Capitol Hill. Havel hlýddi leikreglunum og fór þangað sem fyrir var mælt að hann skyldi fara.

En hann hafði ekki verið “dissident” áratugum saman fyrir ekki neitt. Hann var leikskáld, gagnrýnandi og andófsmaður gegn pólitískum alzheimer sovésku leppanna sem ríktu á bökkum Moldár í skjóli Rauða hersins. Hann hafði verið tekinn úr umferð og sýningar á verkum hans voru bannaðar. Sjáflur hafði hann séð fæst af verkum sínum á sviði. Það rifjaðist upp fyrir honum að íslenskur leikstjóri hafði beitt sér fyrir þýðingu á verkum hans og uppfærslu á þeim í íslenska Þjóðleikhúsinu. Þessi leikstjóri var Brynja Ben. Í viðurkenningarskyni – eða var það bara fyrir forvitnisakir – gerði Havel lykkju á leið sína á leiðnni til Washington. Hann fór fyrst til Reykjavíkur. Þar fékk hann að sjá í fyrsta sinn uppfærslu á “Uppbyggingunni”, tvíræðri ádeilu á hugsjón sem snýst upp í andhverfu sína; draumi sem endar í martröð. Þetta verk hafði þá verið bannað í rúma tvo áratugi í heimalandinu. Að mati undirritaðs er þessi pólitíska ádeila besta sviðsverk höfundarins. Auðvitað gat hann ekki staðist freistinguna að sjá uppfærslu Brynju í eigin persónu. Flutningur verksins á íslensku virtist ekki hamla skilningi skáldsins á eigin höfundarverki.

Lesa meira

ÍSLAND Í AFRÍKU

Þótt þær fjárhæðir, sem hinir ríku Íslendingar láta af hendi rakna til þróunaraðstoðar við fátækar þjóðir á fjárlögum ár hvert séu svo smáar, að þær mælist varla í alþjóðlegum samanburði, hafa Íslendingar samt sem áður leitast við að leggja eitthvað af mörkum til þróunarhjálpar á undanförnum áratugum.

Einkum hafa Íslendingar látið til sín taka í Afríku (t.d. í Namibíu, Malawi og Mosambique, Uganda og víðar), en einnig í Mið-Ameríku (t.d. í Nikarakva og El Salvador). Við höfum helst reynt að beita okkur á sviðum þar sem við búum yfir umtalsverðri reynslu og sérþekkingu: Í sjávarútvegi og við nýtingu jarðvarma
til hitaveitu eða orkuframleiðslu.

Lesa meira

ÍSLENSKA LEIÐIN

Í sexhundruð ár vorum við Íslendingar í hópi fátækustu þjóða heims. Eftir þúsund ára búsetu var naumast uppistandandi heillegt mannvirki til marks um mannabyggð í landinu.

Til eru frásagnir erlendra ferðamanna sem heimsóttu landið allt fram á 19du öld sem undruðust það, hvernig þetta frumstæða fólk gat dregið fram lífið í kofahreysum, sem þeim sýndist varla skepnum bjóðandi, hvað þá mönnum.

Lesa meira

AÐ ÚTRÝMA FÁTÆKT EÐA FRIÐA SAMVISKUNA

Á bökkum Karlsárinnar í Boston stendur lítt áberandi minnismerki um fiskimanninn sem skyggnir hönd fyrir augu og horfir til hafs. Á stöplinum stendur skrifað eitthvað á þessa leið: Gefirðu manni einn fisk, getur hann satt hungur sitt þann daginn; en kennirðu honum að fiska, þá hefur hann lært að sjá sér og sínum farborða til frambúðar.

Þetta er það sem þróunaraðstoð á að snúast um: Að hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft. Nú til dags er þetta kallað sjálfbær þróun. Leiðtogar ríku þjóðanna, sem eru fulltrúar u.þ.b. sjötta parts jarðarbúa, hafa ítrekað heitið því við drengskap sinn að veita 0.7% af þjóðarframleiðslu sinna ríku þjóða til þróunaraðstoðar við hinar fátæku. Þeir hafa svikið þessi loforð, allir með tölu – nema ríkisstjórnir jafnaðarmanna í Svíþjóð, Noregi, Danmörku ogHollandi.

Lesa meira

FRÁ PRAG TIL VILNU – PUNKTAR ÚR UMRÆÐUM

Af hverju er ekkert lýðræði í Rússlandi?
Með byltingu er átt við það að nýr valdahópur ryður þeim gamla úr vegi, þannig að það verða skýr skil milli þess sem var og þess sem verður. Þetta gerðist ekki í Rússlandi 1991. Kannski er ástæðan sú að breytingin varð að mestu leyti friðsamleg. Gömlu valdaklíkunni – nomenklatúrunni – var ekki rutt úr vegi með vopnavaldi. Í raun og veru var sovétkommúnisminn bara einkavæddur; hann skipti um kennitölu ef svo má segja.

Gömlu sovétforstjórarnir urðu að ofurríkum ólígörkum, sem sölsuðu undir sig auðlindum þjóðarinnar. Og hverjir sitja í Kreml? Gamla KGB- klíkan er komin aftur og ræður nú lögum og lofum. Hún beitir sömu aðferðum og áður, enda kann hún ekkert annað: Hún starfar með leynd, hún stjórnar allri upplýsingamiðlun (censor) , hún beitir valdinu til að kúga einstaklinga til hlýðni (fjármálastofnanir, dómstólar). Og hún ræður fjölmiðlunum. Vissulega efnir hún til kosinga – en það gerði Stalín líka.Er þetta lýðræði? Nei, þetta er sú tegund valdstjórnar (e.authoritarianism) sem byggir á rússneskum hefðum, frá keisaranum til KGB. Eftir upplausnarástandið á tímum Gorbachevs og Yeltsins láta þessir menn stjórnast af sterkri löngun til að endurreisa völd og áhrif rússneska nýlenduveldisins. Olíubúmið hefur gert þeim kleift að fjármagna fyrirtækið. Vígvöllurinn, þar sem úrslitin munu ráðast, heitir Úkraína…

Lesa meira

GUÐNI JÓHANNESSON, FERTUGUR

Þegar maður þarf að forvitnast um unglinga (fólk undir fertugu) nú til dags, spyr maður venjulega um pabba og mömmu. Nú orðið er ég jafnvel farinn að spyrja um afa og ömmu. Þegar ég hafði fyrst veður af Guðna, kom hann mér kunnuglega fyrir sjónir, því að ekki einasta mundi ég eftir pabba hans og mömmu, heldur þóttist ég líka þekkja stóra bróður hans, Patrek, handboltakempu. Ég þykist reyndar viss um, að Guðni hefði sjálfur reynst liðtækur í alls kyns mannraunum, utan vallar og innan.

Ef hann hefði ekki haft þennan ólæknandi veikleika fyrir sögunni. Söguveiran lýsir sér í óaflátanlegri bókhneigð, þaulsætni á bókasöfnum og inniveru til óbóta. Þetta er þess vegna ókarlmannlegt sport með eindæmum, og hentar því best líkamlegum væsklum eða fólki með skerta fótavist. Það kom mér því þægilega á óvart, að þessi hermannlegi útivistargarpur væri samt sem áður þungt haldinn af söguveirunni. En það er hann og sennilega á háu stigi, og vonandi ólæknandi.

Lesa meira

ÁTTRÆÐISAFMÆLI: STEINGRÍMUR HERMANNSSON

Þegar ég lít yfir stjórnmálaferil Steingríms Hermannssonar sýnist mér að hann hafi náð hápunkti í forsætisráðherratíð hans fyrir vinstristjórninni 1988 sem sat út það kjörtímabil til 1991.Það voru helstu kostir Steingríms, bæði sem manns og stjórnmálamanns sem gerðu honum kleift að vinna það afrek að halda saman þriggja flokka vinstristjórn – og á tímabili fjögurra flokka stjórn – út kjörtímabilið með góðum árangri. Þeir voru skipulögð vinnubrögð, sanngirni í samskiptum við samherja og andstæðinga og einlægni í málflutningi gagnvart þjóðinni. Þessi vinstristjórn mun fá þann dóm í sögunni að vera eina vinstristjórnin á öldinni sem leið, sem reis undir nafni, fyrir utan “ríkisstjórn hinna vinnandi stétta”1934-37 í miðri heimskreppunni undir forsæti föður hans, Hermanns Jónassonar. Þar með sannaði Steingrímur að hann var enginn ættleri.

Stærstu mistökin á stjórnmálaferli Steingríms voru að mínu mati þau að falla í þá freistni fyrir örlagaríkar kosningar 1991 að leyfa lykilmönnum í flokki sínum að snúast af fullkomnu ábyrgðarleysi gegn EES-samningnum, sem efnislega var að mestu leyti fullsaminn í tíð ríkisstjórnar Steingríms.Þar með gerðu þeir Steingrímur og Ólafur Ragnar, fyrrverandi framsóknarmaður en þáverandi formaður Alþýðubandalagsins, mér ókleift að halda áfram vinstristjórnarsamstarfi eftir kosningar, eins og hugur minn hefði annars staðið til. Þessi mistök drógu langan slóða á eftir sér og breyttu gangi stjórnmálasögunnar frá því sem ella hefði orðið. Með þessum mistökum lögðu flokksformennirnir óvitandi í raun og veru grundvöllinn að löngum valdaferli Davíðs Oddssonar. Eftir á að hyggja þykir mér líklegt að báðir telji þeir nú að þetta hafi verið misráðið.

Lesa meira

VORIÐ Í PRAG – HRUN SOVÉTRÍKJANNA HAFA FRELSISHETJURNAR RISIÐ UNDIR VÆNTINGUM?

Í vestari helft Evrópu lauk seinni heimstyrjöldinni árið 1945. Það kostaði margar þjóðir Evrópu ómældar blóðfórnir að leggja óvætt þýska nazismans að velli. Flestar þjóðir Evrópu urðu fyrr eða síðar fórnarlömb þýska nazismans. Það er partur af harmleik þessara tíma að þjóðir Sovétríkjanna, sem færðu þungbærari fórnir en flestar aðrar í mannslífum og stríðseyðileggingu, voru dæmdar til þess á stund sigursins að þjást áfram undir ógnarstjórn Stalíns.

Í Vestur-Evrópu létu leiðtogar eftirstríðsáranna sér endalaus bræðravíg Evrópuþjóða öldum saman loksins að kenningu verða. Hugmyndin um það að takmarka getu þjóðríkjanna til að heyja styrjaldir með því að leggja auðlindir hergagnaiðnaðarins undir sameiginlega stjórn og gera þær þannig óafturkallanlega innbyrðis háðar hver annarri, er það besta sem gerst hefur í Evrópu frá ómunatíð. Fæðing Evrópuhugmyndarinnar hefur gefið gömlu Evrópu, eftir brotlendingu tveggja heimstyrjalda sem báðar áttu rætur að rekja til evrópskra stjórnmála, nýja lífsvon.

Lesa meira