Þar kom, að okkur vantaði almennilegan eðlisfræðing, helst þýskmenntaðan. Þorbergur átti vin frá menntaskólaárum, sem Axel hét, Carlquist (sem reyndar átti ættir að rekja í móðurætt til traustra íhaldsmanna á Ísafirði). Honum var boðið í heimsókn vestur um páskana strax á fyrsta ári. Við lögðum okkur öll fram um að sannfæra Axel um, að það væri óþarfi að eyða peningum í farið aftur suður. Það má segja frá því núna, að ég lofaði Þorbergi vænum skammti af úrvalsvískíi, ef honum tækist að kyrrsetja eðlisfræðinginn.
Minningarorð um samstarfsmann og vin: Axel Carlquist, eðlisfræðing
Nafn Axels, eðlisfræðings, er og verður nátengt sköpunarsögu Menntaskólans á Ísafirði. Það þurfti löngum að beita brögðum til að galdra þangað rétta menn á réttum tíma til kennslustarfa. Það var kostur að geta boðið önnur störf með.
Ég fór fljótlega að skipta mér af bæjarmálum. Þóttist þurfa þess til að tryggja skólanum byggingarlóð og húsnæði. Það þurfti að ráða bæjarverkfræðing. Hann var Þorbergur Þorbergsson, og auðvitað settur til að kenna stærðfræði við skólann með verkfræðinni. Eiginkona hans, Hildur Bjarnadóttir – seinna landsfræg útvarpskona – fylgdi með í kaupbæti sem dönskukennari.