Í MINNINGU EINARS ODDS KRISTJÁNSSONAR

Þjóðarsáttarsamningarnir snemma á tíunda áratug seinustu aldar voru stóra stundin á pólitískum ferli Einars Odds Kristjánssonar. Það er vafamál, hvort þessir samningar hefðu komist á án hans atbeina. Auðvitað áttu fleiri góðan hlut að því máli, en áræðni Einars Odds og sannfæringarkraftur kunna að hafa ráðið úrslitum. Fyrir þetta stendur íslenska þjóðin í þakkarskuld við Einar Odd Kristjánsson. Viðurkenning manna á lofsverðri framgöngu Einars Odds í þessu máli fékk m.a. s. birtingarform í tungutakinu, því að lengi á eftir var til hans vísað undir sæmdarheitinu “bjargvætturinn frá Flateyri.”

Mikilvægi þessara tilteknu kjarasamninga er trúlega hulin ráðgáta öðrum en þeim, sem ólust upp í verðbólguþjóðfélaginu íslenska. Þrálát verðbólga var á þessum árum innbyggð í sjálft stjórnkerfið og orðin að sérstökum lífsstíl. Verðbólgan var knúin áfram af sjálfvirkri víxlverkan verðlags og launa. Kjarasamningar, jafnvel upp á tugi prósenta, héldu ekki, því að kaupmátturinn eyddist í verðbólgunni. Verðbólguvæntingarnar stýrðu hugsunarhætti og athöfnum fólks. Glataður var geymdur eyrir. Sparnaður var nánast refsivert athæfi. Engir haldbærir mælikvarðar voru til á arðsemi fjárfestinga. Allt var talið borgað sig, ef það var bundið nógu hratt í steinsteypu. Munurinn á verðlagi og tilkostnaði innan lands og meðal viðskiptaþjóða kallaði á reglubundnar gengisfellingar krónunnar til þess að halda sjávarútveginum að meðaltali ofan við núllið.

Lesa meira

HELGI HAFLIÐASON – MINNING

Á árunum upp úr fyrra stríði stóð opinn fiskmarkaður Reykvíkinga, þar sem nú er vinsælasti veitingastaður borgarinnar – Bæjarins besta – við Tryggvagötu. Árið 1922 – árið sem Helgi frændi minn, Hafliðason, fæddist fyrir áttatíu og fjórum árum – byrjaði faðir hans að selja reykvískum húsmæðrum ferskan fisk beint af kerrunni. Þetta var upphafið að Fiskbúð Hafliða, sem alla tíð síðan hefur verið stofnun í bæjarlífinu, hvernig svo sem allt annað hefur velkst og horfið í tímans ólgusjó. Fiskbúð Hafliða var einn af þessum föstu púnktum í tilverunni, sem stóð af sér áreiti tímans.

Faðir Helga var Hafliði Baldvinsson, bróðir Jóns Baldvinssonar, sem var forseti Alþýðusambandsins og þar með formaður Alþýðuflokksins fyrstu tvo áratugina og rúmlega það. Þeir skiptu með sér verkum, þessir bræður að vestan. Annar sá alþýðu manna fyrir hollri næringu við vægu verði; hinn barðist fyrir bættum kjörum hins stritandi lýðs samkvæmt boðorðinu, að verður væri verkamaðurinn launanna.

Lesa meira

MAGNÚS MAGNÚSSON – MINNING

Að áliðnu hausti árið 1958 – fyrir hartnær hálfri öld – strukum við Bryndís einn góðan veðurdag í dagrenningu um borð í gamla Gullfoss. Við stungum af frá foreldrum og aðstandendum á vit frelsisins. Ég var á leið til Edinborgar að læra til forsætisráðherra. Hún var á leið til Parísar að nema frönsku og lífskúnst. Leiðir okkar skildi í Leith, hinni lágreistu hafnarborg höfuðborgar Skotlands.

Þegar við gengum frá borði niður landganginn, beið þar mikilúðlegur maður og dreif okkur inn í amríska límúsínu, eins og um opinbera heimsókn væri að ræða. Þessi höfðingi hét Sigursteinn Magnússon, umboðsmaður SÍS í Evrópu og ræðismaður íslenska lýðveldisins á Skotlandi. Hannibal hafði þá haft spurnir af laumufarþegum um borð í Gullfossi og beðið gamlan glímufélaga sinn frá Akureyri að líta til með þeim.

Lesa meira

Í MINNINGU GALBRAITHS. ÖRBIRGÐIN Í ALLSNÆGTUNUM

Allsnægtaþjóðfélagið (“The Affluent Society”) eftir John Kenneth Galbraith kom út árið 1958. Þar með hafði kvatt sér hljóðs maður, sem átti eftir að hafa mótandi áhrif á skoðanir margra af minni kynslóð um margt af því, sem mestu máli skipti í samtímanum. Galbraith var skarpskyggn hagfræðingur, heillandi rithöfundur og vel innrættur jafnaðarmaður – allt í sömu persónunni. Hann var sérfræðingur í að afhjúpa innistæðuleysi venjuviskunnar –“ the conventional wisdom” – en það er hugtak, sem hann átti höfundarréttinn að. Hann lést 29. apríl s.l., 97 ára að aldri. Með honum er horfinn af sjónarsviðinu einn áhrifaríkasti fulltrúi hinnar frjálslyndu Ameríku, sem afgangurinn af heiminum batt vonir við. Þess vegna er vert að minnast hans með nokkrum vel völdum orðum.

Allsnægtir og örbirgð.

Áhrifamesta bók hans, Allsnægtaþjóðfélagið, kom út árið sem ég lauk stúdentsprófi, en ég komst fyrst í tæri við hana nokkrum árum seinna, á námsárunum í Edinborg. Þessi bók opnaði heilli kynslóð nýja sýn á grundvallarþversögn amerísks kapitalisma. Þessi þversögn birtist okkur í einkaveröld allsnægtanna mitt í niðurníðslu almannaþjónustu. Hann festi þessa þjóðfélagsmynd í hugskoti lesenda sinna með orðtakinu: “Private affluence amid public squalor”. Þessi mynd er ekki síður raunsönn lýsing á amerísku þjóðfélagi í dag en hún var fyrir hálfri öld. Víggirt villuhverfi, lúxusbílar og óhófsneysla en vanræktar almannasamgöngur, niðurnídd fátækrahverfi, engar almannatryggingar, opinbert skólakerfi og heilsugæsla að hruni komið. Fimmtungur barnafjölskyldna undir fátæktarmörkum og lífsgæði undirstéttarinnar, sem minna meira á þriðja heiminn en ríkasta þjóðfélag heims. Þetta hefur ekki breyst til hins betra frá því að Galbraith afhjúpaði sannleikann um ójöfnuð og stéttaskiptingu bandarísks samfélags. Þvert á móti. Það hefur versnað um allan helming. Draumurinn um land tækifæranna hefur snúist upp í andhverfu sína. Bandaríkin eru nú mesta ójafnaðarþjóðfélag meðal þróaðra þjóða í heiminum.

Lesa meira

LENNART MERI, FYRRVERANDI FORSETI EISTLANDS

Af öllum þessum mönnum, sem voru í fararbroddi sjálfstæðishreyfinga Mið- og Austur Evrópu á árunum 1988 fram að falli Ráðstjórnarríkjanna 1991 og ég kynntist á þessum árum, skera þrír sig úr. Lennart Meri frá Eistlandi, Vytautas Landsbergis frá Litháen og Vaclav Havel frá Tékkóslóvakíu. Auðvitað ber að geta rafvirkjans frá Gdansk, Walensa, en honum kynntist ég aldrei. En þessi þrír, sem ég gat í upphafi, voru allir listamenn. Enginn þeirra hefði náð frama í pólitík undir venjulegum kringumstæðum. Til þess voru þeir allir of óvenjulegir. Þeir voru listamenn, sem kerfið skildi að voru hættulegir af því að menning þjóða þeirra var þeim runnin í merg og bein. Kerfið skildi, að ef það tækist að uppræta þá – einangra þá og drepa andlega – þá væri ekkert eftir.

Allir gegndu þeir lykilhlutverki, þegar mest á reið. Þjóðir þeirra fundu í sínu innsta eðli, að þeim væri treystandi fyrir sjálfu fjöregginu: Sameiginlegri menningu og reynslu þjóða í ánauð. Það var von til þess, að fulltrúar annarra þjóða, sem hittu þessa menn, augliti til auglitis, gætu skilið, að það var barist fyrir einhverju, sem skipti máli; tungumáli, sögu, reynslu, í einu orði sagt – menningu – sem heimurinn stæði snauðari eftir, ef hún færi forgörðum. Það er framlag listamannsins til lífsins. Þeir voru kjörnir til að berjast fyrir lífi þjóða sinna, af því að þeir skildu hvað það er, sem gefur lífinu gildi. Réttir menn á réttum stað á réttum tíma. Hvers frekar geta menn óskað sér af örlagadísunum?

Lesa meira

Í MINNINGU ÁRNA ÁRNASONAR

Árni, vinur minn, Árnason naut þess heiðurs að vera ræðismaður Íslands í þeirri borg á jarðarkringlunni, þar sem Íslendingar eru í mestum hávegum hafðir, Vilníus, höfuðborg Litháens. Ekki sakaði, að Árni var höfði hærri en annar lýður – nánast tveggja metra maður – en það þykir kjörstærð fyrir þjóðaríþrótt Litháa, sem er körfuknattleikur. Þegar saman fer að hafa alla burði til að ná landsliðinu í körfubolta og að vera íslenskur í þokkabót, verður ekki lengra komist í þessu lífi í þvísa landi. Árni ræðismaður var því í hávegum hafður, og honum stóðu allar dyr opnar í Vilníus.

Að loknum prófum í viðskipta- og rekstrarfræðum hér heima og frá Verslunarháskólanum í Kaupmannahöfn gerðist Árni útrásarmaður, eins og það heitir nú til dags. Hann var Hafskipsmaður og var alla ævi stoltur af því. Því næst vann hann að útflutningi og markaðsöflun fyrir lagmetisiðnaðinn, Álafoss og Útflutningsráð. Þegar kjarkmiklir menn tóku höndum saman um að stofna hátæknilyfjaverksmiðju í Litháen, fáeinum árum eftir að Litháar endurheimtu sjálfstæði sitt, varð Árni fyrir valinu til að veita henni forstöðu. Þetta var brautryðjendastarf, en eins og oft á við um brautryðjendur, voru þeir þarna of snemma á ferðinni til þess að þetta mætti takast. Hálfum áratug síðar, eða svo, hefði þetta getað orðið blómlegur bissniss, en eigendur Ilsanta hafði þrotið örendið, áður en á það reyndi. Þessi dæmi sýna, að Árni var nokkrum skrefum á undan sinni samtíð; hann var í útrásarsveitinni áður en rásbrautin var orðin bein og breið. Þeir sem síðar fetuðu í þessi fótspor, gátu ýmislegt lært af reynslunni.

Lesa meira

PÉTUR SIGURÐSSON – MINNING

Þegar ég kom fyrst til vetursetu á Alþingi haustið 1982, hafði Pétur setið þar fyrir í heilan áratug. Hann var beitarhúsaformaður í Skjaldbreið – húsvörður á nútímamáli, en þar var að finna skrifstofur þingmanna í forsköluðum timburhjalli, sem áður hafði verið hótel með vafasamt rykti.

Pétur var því þingreyndur maður, þegar fundum okkar bar fyrst saman. En meira máli skipti, að hann var lífsreyndur maður. Hann hafði staðið sína plikt sem sjómaður á yngri árum, staðið fyrir útibúi kaupfélagsins á Grundarfirði, setið bæði í stjórn sjómannafélagsins og frystihússins á staðnum og boðið fram krafta sína í sveitarstjórn í sextán ár, þrjú kjörtímabil í Eyrarsveit (Grundarfirði) og eitt á Kjalarnesi. Fyrir Framsóknarmenn með stórum staf. Því að hann var Framsóknarmaður í húð og hár.

Lesa meira

HANNES HAFSTEIN- MINNING

“Ert þú þessi frægi Hannes?” – spurði Gro Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs þegar ég kynnti fyrir henni Hannes Hafstein, aðalsamningamann Íslands í samningum EFTA-ríkjanna við Evrópusambandið um Evrópska efnahagssvæðið. Það sem við köllum EES í daglegu tali. Tónninn gaf til kynna að henni þætti nokkuð til þess koma að taka í höndina á þessum alræmda samningaþjarki Íslands. Þeir eru ekki margir, embættismenn íslenskir, sem forsætisráðherrar í útlöndum leita uppi á alþjóðafundum til þess að mega kasta á þá kveðju. Stjórnmálaforingjum, hverrar þjóðar sem þeir eru, er yfirleitt flest annað betur gefið en örlæti í garð annarra. Þessi saga segir því meira en mörg orð um þau bæði – Gro Harlem og Hannes.

Starf aðalsamningamanns Íslands í EES – samningunum við Evrópubandalagið var hápunkturinn á starfsferli Hannesar Hafsteins. Hafi einhverjir haft um það efasemdir fyrirfram, að Hannes væri réttur maður á réttum stað í því vandasama hlutverki, þá velktist enginn í vafa um það eftirá. Hvorki við, sem bárum pólitíska ábyrgð á samningsgerðinni, né viðsemjendur okkar, hið harðsnúna samningagengi Evrópusambandsins, sem hefur samningatækni að atvinnu alla daga ársins.

Lesa meira

BERGUR SIGUBJÖRNSSON – MINNING

Bergur var óvenjulegur maður. Hann var frjáls í hugsun, frjáls andi. Hann var útkjálkamaður með heimssýn, heimsborgari með djúpar rætur í heimahögum. Hann gerðist þjóðvarnarmaður í ærlegu andófi við veru bandarísks hers á Miðnesheiði, enda frá frá Heiðarhöfn á Langanesi. Samt var hann aldrei þjóðernissinni í þeim skilningi, að hann vildi upphefja ágæti eign þjóðar á kostnað annarra. Þess vegna átti hann stutta samleið með þeim , sem byggðu andóf sitt gegn hersetunni á einni saman þjóðrembunni. Hann var ekki þannig maður. Samt var hann einn af þeim.

Að loknu prófi í viðskiptafræði frá Gylfa og Ólafi Björnssyni, hélt hann eftir stríð til Svíþjóðar, þar sem hann las hagfræði. Það var á þeim tíma, þegar Stokkhólmsháskóli var einhver besti hagfræðiháskóli í heimi. Bergur var fínn hagfræðingur. Og hafði alltaf, meðan okkar kynni héldust, ómengaðan áhuga á því sem máli skipti um þjóðfélagið, sem hættir til að fara fyrir ofan garð og neðan hjá þeim sem halda að hagfræði snúist um bókhald.

Lesa meira

DR. MARO SONDAHL, RÆÐISMAÐUR ÍSLANDS Í CURITIBA Í BRASILÍU – MINNINGARGREIN

Einar Gústafsson, ferðamálafulltrúii í New York og frændi hans flutti okkur þá harmafregn, að Maro Sondahl, ræðismaður Íslands í Curitiba í Brasilíu, hefði farist í hörmulegu umferðarslysi í Norður- Brasilíu þann 10. Jan. s.l.. Maður sem geislaði af bjartsýni, atorku og lífsgleði væri allur. Mig setti hljóðan. Enginn veit sína ævina fyrr en öll er.

Minningarnar um góðan dreng hrannast upp. Það var síðla vors árið 1999. Sendiherra-hjónin í Washington D.C. héldu til Brasilíu til að afhenda Cardosa forseta trúnaðarbréf fyrir sendiherra Íslands í Brasilíu. Ég átti í framhaldinu viðræður við utanríkisráðherra, þróunarmálaráðherra, sjávarútvegsráðherra, senatora og fylkisstjóra. En hafði samt allan tímann í huga að taka frá tvo daga til að heimsækja borgina Curitiba í Parana í Suður-Brasilíu. Af því að ég hafði haft spurnir af því, að þar væri marga af afkomendum Brasilíufaranna að finna.

Lesa meira