Mikilvægi þessara tilteknu kjarasamninga er trúlega hulin ráðgáta öðrum en þeim, sem ólust upp í verðbólguþjóðfélaginu íslenska. Þrálát verðbólga var á þessum árum innbyggð í sjálft stjórnkerfið og orðin að sérstökum lífsstíl. Verðbólgan var knúin áfram af sjálfvirkri víxlverkan verðlags og launa. Kjarasamningar, jafnvel upp á tugi prósenta, héldu ekki, því að kaupmátturinn eyddist í verðbólgunni. Verðbólguvæntingarnar stýrðu hugsunarhætti og athöfnum fólks. Glataður var geymdur eyrir. Sparnaður var nánast refsivert athæfi. Engir haldbærir mælikvarðar voru til á arðsemi fjárfestinga. Allt var talið borgað sig, ef það var bundið nógu hratt í steinsteypu. Munurinn á verðlagi og tilkostnaði innan lands og meðal viðskiptaþjóða kallaði á reglubundnar gengisfellingar krónunnar til þess að halda sjávarútveginum að meðaltali ofan við núllið.
Í MINNINGU EINARS ODDS KRISTJÁNSSONAR
Þjóðarsáttarsamningarnir snemma á tíunda áratug seinustu aldar voru stóra stundin á pólitískum ferli Einars Odds Kristjánssonar. Það er vafamál, hvort þessir samningar hefðu komist á án hans atbeina. Auðvitað áttu fleiri góðan hlut að því máli, en áræðni Einars Odds og sannfæringarkraftur kunna að hafa ráðið úrslitum. Fyrir þetta stendur íslenska þjóðin í þakkarskuld við Einar Odd Kristjánsson. Viðurkenning manna á lofsverðri framgöngu Einars Odds í þessu máli fékk m.a. s. birtingarform í tungutakinu, því að lengi á eftir var til hans vísað undir sæmdarheitinu “bjargvætturinn frá Flateyri.”