Rannsóknarnefnd Alþingis komst að sömu niðurstöðu í sannleiksskýrslu sinni. Hún færir veigamikil rök fyrir því, hvernig hin pólitíska forysta brást skyldum sínum. Oddvitar stjórnarflokka, ráðherrar í lykilstöðum og ábyrgðarmenn eftirlitsstofnana vissu, eða máttu vita, að framundan væri hættuástand og bar skylda til að grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana í tæka tið. Skýrsluhöfundar nafngreina 11 einstaklinga sem eru ábyrgir fyrir meiriháttar mistökum og/eða vanrækslu á embættisskyldum, lögum samkvæmt.
Um pólitíska ábyrgð – Viðtal Egils Helgasonar við Jón Baldvin Hannibalsson
Að lokinni óvenjumildri sumarblíðu hófst hinn pólitíska vertíð vetrarins með stuttu haustþingi í byrjun september – og með Silfri Egils, sem vaknaði á ný af sumardvala sunnudaginn 5. september. Í þessu upphafssilfri birtist eftirfarandi viðtal Egils við JBH, viðtalið hefst þegar 34:00 mínútur eru liðnar af þættinum.
Kveikjan að viðtalinu var erindi, sem ég flutti á málþingi með dönskum háskólakennurum í hagfræði, sem byrjuðu nýtt kennsluár með fjögurra daga “rannsóknaræfingu” um íslenska hrunið. Í þessu erindi færði ég rök fyrir því, að hrunið hefði verið sjálfskaparvíti, þótt hin alþjóðlega fjármálakreppa, sem breiddist út um heiminn frá Bandaríkjunum, hafi verið neistinn sem kveikti bálið. Hrun íslenska fjármálakerfisins var hvort tveggja í senn, fyrirsjáanlegt og fyrirbyggjanlegt.