UM SMJÖRKLÍPUKENNINGUNA OG SEÐLABANKASTJÓRANN

Drottningarviðtal Agnesar við Davíð í Sunnudagsmogga (5. júlí) gefur tilefni til að rifja upp söguna af ömmu Davíðs og kettinum hennar. Í Hvítbók Einars skálds Más er að þessu vikið (sjá bls. 104). Þannig var að kötturinn hennar ömmu vildi stundum ráðast á fugla og veiða mýs og gat verið grimmur og úrillur, en þá greip amma Davíðs til þess ráðs að klína smjöri á rófu hans. Síðan segir:

“Við þetta hvarf allur áhugi kattarins á fuglunum og músunum, en athygli hans beindist eingöngu að smjörklípunni á rófunni. Þessari sömu aðferð sagðist Davíð oft hafa beitt á andstæðinga sína í stjórnmálum. Þegar athygli þeirra beindist að einhverjum stórum málum, fleygði hann til þeirra öðrum málum, minni háttar málum, og lét þá þannig eltast við skottið á sér. Þessi aðferð hefur gengið undir nafninu “smjörklípuaðferðin” í íslenskum stjórnmálum…”

Lesa meira

ICESAVE Í IÐNÓ – HREINSUNARDEILD VG

Það hefðu ekki margir íslenskir stjórnmálamenn getað farið í fötin hans Steingríms J. á fundinum um Icesave í Iðnó í gærkvöldi. Eftir átján ára þrautagöngu í stjórnarandstöðu verður það seint sagt um formann Vinstri-grænna, að hann beri ábyrgð á Icesave-reikningnum. Það gera hins vegar fortakslaust fv. formenn hinna flokkanna þriggja, Sjálfstæðis-, Framsóknarflokks og Samfylkingar. Fundarmenn virtust hins vegar flestir hverjir standa í þeirri trú, að við Steingrím einan væri að sakast.

Það er ekki öfundsvert hlutskipti að standa frammi fyrir eigin fylgismönnum og “born-again” framsóknarmönnum, sem nú kalla sig íslenska varnarliðið (“In Defence”) og að þurfa að kynna þjóð sinni þann beiska sannleika, að hún á engra annarra kosta völ en að borga; að borga reikninginn fyrir fjárglæfra Björgólfanna – Landsbankaklíkunnar – sem allir voru innvígðir í innsta hring Sjálfstæðisflokksins; og að gjalda fyrir afglöp forystumanna flokkanna þriggja, sem áður voru nefndir.

Lesa meira

HVER Á HVAÐ OG HVAÐ ER HVURS? Svar til Þorbjörns

Heill og sæll, Þorbjörn
Ég er sammála þér um það, að kerfis- og gjaldmiðilshrunið á Íslandi var fyrirsjáanlegt og fyrirbyggjanlegt, ef tekið hefði verið í taumana í tæka tíð. Hvaða úrræði voru tiltæk?

(1) að hemja ofurvöxt bankanna, (2) að knýja LÍ til að breyta Icesave í dótturfélag á ábyrgð breskra og hollenskra yfirvalda, (3) að knýja bankana, a.m.k. þann sem hafði 85% starfseminnar á evrusvæðinu til að flytja höfuðstöðvar sínar þangað, (4) að sækja um aðild að ESB með það að markmiði að binda krónuna við evru til skamms tíma og láta svo evruna leysa krónuna af hólmi. Þessar ráðstafanir (og fleiri í svipuðum dúr) hefðu áreiðanlega afstýrt kerfis- og gjaldmiðilshruni. Þar með er ekki sagt að einstaka fjármálastofnanir hefðu ekki lent í kröggum, né heldur hefði Ísland sloppið við afleiðingar alþjóðakreppunnar, sem nú gengur yfir. En það ástand hefði verið viðráðanlegt.

Lesa meira

AF ILLU PRETTA TÁLI – Svar til Steinþórs Jónssonar

Heill og sæll, Steinþór.
Ég þykist þess ekki umkominn að kveða af eða á um réttmæti þessa lista yfir meinta sakborninga, sem þú birtir. Hitt þykist ég vita, að ef íslenskt réttarfar væri starfandi á sömu forsendum og hið bandaríska, hefði öllum þessum mönnum verið birtar ákærur með rökstuddum grun um lögbrot eða meiriháttar afglöp í starfi.

Tókstu eftir fréttinni í hádeginu í dag? Í Bandaríkjunum var verið að kveða upp dóm yfir stærsta fjárglæframanni Bandaríkjanna,(gjaldþrot hans var reyndar svipuð upphæð í dollurum og íslensku bankanna þriggja).Það komst upp um manninn í desember s.l. og endanlegur dómur kveðinn upp í lok júní.Dómurinn kvað á um 150 ára fangelsisvist, auk þess sem fjársvikarinn var með dósmúrskurði sviptur öllum eignum sínum (fyrir utan lífeyri ekkjunnar). Á Íslandi hrundi kerfið í október. Dómsmálaráðherrann BB, skipaði tvo saksóknara til að rannsaka málin, en láðist að athuga að báðir áttu fyrir syni, menn í innsta hring braskaranna, sem átti að rannsaka. Nú eru a.m.k. þrír aðilar að rannsaka og verða bráðum sex, skv. nýju frumvarpi. Á meðan líður tíminn. Enginn hefur verið ákærður, hvað þá sakfelldur.”Late Justice is no Justice,” segja Bretar.

Lesa meira

ÖFUGMÆLI

Sú kenning nefndar um hæfi umsækjenda um starf seðlabankastjóra, að þeim einum sé treystandi til verksins, sem geta a.m.k. sannað (með)höfundarrétt á peningamálastefnu, sem hefur kollvarpað fjármálalegum stöðugleika heils hagkerfis, eða starfað möglunarlaust í mörg ár að því að keyra seðlabanka í þrot – hlýtur að teljast í besta falli nýstárleg og í þeim skilningi sérkennilegt framlag til fræðanna.

Venjulegu fólki, sem kallast svo, af því að það telst vera með óbrjálaða dómgreind og hefur orðið fyrir barðinu á afleiðingum ofangreindrar kenningar, finnst þvert á móti, að þeir einir komi ekki til álita til að stýra Seðlabanka Íslands, sem bera ábyrgð á því, hvernig komið er fyrir orðspori bankans og örlögum þjóðarinnar.

Lesa meira

ICESAVE: STAÐREYNDIRNAR TALA SÍNU MÁLI

Svar til Einars Jóhannessonar.
Heill og sæll, Einar.
Mér þykir leiðinlegt að þurfa að segja það, en þessi samsetningur þinn er samsafn af staðleysustöfum og annað ekki. (Jú – að vísu, illgirni og fjölmæli í bland).

(1) Bankastjórar og bankaráðsforysta Landsbankans vissi frá upphafi að með því að stofna Icesave í formi íslensks útibús í stað dótturfyrirtækis, sem þeir áttu kost á, efndu þeir til sparifjártryggingar íslenska ríkisins, þ.e. íslenskra skattgreiðenda.

Lesa meira

BANANALÝÐVELDI?

Það er ástæða til að vekja athygli á lítilli frétt hjá RÚV í hádeginu í gær, laugardag. Fréttin er svohljóðandi:

“Bandaríski milljarðamæringurinn, Allen Stanford, situr nú á bak við lás og slá, en í gær var hann ákærður fyrir stórfelld fjársvik og peningaþvætti. Segja saksóknarar, að alþjóðlegt fjármálaveldi Stanfords hafi í rauninni ekki verið annað en stórfellt pýramídasvindl.

Bandaríska dómsmálaráðuneytið birti í gær ákærur á hendur Stanford og sex öðrum, sem eru sakaðir um að hafa aðstoðað hann við að svíkja milljarða dollara út úr viðskiptavinum, sem lokkaðir voru til að fjárfesta í Stanford-alþjóðabankanum svonefnda, sem staðsettur var á eynni Antigua í Karíbahafinu. Segir í ákærunum, að loforðin sem fjárfestum hafi verið gefin um væntanlega ávöxtun, hafi verið allt of góð til að geta verið sönn.

Lesa meira

Á FLÓTTA

Englendingar gera greinarmun á því, sem heitir “crime of commission vs. crime of omission.” Annars vegar er um að ræða glæp sem framinn er af ásetningi, hins vegar um það sem kalla mætti vanræksluglöp.

Sú ákvörðun eigenda og stjórnenda Landsbankans að starfrækja Icesave-innlánsreikningana í Bretlandi og Hollandi í formi útibús Landsbankans en ekki í formi bresks dótturfélags, var ákvörðun um að ábyrgðartrygging sparifjáreigenda skyldi endanlega hvíla á íslenskum skattgreiðendum en ekki breskum. Þessi ákvörðun var tekin vitandi vits af ásettu ráði. Þetta var ásetningsglæpur. Mér er það hulin ráðgáta, hvers vegna þeim mönnum, sem þessa ákvörðun tóku, hefur ekki verið gert að taka afleiðingum gerða sinna.

Lesa meira

Svar til Jóns Þórs Helgasonar

Heill og sæll, Jón Þór.
Að því er varðar þá kenningu að regluverk ESB sé einhver orsakavaldur að Icesave-reikningnum, þá bendi ég þér á hjálagða grein, þar sem þessi kenning er einfaldlega hrakin.

Að því er varðar hina pólitísku ábyrgð á öförum þjóðarinnar, þá er það rétt, að sökudólgalistinn er býsna langur, ef öllu væri til skila haldið. Ég lít svo á, og styðst þá við eigin pólitíska reynslu, að oddvitar ríkisstjórna, þ.e. formenn samstarfsflokka í samsteypustjórnum, beri höfuðábyrgð. Það var á þeirri forsendu, sem ég setti fram þá kröfu fyrir seinustu kosningar, að Ingibjörg Sólrún ætti að sjá sóma sinn í að draga sig í hlé. Rugludallar báru mér á brýn af því tilefni, að ég gerði mig sekan um mannvonsku við veika konu. Nær væri að líta á mig sem velgjörðarmann, því að þetta varð ISG sjálfri til góðs, fyrir utan að vera Samfylkingunni pólitískt nauðsynlegt. Flest bendir til, að Björgvin Sigurðrson hafi verið pólitískur liðléttingur í Viðskiptaráðuneytinu, enda skilst mér að hann hafi verið sniðgenginn, ekki bara af Geir og Davíð, heldur jafnvel af ISG sjálfri.

Lesa meira

ÓFYRIRGEFANLEGT?

Tilraun Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins og fv. menntamálaráðherra, til að varpa sök af Icesave-reikningnum af forystu Sjálfstæðisflokksins yfir á aðra (sjá: “Á að semja um Icesave?”, Mbl., 13.06.) kallar að lágmarki á eftirfarandi leiðréttingar:

Það var ekkert “regluverk Evrópusambandsins” , sem tók ákvörðun um að stofna útibú Landsbankans fyrir sparifjárinnistæður í Bretlandi og Hollandi á árunum 2006-08. Regluverk taka ekki ákvarðanir. Þeir sem tóku þá örlagaríku ákvörðun voru bankastjórnar Landsbankans, þeir Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson, á ábyrgð formanns bankaráðsins og varaformanns, þeirra Björgólfs Guðmundssonar og Kjartans Gunnarssonar. Allt eru þetta dyggir sjálfstæðismenn, Kjartan m.a.s. framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, svo lengi sem elstu menn muna.

Lesa meira