(1)„Þetta snýst allt um vald, kjáninn þinn“. Það fer ekki á milli mála, að vald eigenda fjármagns og fyrirtækja er gríðarlegt í kapítalísku hagkerfi. Ákvörðunarvaldið um fjárfestingar og framkvæmdir er að stærstum hluta í höndum fámenns hóps eigenda fjármagns og fyrirtækja. Valdið á vinnumarkaðnum til að ráða og reka er í höndum þeirra. Fjöldi fólks á allt sitt undir þessum ákvörðunum. Ef stéttarfélög eru veikburða eða jafnvel ekki til staðar, fær vinnandi fólk litlu sem engu ráðið um þessar ákvarðanir. Sívaxandi samþjöppun þessa valds í höndum stjórnenda risavaxinna fjölþjóða fyrirtækja (allt að helmingur allra alþjóðaviðskipta fer fram innan þeirra) og fjármálastofnana (5 risabankar ráða helmingi fjármálamarkaða heimsins) ræður miklu um þann veruleika, sem jarðarbúar búa við á okkar tímum. Það er því í hæsta máta villandi, þegar menn tala í síbylju um „frjálsa markaði“, en í reynd er iðulega um að ræða einokun, fákeppni eða markaðsráðandi stöðu.
Norræna módelið gegn nýfrjálshyggjunni
Guðbjörn Guðbjörnsson, virkur þátttakandi í þjóðfélagsumræðunni (og óperusöngvari í kaupbæti) skrifar fróðlegan Eyju-pistil (19.03.17) um sögu þýska velferðarríkisins. Þetta er þarft innlegg í brýna umræðu um kreppu velferðarríkisins eftir Hrun. Guðbjörn vill halda því til haga, að Bismark gamli – sjálfur járnkanslarinn – hafi rutt brautina fyrir velferðarríki seinni tíma. Líka að mér hafi láðst að geta þessa í Eyju-pistli mínum um norræna módelið og tilvistarkreppu sósíal-demókrata í samtímanum. Það getur ekki talist vera höfuðsynd, af þeirri einföldu ástæðu, að norræna módelið nýtur mikillar sérstöðu í þessum samanburði. Það er super-módel samtímanseins og vikuritið Economist lýsti því fyrir tveimur árum. Ég nefni fjórar ástæður þessu til skýringar: