Í ljósi þess, að forsvarskonur kynjafræðiskorar hafa knúið kennara við stjórnmálafræðadeildina til að afturkalla áður umbeðið námskeið í samstarfi við mig, er fróðlegt að rifja upp, hvað nemendur sjálfir höfðu að segja um reynslu sína af námskeiði mínu á haustmisseri 2009. Það mun vera regla við háskólann, að nemendum gefst kostur á að leggja kerfisbundið mat á frammistöðu kennara. Niðurstaðan varð sú, að JBH fékk hæstu einkunn kennara við deildina það misserið. Eina neikvæða umsögnin var, að hann væri ekki ínáanlegur utan kennslustunda (þ.e. ekki með fasta viðtalstíma). Þessi gagnrýni var rökstdd með því, að hér væri um að ræða „kennara sem væri gangandi námsefni. Hann bókstaflega framkvæmdi söguna, sem við lærum um í þessu námskeiði“. Aðrar umsagnir fylgja hér á eftir:
Hvað sögðu nemendur um námskeið Jóns Baldvins?
Eins og vikið er að í greininni: Háskóli Íslands – Talíbanar í fílabeinsturni? hófst samstarf stjórnmálafræðideildar HÍ við mig haustið 2009. Efni námskeiðsins var: Geta smáþjóða til að gæta hagsmuna sinna og hafa áhrif í alþjóðakerfinu. – Prófessor við deildina fylgdi námskeiðinu úr hlaði með inngangserindi um ríkjandi kenningar um stöðu smáþjóða í alþjóðasamskiptum. Ég fylgdi þessu eftir með því að rekja dæmi um stöðu og áhrif smáþjóða í því kerfi alþjóðasamskipta, sem byggt hefur verið upp eftir Seinna stríð. Í mörgum tilfellum gat ég miðlað af eigin reynslu, eins og t.d.varðandi hafréttarmál og þorskastríð, samninga við Evrópusambandið (EES) og frumkvæði Íslands að stuðningi alþjóðasamfélagsins við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða.