Hverjar eru þessar skýringar? Látið er eins og þetta sé allt honum Baldri að kenna. Dr. Baldur Þórhallsson, prófessor, á að hafa beðið mig um að líta við í nokkra tíma á námskeði á hans vegum. Þetta á að hafa verið einkamál Baldurs. Baldur hafi síðan afturkallað ákvörðun sína. Þar með beri félagsvísindasvið og stjórnmálafræðideild enga ábyrgð. Þetta er hins vegar, að mati rektors, tilefni til að setja reglur um gestakomur til háskólans.
HÁSKÓLI ÍSLANDS: EKKI MEIR, EKKI MEIR
„Það versta er ekki fólska hinna illviljuðu; það versta er þögn og afskiptaleysi hinna góðviljuðu“
(Anonymus)
Skýringar forráðamanna HÍ á fyrirvaralausri ákvörðun þeirra um að afturkalla ráðningu mína til kennslu við stjórnmálafræðideild skólans, standast ekki skoðun. Þeir leyfa sér að ganga langt í að hagræða staðreyndum í von um að geta breitt yfir það ófremdarástand, sem ríkir innan félagsvísindasviðs. Þessar skýringar bera vott um skort á sannleiksást, vilja til yfirhylmingar (e. cover-up) og ódrengskap í garð þeirra, sem verða að búa við afleiðingarnar af þeirra eigin klúðri.