Það fer vart fram hjá neinum, að nýfrjálshyggjuliðið í Sjálfstæðisflokknum heyr nú kosningabaráttu sína undir kjörorðinu: „Land tækifæranna“. Það rifjar upp fyrir mér, að fyrir nokkrum árum birti tímaritið Economist sérstaka skýrslu um norræna módelið. Höfundarnir komust að þeirri niðurstöðu, að norræna módelið væri „the most successful socio-economic model on the planet“, á öld hnattvæðingar.Í því hefði tekist að sameina andstæðurnar „hagkvæmni og jöfnuð“. Norræna módelið væri hvort tveggja í senn, samkeppnishæfasta og mesta jafnaðarþjóðfélag á jarðríki. Það hefði afdráttrlaust leyst Ameríku af hólmi sem „land tækifæranna“.
En höfundur skýrslunnar, hr. Wooldridge, reyndist vera illa smitaður af bakteríu nýfrjálshyggjunnar eins og fleiri. Hann reyndi því að gera sitt besta til að þakka sænskum íhaldsmönnum, sem hafa verið við völd skamma hríð á seinustu árum, fyrir þennan óviðjafnanlega árangur. Sannleikurinn er hins vegar sá, að sænska velferðarríkið, þessi völundarsmíð sænskra jafnaðarmanna, stendur óhögguð. Sænskir íhaldsmenn hafa ekki dirfst að hagga við undirstöðunum, heldur orðið að láta sér nægja að fitla við smábreytingar á jaðrinum.
Ég sendi því bréf til ritstjórans með rökstuddri gagnrýni á þessi áróðrsbrögð. Það segir sína sögu um ritstjórnarstefnu Economist, að þrátt fyrir að þeir hafi óskað sérstaklega eftir viðbrögðum lesenda sinna, stungu þeir athugasasemdum mínum undir stól. Ég þykist vita, að Kjarninn þori að birta það sem ritstjóri Economist þorði ekki að trúa lesendum sínum fyrir. Hér kemur það: