Jón Baldvin kveðst aðspurður ekki ætla að áfrýja niðurstöðu héraðsdóms í meiðyrðamáli hans gegn RÚV og heimildarmanni þess. Hann segist í stórum dráttum vera sáttur við niðurstöðuna. Aðalatriðið er – og það er langmikilvægast – að svívirðulegustu ásakanirnar, bæði ósannar og gróflega ærumeiðandi, voru afdráttarlaust dæmdar dauðar og ómerkar. Það skiptir sköpum.
Hitt skiptir minna máli, þótt allskyns óhróður, hafður eftir sömu heimildum séu látin óátalin. Skýringin er sögð sú að hugsanlega hafi viðkomandi upplifað þetta svona. „Upplifun“ hefur að sögn málfróðra manna öðlast nýja merkingu: Hún lýsir ekki því sem gerðist heldur hinu sem maður heldur að hugsanlega gæti hafa gerst.
Ég hef að sjálfsögðu samúð með því sjónarmiði dómarans að standa vörð um tjáningarfrelsið. En tjáningarfrelsið er í réttarríki þrátt fyrir allt ekki ótakmarkað. Takmörkin eru þau að enginn maður þurfi að þola að vera borinn sannanlega röngum og ærumeiðandi sökum í nafni tjárningarfrelsisins. En í mínu tilviki er þetta réttlætt með því að ég teljist enn vera „opinber persóna“, þótt næstum aldarfjórðungur sé liðinn frá því að ég yfirgaf vígvöll stjórnmálanna. Ég á samkvæmt því að þola illmælgi betur en aðrir. Og það er rétt – ég er illu vanur en ég kvarta ekki.