KOLLA OG KÚLTÚRINN FIMMTÍU ÁRA

Auðvitað átti Mál og menning að heiðra Kollu og kúltúrinn í tilefni af þessu stórafmæli með því að gefa út bók með úrvali af viðtölum Kollu við mannfólkið. Þá hefðum við séð það svart á hvítu, sem mörgum okkar hefur lengi boðið í grun, að Kolla væri besti viðtalshöfundur samtímans. A.m.k. eftir að Matti Jó hætti að birta sexopnuviðtöl við Rostropovits um kalda stríðið í kúltúrnum undir fyrirsögninni: Í fáum orðum sagt.

Að öðru leyti verður að viðurkenna, að samkeppnin í viðtalabransanum er ekki mjög hörð hér á landi. Flestir fjölmiðlar íslenskir virðast starfa samkvæmt þeirri grundvallarreglu að tala bara við fólk, sem hefur ekkert að segja. Það er af því að þótt svoleiðis textar freisti ekki lesenda, þá fæla þeir alla vega ekki frá auglýsendur. Kolla er aftur á móti hinsegin. Hún spyr bara spurninga, sem skipta máli, en hefur ekki áhuga á hinu. Það er varla til sá andlegi trédrumbur, að hann vakni ekki til einhvers konar vitundar í viðtali við Kollu. T.d. tókst henni nýlega að láta formann FL Group líta út eins og mann, af því að það hvarflaði ekki að henni að spyrja hann út í það eina, sem hann hefur vit á, nefnilega peninga.

Lesa meira

Í MINNINGU EINARS ODDS KRISTJÁNSSONAR

Þjóðarsáttarsamningarnir snemma á tíunda áratug seinustu aldar voru stóra stundin á pólitískum ferli Einars Odds Kristjánssonar. Það er vafamál, hvort þessir samningar hefðu komist á án hans atbeina. Auðvitað áttu fleiri góðan hlut að því máli, en áræðni Einars Odds og sannfæringarkraftur kunna að hafa ráðið úrslitum. Fyrir þetta stendur íslenska þjóðin í þakkarskuld við Einar Odd Kristjánsson. Viðurkenning manna á lofsverðri framgöngu Einars Odds í þessu máli fékk m.a. s. birtingarform í tungutakinu, því að lengi á eftir var til hans vísað undir sæmdarheitinu “bjargvætturinn frá Flateyri.”

Mikilvægi þessara tilteknu kjarasamninga er trúlega hulin ráðgáta öðrum en þeim, sem ólust upp í verðbólguþjóðfélaginu íslenska. Þrálát verðbólga var á þessum árum innbyggð í sjálft stjórnkerfið og orðin að sérstökum lífsstíl. Verðbólgan var knúin áfram af sjálfvirkri víxlverkan verðlags og launa. Kjarasamningar, jafnvel upp á tugi prósenta, héldu ekki, því að kaupmátturinn eyddist í verðbólgunni. Verðbólguvæntingarnar stýrðu hugsunarhætti og athöfnum fólks. Glataður var geymdur eyrir. Sparnaður var nánast refsivert athæfi. Engir haldbærir mælikvarðar voru til á arðsemi fjárfestinga. Allt var talið borgað sig, ef það var bundið nógu hratt í steinsteypu. Munurinn á verðlagi og tilkostnaði innan lands og meðal viðskiptaþjóða kallaði á reglubundnar gengisfellingar krónunnar til þess að halda sjávarútveginum að meðaltali ofan við núllið.

Lesa meira

Á ÉG AÐ GÆTA BRÓÐUR MÍNS?

Þorgrímur Gestsson: Öryggissjóður verkalýðsins – Baráttan fyrir atvinnuleysistryggingum á Íslandi. 316 bls. Útgefandi: Atvinnuleysistryggingasjóður.

Þótt þessi bók sé harla ólíkleg til að ná inn á metsölulista bókaútgefenda, er hún samt áhugaverð um margt og kannski einmitt þess vegna. Í fyrsta lagi er hún áhugaverð vegna þess að hún lýsir hugmyndafræðilegum ágreiningi milli ráðandi stjórnmálaafla um uppbyggingu velferðarríkis á Íslandi. Hún skýrir líka, hvers vegna jafnaðarmönnum á Íslandi tókst ekki að fá lög um atvinnuleysistryggingar virk í framkvæmd fyrr en árið 1956, hálfri öld síðar en í Danmörku og Noregi og löngu eftir að atvinnuleysistryggingar voru lögfestar í Finnlandi (1917) og í Svíþjóð (1938).

Reyndar voru atvinnuleysistryggingar hluti af löggjöfinni um almannatryggingarnar, sem Haraldur Guðmundsson, fyrsti ráðherra Alþýðuflokksins í ríkisstjórn hinna vinnandi stétta, náði fram á þinginu 1935-36. En kaflinn um atvinnuleysistryggingar sætti svo harðri andstöðu forystumanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks og tók svo miklum breytingum í meðförum þingsins , að lögin máttu heita óvirk í framkvæmd. Þótt árstíðarbundið atvinnuleysi mætti heita fastur liður í lífi sjávarplássanna og langvarandi atvinnuleysi hrjáði mörg alþýðuheimili á kreppu- og samdráttartímum, treystu verkalýðsfélögin sér ekki til að leggja þær kvaðir – iðgjöld – á fátækt verkafólk, sem þurft hefði til að virkja lögin.

Lesa meira

ÞAÐ EINA SEM ÞEIR SKILJA

Það er sagt, að allt vald spilli. Og að allsherjarvald spilli algerlega. Valdhafar sem venjast því, að þeir séu fæddir til valda, og að fátt eða ekkert geti hróflað við völdum þeirra, ganga yfirleitt á lagið. Það býður spillingunni heim.

Til þess er lýðræðið og réttarríkið að koma í veg fyrir spillingu valdaeinokunar. Hvorugt er sjálfgefið. Hvorugt hefur áunnist í eitt skipti fyrir öll. Aðhald að valdhöfum krefst stöðugrar árvekni kjósenda, stjórnarandstöðu, fjölmiðla. Vald kjósenda er í því fólgið að geta skipt út valdhöfum með reglulegu millibili. Það kemur í veg fyrir, að valdhafarnir umgangist valdið sem sjálfgefið.

Lesa meira

TIL UMHUGSUNAR FYRIR KJÓSENDUR, ÁÐUR EN GENGIÐ ER AÐ KJÖRBORÐINU:TÍU ÁSTÆÐUR TIL AÐ SKIPTA UM VALDHAFA

Kosningar snúast um að velja fulltrúa til að fara með völd. Valdið er vandmeðfarið. Það er sagt, að allt vald spilli. Og að allsherjarvald spilli algerlega. Valdhafar sem venjast því, að þeir séu fæddir til valda og að fátt eða ekkert geti hróflað við völdum þeirra, ganga yfirleitt á lagið. Það býður spillingunni heim.

Eins flokks kerfi er yfirleitt gerspillt, jafnvel þótt kosningar fari fram til málamynda. Ef sami valdahópurinn ræður ríkisvaldinu, sveitarstjórnum og fjölmiðlum, og hefur auk þess sterk ítök í fjármálalífinu, er hætt við, að valdið stígi honum til höfuðs. Að hann telji sig smám saman hafinn yfir almennar leikreglur. Og komist upp með hvað sem er.

Lesa meira

ER SJÁLFSTÆÐISFLOKKNUM TREYSTANDI FYRIR HAGSTJÓRNINNI

Í Silfri Egils s.l. sunnudag 22. apríl lýsti Agnes Bragadóttir, stjörnublaðamaður Morgunblaðsins,
því yfir, að hana hryllti við tilhugsuninni um vinstristjórn eftir kosningarnar 12. maí. Að baki þessum ummælum
Agnesar býr trúlega hin lífseiga goðsögn um, að Sjálfstæðisflokknum sé einum treystandi fyrir hagstjórninni. En er það svo? Hver er dómur staðreyndanna?

“EES-samningurinn breytti öllu.”

Eftir að áhrifa EES- samningsins tók að gæta upp úr 1994 hefur ríkt nær samfellt góðæri á Íslandi, þótt slegið hafi í bakseglin um og upp úr aldamótunum. EES-samningurinn meira en hundraðfaldaði hinn örsmáa íslenska heimamarkað, innleiddi evrópskar samkeppnisreglur, greiddi fyrir stórauknum viðskiptum og skapaði tækifæri til nýrra fjárfestinga. Þar með hófst nýtt framfaraskeið á Íslandi. Í viðtali við Viðskiptablaðið segir Einar Sveinsson, formaður bankastjórnar Glitnis: EES-samningurinn breytti öllu.

Lesa meira

HIÐ OPNA ÞJÓÐFÉLAG OG ÓVINIR ÞESS

Eiríkur Bergmann Einarsson: OPIÐ LAND – Ísland í samfélagi þjóðanna. 138 bls. Skrudda 2007.

Eins og heiti bókarinnar bendir til, leitast höfundur við að skýra og skilgreina stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna á hraðfara breytingaskeiði, sem kennt er við hnattvæðingu. Sjálfur tekur hann afdráttarlausa afstöðu út frá grundvallarsjónarmiðum: Hann vill opna landið upp á gátt og lítur á hnattvæðinguna fremur sem tækifæri en ógnun.

Höfundur ræðir stöðu Íslands sem jaðarríkis eða aukaaðila að Evrópusambandinu. Hann ræðir fumkennd viðbrögð íslenskra ráðamanna við einhliða ákvörðun Bandaríkjastjórnar um heimkvaðningu varnarliðsins. Hann ræðir um land óttans – Bandaríkin undir Bush – og að hve litlu haldi hernaðaryfirburðir Bandaríkjamanna koma í herför þeirra gegn hinum ósýnilega óvini. Hann ræðir um fjölmenningarþjóðfélag og viðbrögð hinna ríku þjóðfélaga Vesturlanda við innstreymi fátæks fólks í leit að atvinnu og bættum kjörum. Og spyr, hvað sé til ráða? Þá fjallar hann um afleiðingar búverndarstefnunnar fyrir bæði bændur og neytendur. Hann ræðir um stöðu ísl-enskunnar í sívaxandi alþjóðasamskiptum og um hermennskuleiki íslenskra friðargæsluliða, sem koma frá hinu herlausa landi. Loks ræðir hann um úrelt sendiráð, sem að hans mati hefur dagað uppi í veröld, sem stjórnast af hraðsamskiptum á veraldarvefnum.

Lesa meira

SJÁLFSHJÁLPARBÓK HANDA (HUGSANDI) KJÓSENDUM

Hörður Bergmann: Að vera eða sýnast: gagnrýnin hugsun á tímum sjónarspilsins. 154 bls. Skrudda 2007.

Málflutningsrit eða rökræðubókmenntir eru fásénar í íslenskri bókaflóru. Gagnrýnin hugsun – það að lýsa efasemdum um viðtekna venjuhugsun, virðist varla eiga heima í íslenskri umræðuhefð. Hefðin sú er mestan part ad hominem, þ.e.a.s. við hneigjumst til að hjóla í höfundinn sjálfan fremur en hugmyndir hans. En um hvað snúast umvandanir höfundar þessarar bókar?

Þær snúast um að afhjúpa vanahugsun, sem stenst lítt eða ekki, þegar nánar er að gáð. Hún snýst um að afhjúpa sjónarspilið og sýndarveruleikann, sem valdhafar, hagsmunaaðilar, atkvæðabraskarar og kaupahéðnar búa til, af því að það hentar þeim. Hér er reynt að kryfja heilaspuna og viðburðastjórnun valdhafanna og bera glansmynd þeirra saman við veruleikann, eins og venjulegt fólk kann að upplifa hann. Þetta er þörf hugarleikfimi á kosningaári, þegar kjörbúðaauglýsingar ráðandi flokka hellast yfir okkur, samkvæmt samkomulagi nýgerðu um allt að 28 milljónir pr. flokk (nota bene milljónirnar koma allar úr vösum skattgreiðenda, þannig að þeim er sjálfum ætlað að borga herkostnaðinn).

Lesa meira

NÝJA ÁHÖFN Í SEÐLABANKANN. VIÐTAL JAKOBÍNU DAVÍÐSDÓTTUR VIÐ JÓN BALDVIN FYRIR TÍMARITIÐ MANNLÍF

Það hefur ekki farið fram hjá þeim sem á annað borð fylgjast eitthvað með stjórnmálaumræðunni hér landi að hvarvetna er rætt um Evrópumál. Þar sem þrír eða fleiri koma saman ber Evrópusambandið á góma og sýnist sitt hverjum.

Eftirfarandi viðtal tók Jakobína Davíðsdóttir, blaðakona og stjórnmálafræðingur, við Jón Baldvin fyrir tímaritið Mannlíf í mars 2007.

Lesa meira