Þegar minnt er á þessa staðreynd bregst formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi forsætisráðherra við með því að segja að það megi ekki perónugera vandann. Meðan allt lék í lyndi og góðærið ríkti (þótt það væri að vísu mestan part tekið að láni) þótti sjálfsagt að persónugera dýrðina í persónu Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra (1991-2004). En nú þegar spilaborgin er hrunin og þjóðarbúið er ein rjúkandi rúst er bannað að persónugera vandann. Þá er ekkert Davíð að kenna, hvorki sem forsætisráðherra né Seðlabankastjóra. Þaðan af síður þykir kurteislegt að persónugera vandann í persónu varaformanns flokksins og fjármálaráðherra (1998-2006). Umræðan verður samkvæmt þessu að fara fram undir nafnleynd.
BER ENGINN PÓLITÍSKA ÁBYRGÐ?
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið ráðandi afl í stjórnmálum á Íslandi á lýðveldistímanum. Síðastliðin sautján ár hefur flokkurinn farið með allt í senn forsætisráðuneytið, fjármálaráðuneytið og stjórn Seðlabankans(í persónum tvegga fyrrverandi borgarstjóra Reykjavíkur). Þar með ber Sjálfstæðisflokkurinn óumdeilanlega höfuðá byrgð á þeirri efnahagsstefnu, sem nú hefur beðið algert skipbrot.