Þetta er það sem þróunaraðstoð á að snúast um: Að hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft. Nú til dags er þetta kallað sjálfbær þróun. Leiðtogar ríku þjóðanna, sem eru fulltrúar u.þ.b. sjötta parts jarðarbúa, hafa ítrekað heitið því við drengskap sinn að veita 0.7% af þjóðarframleiðslu sinna ríku þjóða til þróunaraðstoðar við hinar fátæku. Þeir hafa svikið þessi loforð, allir með tölu – nema ríkisstjórnir jafnaðarmanna í Svíþjóð, Noregi, Danmörku ogHollandi.
AÐ ÚTRÝMA FÁTÆKT EÐA FRIÐA SAMVISKUNA
Á bökkum Karlsárinnar í Boston stendur lítt áberandi minnismerki um fiskimanninn sem skyggnir hönd fyrir augu og horfir til hafs. Á stöplinum stendur skrifað eitthvað á þessa leið: Gefirðu manni einn fisk, getur hann satt hungur sitt þann daginn; en kennirðu honum að fiska, þá hefur hann lært að sjá sér og sínum farborða til frambúðar.