ÞAÐ EINA SEM ÞEIR SKILJA

Það er sagt, að allt vald spilli. Og að allsherjarvald spilli algerlega. Valdhafar sem venjast því, að þeir séu fæddir til valda, og að fátt eða ekkert geti hróflað við völdum þeirra, ganga yfirleitt á lagið. Það býður spillingunni heim.

Til þess er lýðræðið og réttarríkið að koma í veg fyrir spillingu valdaeinokunar. Hvorugt er sjálfgefið. Hvorugt hefur áunnist í eitt skipti fyrir öll. Aðhald að valdhöfum krefst stöðugrar árvekni kjósenda, stjórnarandstöðu, fjölmiðla. Vald kjósenda er í því fólgið að geta skipt út valdhöfum með reglulegu millibili. Það kemur í veg fyrir, að valdhafarnir umgangist valdið sem sjálfgefið.

Lesa meira

TIL UMHUGSUNAR FYRIR KJÓSENDUR, ÁÐUR EN GENGIÐ ER AÐ KJÖRBORÐINU:TÍU ÁSTÆÐUR TIL AÐ SKIPTA UM VALDHAFA

Kosningar snúast um að velja fulltrúa til að fara með völd. Valdið er vandmeðfarið. Það er sagt, að allt vald spilli. Og að allsherjarvald spilli algerlega. Valdhafar sem venjast því, að þeir séu fæddir til valda og að fátt eða ekkert geti hróflað við völdum þeirra, ganga yfirleitt á lagið. Það býður spillingunni heim.

Eins flokks kerfi er yfirleitt gerspillt, jafnvel þótt kosningar fari fram til málamynda. Ef sami valdahópurinn ræður ríkisvaldinu, sveitarstjórnum og fjölmiðlum, og hefur auk þess sterk ítök í fjármálalífinu, er hætt við, að valdið stígi honum til höfuðs. Að hann telji sig smám saman hafinn yfir almennar leikreglur. Og komist upp með hvað sem er.

Lesa meira

ER SJÁLFSTÆÐISFLOKKNUM TREYSTANDI FYRIR HAGSTJÓRNINNI

Í Silfri Egils s.l. sunnudag 22. apríl lýsti Agnes Bragadóttir, stjörnublaðamaður Morgunblaðsins,
því yfir, að hana hryllti við tilhugsuninni um vinstristjórn eftir kosningarnar 12. maí. Að baki þessum ummælum
Agnesar býr trúlega hin lífseiga goðsögn um, að Sjálfstæðisflokknum sé einum treystandi fyrir hagstjórninni. En er það svo? Hver er dómur staðreyndanna?

“EES-samningurinn breytti öllu.”

Eftir að áhrifa EES- samningsins tók að gæta upp úr 1994 hefur ríkt nær samfellt góðæri á Íslandi, þótt slegið hafi í bakseglin um og upp úr aldamótunum. EES-samningurinn meira en hundraðfaldaði hinn örsmáa íslenska heimamarkað, innleiddi evrópskar samkeppnisreglur, greiddi fyrir stórauknum viðskiptum og skapaði tækifæri til nýrra fjárfestinga. Þar með hófst nýtt framfaraskeið á Íslandi. Í viðtali við Viðskiptablaðið segir Einar Sveinsson, formaður bankastjórnar Glitnis: EES-samningurinn breytti öllu.

Lesa meira

HIÐ OPNA ÞJÓÐFÉLAG OG ÓVINIR ÞESS

Eiríkur Bergmann Einarsson: OPIÐ LAND – Ísland í samfélagi þjóðanna. 138 bls. Skrudda 2007.

Eins og heiti bókarinnar bendir til, leitast höfundur við að skýra og skilgreina stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna á hraðfara breytingaskeiði, sem kennt er við hnattvæðingu. Sjálfur tekur hann afdráttarlausa afstöðu út frá grundvallarsjónarmiðum: Hann vill opna landið upp á gátt og lítur á hnattvæðinguna fremur sem tækifæri en ógnun.

Höfundur ræðir stöðu Íslands sem jaðarríkis eða aukaaðila að Evrópusambandinu. Hann ræðir fumkennd viðbrögð íslenskra ráðamanna við einhliða ákvörðun Bandaríkjastjórnar um heimkvaðningu varnarliðsins. Hann ræðir um land óttans – Bandaríkin undir Bush – og að hve litlu haldi hernaðaryfirburðir Bandaríkjamanna koma í herför þeirra gegn hinum ósýnilega óvini. Hann ræðir um fjölmenningarþjóðfélag og viðbrögð hinna ríku þjóðfélaga Vesturlanda við innstreymi fátæks fólks í leit að atvinnu og bættum kjörum. Og spyr, hvað sé til ráða? Þá fjallar hann um afleiðingar búverndarstefnunnar fyrir bæði bændur og neytendur. Hann ræðir um stöðu ísl-enskunnar í sívaxandi alþjóðasamskiptum og um hermennskuleiki íslenskra friðargæsluliða, sem koma frá hinu herlausa landi. Loks ræðir hann um úrelt sendiráð, sem að hans mati hefur dagað uppi í veröld, sem stjórnast af hraðsamskiptum á veraldarvefnum.

Lesa meira

SJÁLFSHJÁLPARBÓK HANDA (HUGSANDI) KJÓSENDUM

Hörður Bergmann: Að vera eða sýnast: gagnrýnin hugsun á tímum sjónarspilsins. 154 bls. Skrudda 2007.

Málflutningsrit eða rökræðubókmenntir eru fásénar í íslenskri bókaflóru. Gagnrýnin hugsun – það að lýsa efasemdum um viðtekna venjuhugsun, virðist varla eiga heima í íslenskri umræðuhefð. Hefðin sú er mestan part ad hominem, þ.e.a.s. við hneigjumst til að hjóla í höfundinn sjálfan fremur en hugmyndir hans. En um hvað snúast umvandanir höfundar þessarar bókar?

Þær snúast um að afhjúpa vanahugsun, sem stenst lítt eða ekki, þegar nánar er að gáð. Hún snýst um að afhjúpa sjónarspilið og sýndarveruleikann, sem valdhafar, hagsmunaaðilar, atkvæðabraskarar og kaupahéðnar búa til, af því að það hentar þeim. Hér er reynt að kryfja heilaspuna og viðburðastjórnun valdhafanna og bera glansmynd þeirra saman við veruleikann, eins og venjulegt fólk kann að upplifa hann. Þetta er þörf hugarleikfimi á kosningaári, þegar kjörbúðaauglýsingar ráðandi flokka hellast yfir okkur, samkvæmt samkomulagi nýgerðu um allt að 28 milljónir pr. flokk (nota bene milljónirnar koma allar úr vösum skattgreiðenda, þannig að þeim er sjálfum ætlað að borga herkostnaðinn).

Lesa meira

NÝJA ÁHÖFN Í SEÐLABANKANN. VIÐTAL JAKOBÍNU DAVÍÐSDÓTTUR VIÐ JÓN BALDVIN FYRIR TÍMARITIÐ MANNLÍF

Það hefur ekki farið fram hjá þeim sem á annað borð fylgjast eitthvað með stjórnmálaumræðunni hér landi að hvarvetna er rætt um Evrópumál. Þar sem þrír eða fleiri koma saman ber Evrópusambandið á góma og sýnist sitt hverjum.

Eftirfarandi viðtal tók Jakobína Davíðsdóttir, blaðakona og stjórnmálafræðingur, við Jón Baldvin fyrir tímaritið Mannlíf í mars 2007.

Lesa meira

HELGI HAFLIÐASON – MINNING

Á árunum upp úr fyrra stríði stóð opinn fiskmarkaður Reykvíkinga, þar sem nú er vinsælasti veitingastaður borgarinnar – Bæjarins besta – við Tryggvagötu. Árið 1922 – árið sem Helgi frændi minn, Hafliðason, fæddist fyrir áttatíu og fjórum árum – byrjaði faðir hans að selja reykvískum húsmæðrum ferskan fisk beint af kerrunni. Þetta var upphafið að Fiskbúð Hafliða, sem alla tíð síðan hefur verið stofnun í bæjarlífinu, hvernig svo sem allt annað hefur velkst og horfið í tímans ólgusjó. Fiskbúð Hafliða var einn af þessum föstu púnktum í tilverunni, sem stóð af sér áreiti tímans.

Faðir Helga var Hafliði Baldvinsson, bróðir Jóns Baldvinssonar, sem var forseti Alþýðusambandsins og þar með formaður Alþýðuflokksins fyrstu tvo áratugina og rúmlega það. Þeir skiptu með sér verkum, þessir bræður að vestan. Annar sá alþýðu manna fyrir hollri næringu við vægu verði; hinn barðist fyrir bættum kjörum hins stritandi lýðs samkvæmt boðorðinu, að verður væri verkamaðurinn launanna.

Lesa meira

HVER Á ÍSLAND?

Þann 31. mars n.k. mun athygli allra landsmanna beinast að ykkur Hafnfirðingum. Þann dag svarið þið því, hvort ykkur hugnast tillögur bæjarstjórnar um deiliskipulag vegna stækkunar álversins í Straumsvík. Það er mál, sem varðar framtíð ykkar bæjarfélags, kannski næstu hálfa öldina eða svo. Það er ykkar ákvörðun og ekki annarra.

En um leið og þið kjósið sjálfum ykkur örlög, mun ákvörðun ykkar ráða miklu um framhald þeirrar stóriðjustefnu, sem ríkisstjórn og þingmeirihluti hefur kappsamlega fylgt fram á undanförnum árum. Það varðar þjóðina alla. Ég ætla mér ekki þá dul að blanda mér í ykkar sérmál,. Reyndar get ég með góðri samvisku sagt, að ég hef tröllatrú á pólitískri dómgreind Hafnfirðinga. Hér er hreinn meirihluti jafnaðarmanna við völd. Hafnfirðingar áréttuðu það í seinustu sveitarstjórnarkosningum, að Hafnarfjörður er höfuðvígi jafnaðarstefnunnar á Íslandi.

Lesa meira