Gömlu sovétforstjórarnir urðu að ofurríkum ólígörkum, sem sölsuðu undir sig auðlindum þjóðarinnar. Og hverjir sitja í Kreml? Gamla KGB- klíkan er komin aftur og ræður nú lögum og lofum. Hún beitir sömu aðferðum og áður, enda kann hún ekkert annað: Hún starfar með leynd, hún stjórnar allri upplýsingamiðlun (censor) , hún beitir valdinu til að kúga einstaklinga til hlýðni (fjármálastofnanir, dómstólar). Og hún ræður fjölmiðlunum. Vissulega efnir hún til kosinga – en það gerði Stalín líka.Er þetta lýðræði? Nei, þetta er sú tegund valdstjórnar (e.authoritarianism) sem byggir á rússneskum hefðum, frá keisaranum til KGB. Eftir upplausnarástandið á tímum Gorbachevs og Yeltsins láta þessir menn stjórnast af sterkri löngun til að endurreisa völd og áhrif rússneska nýlenduveldisins. Olíubúmið hefur gert þeim kleift að fjármagna fyrirtækið. Vígvöllurinn, þar sem úrslitin munu ráðast, heitir Úkraína…
FRÁ PRAG TIL VILNU – PUNKTAR ÚR UMRÆÐUM
Af hverju er ekkert lýðræði í Rússlandi?
Með byltingu er átt við það að nýr valdahópur ryður þeim gamla úr vegi, þannig að það verða skýr skil milli þess sem var og þess sem verður. Þetta gerðist ekki í Rússlandi 1991. Kannski er ástæðan sú að breytingin varð að mestu leyti friðsamleg. Gömlu valdaklíkunni – nomenklatúrunni – var ekki rutt úr vegi með vopnavaldi. Í raun og veru var sovétkommúnisminn bara einkavæddur; hann skipti um kennitölu ef svo má segja.