Reyndar voru atvinnuleysistryggingar hluti af löggjöfinni um almannatryggingarnar, sem Haraldur Guðmundsson, fyrsti ráðherra Alþýðuflokksins í ríkisstjórn hinna vinnandi stétta, náði fram á þinginu 1935-36. En kaflinn um atvinnuleysistryggingar sætti svo harðri andstöðu forystumanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks og tók svo miklum breytingum í meðförum þingsins , að lögin máttu heita óvirk í framkvæmd. Þótt árstíðarbundið atvinnuleysi mætti heita fastur liður í lífi sjávarplássanna og langvarandi atvinnuleysi hrjáði mörg alþýðuheimili á kreppu- og samdráttartímum, treystu verkalýðsfélögin sér ekki til að leggja þær kvaðir – iðgjöld – á fátækt verkafólk, sem þurft hefði til að virkja lögin.
Á ÉG AÐ GÆTA BRÓÐUR MÍNS?
Þorgrímur Gestsson: Öryggissjóður verkalýðsins – Baráttan fyrir atvinnuleysistryggingum á Íslandi. 316 bls. Útgefandi: Atvinnuleysistryggingasjóður.
Þótt þessi bók sé harla ólíkleg til að ná inn á metsölulista bókaútgefenda, er hún samt áhugaverð um margt og kannski einmitt þess vegna. Í fyrsta lagi er hún áhugaverð vegna þess að hún lýsir hugmyndafræðilegum ágreiningi milli ráðandi stjórnmálaafla um uppbyggingu velferðarríkis á Íslandi. Hún skýrir líka, hvers vegna jafnaðarmönnum á Íslandi tókst ekki að fá lög um atvinnuleysistryggingar virk í framkvæmd fyrr en árið 1956, hálfri öld síðar en í Danmörku og Noregi og löngu eftir að atvinnuleysistryggingar voru lögfestar í Finnlandi (1917) og í Svíþjóð (1938).