Ung kynslóð og óþreyjufull var að hasla sér völl í aðdraganda þessara kosninga. Þar fór fremstur í flokki Vilmundur Gylfason. Hann hafði allt aðra sýn á þjóðfélagið en þeir kerfiskallar, sem sátu á fleti fyrir og vörðu sérhagsmuni hins pólitíska samtryggingarkerfis af gömlum vana. Þeir skildu varla, hvað var á seyði. Ef krafan var ekki um frjálsar ástir, þá var hún a.m.k. um opin prófkjör, frjálsa fjölmiðla, beint kjör forsætisráðherra, vinnustaðasamninga um kaup og kjör, frjálsan opnunartíma verslana (og svokallaðra skemmtistaða) og sitt hvað fleira. Þetta hljómaði róttækt og þar af leiðandi hættulegt. En kerfið varð klumsa. Það stóð þetta áhlaup af sér. “Arkitekt kosningasigursins” var settur utan garðs. Og lífið hélt sinn vanagang.
VITJUNARTÍMI
Kosningaúrslitin 1978 – fyrir tæpum 30 árum – voru eins og pólitískur jarðskjálfti, a.m.k. 7.5 á Richter. Það skalf allt og nötraði. Hefðbundin helmingaskiptastjórn Sjálfstæðisframsóknarflokksins var við völd, þá sem nú. Stjórnmálaforystan í landinu bar sýnileg þreytumerki, eftir að hafa hjakkaði í sama farinu árum saman, án árangurs. Undir niðri kraumaði óánægja, sem braust upp á yfirborðið í kosningunum. Tvíflokkur helmingaskiptanna galt afhroð. A-flokkana vantaði aðeins þrjá þingmenn í starfhæfan meirihluta. Það þótti næstumþví bylting. Kosningaúrslitin voru krafa um breytingar. En skilaboð nýrrar kynslóðar komust ekki til skila. Stjórnmálaforystan var ekki vandanum vaxin. Sjáandi sá hún ekki og heyrandi heyrði hún ekki. Þess vegna fór sem fór. Tómt klúður.