Í samanburði við þetta sköpunarverk náttúrunnuar verður að játa, í nafni sannleikans, að mönnunum hafa verið mislagðar hendur við að reisa sín mannvirki í sátt við umhverfið. Þjóðvegurinn – Vesturlandsvegur – klýfur byggðalagið í tvennt. Út um bílrúðuna blasir við vegfaranda kjarni vaxandi bæjarfélags: Kentucky Fried Chicken, Esso-bensínstöð (með samráði) og amrísk vídeóspóluleiga. Hraklegra getur það varla verið. Þetta er eins og sýnishorn um sjónmengun. Hvaða mannvitsbrekkur voru það, sem hugkvæmdist að hrinda hugmyndum sínum um mannlegt samfélag í framkvæmd með þessum hætti? Amrísk bílaborg þar sem þú fyllir tankinn og hámar í þig ruslfæðið inn um bílgluggann og pikkar upp innantóma afþreyingarspólu um leið og þú forðar þér burt af staðnum. Er þetta ekki síðbúin hrollvekja um Mr. Skallagrímsson in the deep south?
HROKI OG HEIGULSHÁTTUR
Það mun vera leitun á byggðu bóli á Íslandi, þar sem mannanna verk eru jáfnólundarlega upp á kant við sköpunarverk náttúrunnar og Mosfellsbær. Það þarf ekki að príla hátt í hlíðar Helgafells til að skynja búsæld Reykja- og Mosfellsdals. Þar hefur verið víða gott undir bú. Varmá og Leirvogsá liðast um blómlegt undirlendið. Útsýnið er fagurt og fjallasýn háleit. Við erum hérna á fornum söguslóðum.