Allir gegndu þeir lykilhlutverki, þegar mest á reið. Þjóðir þeirra fundu í sínu innsta eðli, að þeim væri treystandi fyrir sjálfu fjöregginu: Sameiginlegri menningu og reynslu þjóða í ánauð. Það var von til þess, að fulltrúar annarra þjóða, sem hittu þessa menn, augliti til auglitis, gætu skilið, að það var barist fyrir einhverju, sem skipti máli; tungumáli, sögu, reynslu, í einu orði sagt – menningu – sem heimurinn stæði snauðari eftir, ef hún færi forgörðum. Það er framlag listamannsins til lífsins. Þeir voru kjörnir til að berjast fyrir lífi þjóða sinna, af því að þeir skildu hvað það er, sem gefur lífinu gildi. Réttir menn á réttum stað á réttum tíma. Hvers frekar geta menn óskað sér af örlagadísunum?
LENNART MERI, FYRRVERANDI FORSETI EISTLANDS
Af öllum þessum mönnum, sem voru í fararbroddi sjálfstæðishreyfinga Mið- og Austur Evrópu á árunum 1988 fram að falli Ráðstjórnarríkjanna 1991 og ég kynntist á þessum árum, skera þrír sig úr. Lennart Meri frá Eistlandi, Vytautas Landsbergis frá Litháen og Vaclav Havel frá Tékkóslóvakíu. Auðvitað ber að geta rafvirkjans frá Gdansk, Walensa, en honum kynntist ég aldrei. En þessi þrír, sem ég gat í upphafi, voru allir listamenn. Enginn þeirra hefði náð frama í pólitík undir venjulegum kringumstæðum. Til þess voru þeir allir of óvenjulegir. Þeir voru listamenn, sem kerfið skildi að voru hættulegir af því að menning þjóða þeirra var þeim runnin í merg og bein. Kerfið skildi, að ef það tækist að uppræta þá – einangra þá og drepa andlega – þá væri ekkert eftir.