Starf aðalsamningamanns Íslands í EES – samningunum við Evrópubandalagið var hápunkturinn á starfsferli Hannesar Hafsteins. Hafi einhverjir haft um það efasemdir fyrirfram, að Hannes væri réttur maður á réttum stað í því vandasama hlutverki, þá velktist enginn í vafa um það eftirá. Hvorki við, sem bárum pólitíska ábyrgð á samningsgerðinni, né viðsemjendur okkar, hið harðsnúna samningagengi Evrópusambandsins, sem hefur samningatækni að atvinnu alla daga ársins.
HANNES HAFSTEIN- MINNING
“Ert þú þessi frægi Hannes?” – spurði Gro Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs þegar ég kynnti fyrir henni Hannes Hafstein, aðalsamningamann Íslands í samningum EFTA-ríkjanna við Evrópusambandið um Evrópska efnahagssvæðið. Það sem við köllum EES í daglegu tali. Tónninn gaf til kynna að henni þætti nokkuð til þess koma að taka í höndina á þessum alræmda samningaþjarki Íslands. Þeir eru ekki margir, embættismenn íslenskir, sem forsætisráðherrar í útlöndum leita uppi á alþjóðafundum til þess að mega kasta á þá kveðju. Stjórnmálaforingjum, hverrar þjóðar sem þeir eru, er yfirleitt flest annað betur gefið en örlæti í garð annarra. Þessi saga segir því meira en mörg orð um þau bæði – Gro Harlem og Hannes.