ÓFYRIRGEFANLEGT?

Tilraun Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins og fv. menntamálaráðherra, til að varpa sök af Icesave-reikningnum af forystu Sjálfstæðisflokksins yfir á aðra (sjá: “Á að semja um Icesave?”, Mbl., 13.06.) kallar að lágmarki á eftirfarandi leiðréttingar:

Það var ekkert “regluverk Evrópusambandsins” , sem tók ákvörðun um að stofna útibú Landsbankans fyrir sparifjárinnistæður í Bretlandi og Hollandi á árunum 2006-08. Regluverk taka ekki ákvarðanir. Þeir sem tóku þá örlagaríku ákvörðun voru bankastjórnar Landsbankans, þeir Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson, á ábyrgð formanns bankaráðsins og varaformanns, þeirra Björgólfs Guðmundssonar og Kjartans Gunnarssonar. Allt eru þetta dyggir sjálfstæðismenn, Kjartan m.a.s. framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, svo lengi sem elstu menn muna.

Lesa meira

AF SKÚRKUM OG FÓRNARLÖMBUM ICESAVE-MÁLSINS

VEI YÐUR, ÞÉR HRÆSNARAR.
Hvað svo sem mönnum finnst um samningsniðurstöðuna í Icesave-málinu, þá er eitt víst: Stjórnarandstöðuflokkarnir, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn, ættu síst af öllum að þykjast þess umkomnir að gagnrýna núverandi ríkisstjórn, hvað þá heldur núv. fjármálaráðherra, Steingrím J. Sigfússon, fyrir að hafa haldið illa á málum eða fyrir að hafa lagt drápsklyfjar á þjóðina að ósekju.

Núverandi ríkisstjórn hafði enga samningsstöðu í þessu máli. Ábyrgðin á þessu klúðri er ekki hennar, heldur forvera hennar. Stjórnarandstaðan (að Borgarahreyfingunni undanskilinni) ætti því að sjá sóma sinn í að þegja. Og að hafa hægt um sig á næstunni.

Lesa meira

COMMUNIST UTOPIA EÐA DRAUMALANDIÐ?

Vofa gengur ljósum logum um Evrópu. Vofa kommúnismans. Var það ekki einhvern veginn svona, sem Kommúnistaávarpið byrjar? Og nú er það komið aftur í tísku. Því til staðfestingar er troðfullur salur 102 á Háskólatorgi í gærkvöldi til að hlusta á nýja spámenn, þá Negri og Hardt – Ítala af skóla Gramscis og amerískan lærisvein hans af ítölskum uppruna, greinilega – sem voru mættir til þess að boða fagnaðarerindið strandaglópum frjálshyggjunnar á Íslandi. Fyrir gamlan marxista var þetta eins og að hverfa aftur á vit bernskunnar; að færast aftur í tímann um circa hálfa öld eða svo. Get ég mér rétt til um það að fyrir hrun hefðu kannski mátt búast við að tuttugu sálir eða svo hefðu sýnt sig á safnaðarfundi hjá nihilistum? En nú er öldin önnur. Kapítalisminn er hruninn. Vofa kommúnismans gengur aftur ljósum logum. Marx er kominn í tísku. Kannski er útópía kommúnismans einmitt hér og nú.

Á fundinum stóð upp ung stúlka og sagði fundarmönnum þau tíðindi, að hún hefði nýlega farið á verkstæði hjá bílaumboði með bílinn sinn, sem þarfnaðist viðgerðar. Þegar hún heyrði verðið á varahlutunum, varð henni á að spyrja: Hver á þetta verkstæði? Og svarið sem hún fékk var: Ég og þú, mín kæra. Sumsé: Einkaeignarrétturinn er farinn veg allrar veraldar. Framleiðslutækin (fyrirtækin) eru í höndum ríkisins. Öll völd eru hjá sovétinu – rétt eins og Lenin sagði. Sjálft kapítalið – bankarnir – hefur verið þjóðnýtt. Að vísu er það bara skuldirnar, sem kapítalistarnir skildu eftir sig. En það er sama. Eins og Hardt rifjaði upp fyrir fundargestum, þá er hin sígilda skilgreining kommúnismans: “Afnám einkaeignarréttar – þjóðnýting framleiðslutækjanna.” Er þetta ekki bara búið og gert? Og meðan ég man: Var það ekki Sjálfstæðisflokkurinn, sem lét það verða sitt síðasta verk, rétt áður en hann hrökklaðist út úr stjórnarráðinu, að setja neyðarlög um allsherjar þjóðnýtingu og öll völd til ríkisins? Ég veit ekki betur.

Lesa meira

Svar til Þorsteins Helga

Heill og sæll, Þorsteinn Helgi:
Það gleður mig að heyra frá frænda, sem ég geng út frá að beri nafn sr. Þorsteins í Vatnsfirði og Helga í Dal. Er það rétt til getið? Mér sýnist af þinni orðsendingu, að við verðum að sætta okkur við að vera sammála um að vera ósammála, þrátt fyrir frændsemina. Og allt í lagi með það af minni hálfu.

Það er satt sem þú segir, að ESB mun ekki borga fyrir okkur; líka að við verðum “sjálf að vinna okkur út úr þessu”. Það sem okkur greinir á um er, hvernig það verði best gert. Ég tel, að okkur sé fyrir bestu að byggja upp fjölbreytt þjóðfélag, sem skapar störf fyrir vel menntað fólk í hagkerfi sem er opið og virkur þátttakandi í alþjóðaviðskiptum. Forsendan fyrir því að byggja upp þjóðfélag af þessu tagi er stöðugleiki. Þennan stöðugleika tryggjum við best með þátttöku í stærra myntsvæði.

Lesa meira

HEIMSSÝN – ÞRÖNGSÝN?

Hvað eiga þeir sameiginlegt, Hannes Hólmsteinn og Hjörleifur Guttormsson? Eða Ragnar Arnalds og Pétur Blöndal? Þeir eru allir í Heimssýn., samtökum þjóðernissinna gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þar sameinast það sem sumir kalla últra-vinstrið og öfga-hægrið í einum söfnuði – gegn sameiginlegum óvini. Það segir sína sögu. Ég hef stundum leyft mér að hafa þetta pólitíska skyndibrúðkaup öfganna í flimtingum og sagt, að selskapurinn ætti að heita Þröngsýn. Við áberandi daufar undirtektir minna gömlu bekkjarbræðra, Ragnars og Styrmis.

Heimssýn hélt fund í háskólanum í hádeginu í gær. Tilefnið var, að norskir trúboðar að nafni Seierstad og Lindblad frá norsku Nei-hreyfingunni voru mættir til að segja okkur, hvers vegna Norðmenn hafa í tvígang (1972 og 1994) hafnað aðildarsamningum við Evrópusambandið. Frændur okkar, Norðmenn, eru sér á báti meðal smáþjóða Evrópu að þessu leyti.

Lesa meira

ÆTLAR RÍKIÐ AÐ BORGA ÞAÐ SEM MARKAÐURINN AFSKRIFAR?

Orðaskipti okkar Gylfa Magnússonar, viðskiptaráðherra, um áorðnar afskriftir á markaði á skuldum gömlu bankanna, hafa leitt til líflegra skoðanaskipta. Ólafur Arnarson hefur fullyrt, að skuldabréf gömlu bankanna hafi lent í ýmsum vafningum og gengið kaupum og sölum á MARKAÐNUM með gríðarlegum afföllum. Janfvel túkall fyrir hundraðkallinn.

Gylfi ráðherra svarar þessu upp á kiljönsku á þann veg, að hann geti ekki undanþegið “vont fólk” frá stjórnarskrárvörðum “eignarétti sínum”. Skuldabréf eru sem sé skuldabréf. Eigandi skuldabréfs, sem MARKAÐRUINN hefur verðfellt, hefur ekki verið sviptur neinum eignarétti. Hann tók áhættu og tapaði. Það er lögmál markaðarins.
Þótt spákaupmaðurinn kaupi hundraðkrónubréf fyrir túkall á MARKAÐNUM , er hið lögfræðilega sjónarmið eftir sem áður, að hinn upphaflegi samningur (“contract”) haldi gildi sínu – þótt heimurinn hrynji og MARKAÐURINN segi allt annað. Hingað til hafa hagfræðingar hallast að því, að handafl stjórnvalda komi fyrir lítið, ef það er í blóra við verðmyndun MARKAÐARINS. MARKAÐURINN blívur.

Lesa meira

UM BÓK AUÐUNS ARNÓRSSONAR – INNI EÐA ÚTI?

SAMNINGSSTAÐA OG SAMNINGSMARKMIÐ

– Aðildarviðræður við Evrópusambandið
Alþjóðamálastofnun og Rannsóknarsetur um smáríki – Háskólaútgáfan, 2009

Þetta er lítil bók um mikið efni: Hvernig á litla Ísland að semja um aðild við hið stóra Evrópusamband? Umræðuefnið er þessi dægrin á hvers manns vörum, við eldhúsborðið og á vinnustaðnum. Þessi litla bók á því brýnt erindi við alla Íslendinga, sem á annað borð kæra sig ekki kollótta um framtíð sína og sinna.

Að vísu er þetta ekki eins stór ákvörðun og virðast mætti við fyrstu sýn. Við erum nefnilega engir nýgræðingar í Evrópusamstarfi. Þann 1. jan. s.l. voru 15 ár liðin frá því að Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Eins og höfundur sýnir fram á, þýðir það að við erum eins konar aukaaðilar að ESB nú þegar. Í samningaviðræðunum framundan þurfum við því aðeins að semja um tiltölulega fá vandmeðfarin málasvið: Þau sem skipta mestu máli eru: Sjávarútvegur, landbúnaður og byggðamál, evrusamstarfið og kostnaður og mönnun örþjóðar í hinum stóru stofnunum ríkjasambandsins.

Lesa meira

OPIÐ BRÉF TIL VIÐSKPTARÁÐHERRA

Herra viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon.

Um leið og ég óska þér persónulega velfarnaðar í embætti viðskiptaráðherra – og síðar meir efnahagsmálaráðherra – nýrrar ríkisstjórnar, vil ég leyfa mér að vekja athygli þína á grein eftir Ólaf Arnarson, sem birtist í vefritinu “Pressan.is” í gær, fimmtudag. Í greininni eru settar fram fullyrðingar, sem varða mjög almannahag í ríkjandi neyðarástandi. Fullyrðingarnar eru þess eðlis, að miklu varðar að fá trúverðug svör um sannleiksgildi þeirra. Þær varða líka beinlínis afkomu þúsunda heimila og fyritækja í landinu og þar með þjóðarhag. Allar varða þessar spurningar málasvið, sem ég fæ ekki betur séð en heyri undir þitt ráðuneyti, sem ráðuneyti bankamála.

Höfundur fyrrnefndrar greinar, Ólafur Arnarson, hefur starfað hjá innlendum og erlendum fjármálafyrirtækjum. Hann gaf nýlega út bók um hrun íslenska fjármálakerfisins undir heitinu: Sofandi að feigðarósi. Að sögn útgefanda hans er þekkingu Ólafs og reynslu á sviði alþjóðafjármála viðbrugðið. Mér sýnist því ærin ástæða til að taka fullyrðingar Ólafs í fyrrnefndri grein alvarlega. Þar sem það getur skipt sköpum um afkomu og framtíðarhag fjölda heimila og fyrirtækja í landinu, hvort fullyrðingar Ólafs reynast sannleikanum samkvæmar eða ekki, leyfi ég mér að beina til þín eftirfarandi spurningum með beiðni um svör við fyrstu hentugleika.

Lesa meira

SWINDLER´S LIST: HAGFRÆÐI EÐA HINDURVITNI?

Það er ekki óvenjuleg sjón nú til dags, að sjá viðskiptahölda leidda í handjárnum í tugthúsið – þ.e.a. s. á sjónvarpsskjám í Bandaríkjunum. Vísbendingarnar hrannast nú upp frá degi til dags um, að okkar menn hafi ekki gefið amerískum kollegum sínum neitt eftir í svindlinu.

Samt hefur enginn verið ákærður ennþá, hvað þá sakfelldur. Hvað dvelur réttvísina? “Slow justice is no justice”, segja Bretar. Það er of seint að bíða þangað til tætararnir hafa eytt öllum sönnunargöngunum, eins og Dr. William K. Black, hagfræðiprófessor við háskólann í Kansas City í Missouri, sagði í háskólafyrirlestri í Öskju s.l. mánudag, 11. maí.

Lesa meira

HANS OG KLEMENS

Heill, Hans.
Enginn sögulegur réttur = engar veiðar innan íslenskrar lögsögu.
Grænbókin er hugmyndapottur um allar hugsanlegar breytingar á sameiginlegu fiskveiðistefnunni. Þeir sem til þekkja vita hins vegar, að reglan um hlutfallslegan stöðugleika blívur. Hvorki þú né Klemens þurfið að kynna ykkur það betur.

Kvótahopp er vandamál þar sem margar þjóðir veiða úr sameiginlegum stofnum á sameigainlegu hafsvæði. Það á ekki við um Ísland. Það er nóg af vandamálum í heiminum, þó að þið bætið ekki við með ímyndunaraflinu.
Með vinsemd.
JBH