Nú er ljóst að þeir þrír stjórnmálaflokkar sem ábyrgð hafa borið á stjórn landsins á örlagatímanum frá einkavæðingu fram að hruni, munu ganga til kosninga undir nýrri forystu. Þótt spurningin um póitíska ábyrgð flokksleiðtoga og ríkisstjórnaroddvita á búsifjum eins og íslenska þjóðin hefur mátt þola, sé ekki þar með útkljáð, auðveldar þetta frambjóðendum að einbeita sér að umræðu um framtíðarlausnir fremur en að dvelja um of við fortíðina.
Það á að vera einn skipstjóri um borð.
Fyrstu viðbrögð mín við þeirri ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að draga sig í hlé frá stjórnmálum af heilsufarsástæðum eru þau að óska þess af heilum hug að hún geti nú einbeitt sér að því að ná fullri heilsu á ný. Heilsan er það dýrmætasta sem hver manneskja á. Enginn skyldi útiloka það að Ingibjörg Sólrún, sem er kona á besta aldri, eigi afturkvæmt í stjórnmál á ný, hneigist hugur hennar til þess eftir að hún hefur aftur náð fullum bata.