Svona byrjaði rithöfundarferill Bills Holm sem var mestur rithöfundur íslenskur á enska tungu um okkar daga. Bill var ljóðskaldið sem skrifaði svo magnaðan prósa að hann vakti hina dauðu til lífsins. Mannlífslýsingar dregnar fáum sterkum dráttum vekja til lífsins persónur sem gætu borið uppi nýjar Íslendingasögur. Sagan af konunni sem ól önn fyrir öllum hinum í þorpinu, hjúkraði hinum sjúku, annaðist hina öldruðu í einsemd þeirra og fóstraði ungviðið, sagan sú er af þessu taginu. Þegar hún svo féll frá eftir fórnfúst starf og langa ævi kom á daginn að þessi kona las heimsbókmenntir á fjórum eða fimm tungumálum og spilaði músík sem var ættuð úr konsertsölum heimsborganna og hafði aldrei heyrst í endalausri flatneskju lággróðursins á gresjunni.
“ÓÐUR TIL ÚTLAGANS”
Hvað á að gera þegar maður snýr að lokum aftur heim að nálgast fertugt, staurblankur, atvinnulaus og fráskilinn, án þess að hafa fengið nokkuð sem heitið getur gefið út og manns nánustu ýmist elliærir eða dauðir? Maður byrjar að skrifa. Og smám saman finnur maður aftur sjálfan sig og fer að yrkja ljóð og mála myndir í tungumálið af þessum gömlu íslensku innflytjendum, frændum og frænkum, sem mann fram af manni geymdu heimalandið í hjartastað, þótt örlögin hefðu sent þau forsendingu í þetta framandlega pláss ái sléttunni í miðpunkti Ameríku þar sem er jafnlangt en svo óralangt til beggja stranda.